Jeffrey Gunter, hinn óvinsæli fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, greinir frá því að hann hafi farið fram á það að íslensk stjórnvöld hættu stuðningi við Black Lives Matter. Einnig að hann hafi neitað að styrkja Hinsegin daga.
Gunter er núna að bjóða sig fram til að verða efni Repúblíkanaflokksins í kosningu um öldungadeildarsæti í fylkinu Nevada. Hann segist styðja Trump til forseta.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skipaði húðlækninn Jeffrey Gunter sem sendiherra Íslands sumarið 2018 og gegndi hann embættinu út forsetatíð Trump, eða til ársloka árið 2020.
Þó að embættistíð Gunter hafi ekki verið löng þá var hún vissulega viðburðarík og Íslendingar og Bandaríkjamenn búsettir á Íslandi langt því frá sáttir við hann.
Eftir að Fréttablaðið greindi frá covid-smiti innan veggja sendiráðsins uppnefndi Gunter blaðið sem „Fake News Frettabladid“. Sakaði hann blaðið um að nota covid smit í „pólitískum tilgangi“.
Bandaríska fréttastofan CBS greindi frá því að Gunter vildi bera skammbyssu á meðan hann væri hér á Íslandi. Að hann óttaðist um öryggi sitt. Einnig að hann hafi krafist þess að sitja í brynvörðum bíl með vopnaða lífverði og stunguvesti. Var Gunter sakaður um vænisýki eftir það.
Starfsmannavelta var mjög mikil í tíð Gunter og hann rak fólk fyrir minnstu tilefni. Þá var kvartað yfir því að vinnuumhverfið í sendiráðinu hafi verið óbærilegt. Bandaríkjamenn búsettir á Íslandi töldu stöðuna óviðunandi og hrundu sumarið 2020 af stað undirskriftasöfnun til að fá Trump til að víkja Gunter úr embætti. Það tókst ekki.
Í nóvember árið 2021 birti innra eftirlit bandaríska utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna svarta skýrslu um starfsemi sendiráðsins undir stjórn Gunter. Sagt var að ógnarstjórn hafi ríkt í sendiráðinu og samskipti við Ísland hafi verið í molum vegna Gunters.
Í kosningabaráttu sinni hefur Gunter orðið tvísaga um stuðning sinn við Hinsegin daga í Reykjavík. Á heimasíðu hans segir að eitt af afrekum hans sem sendiherra hafi verið að styrkja Hinsegin daga árið 2019 um 11 þúsund dollara, eða rúma eina og hálfa milljón krónur. Það er fyrir hönd bandarískra stjórnvalda.
Við Fox News dró hann úr þessu og sagði að stuðningurinn hefði verið hluti af því verkefni Donald Trump að afglæpavæða samkynhneigð um víða veröld og standa gegn stjórnvöldum eins og til dæmis í Íran þar sem samkynhneigð er ólögleg.
„Það að ganga í Pride göngu jafngildir ekki stuðningi við eitt eða neitt sem einhver annar er að segja eða gera í sams konar göngu einhvers staðar í heiminum,“ sagði Gunter. En í Pride göngum í Bandaríkjunum hafði stuðningi verið lýst við Black Lives Matter og að dregið yrði úr fjárframlögum til lögreglunnar, vegna morðsins á George Floyd.
„Til að skýra málið þá gaf ég aldrei samtökunum pening, það var búið að samþykkja fjárveitinguna áður en ég kom. Þar að auki neitaði ég að gefa þeim pening árið 2020 og gaf í staðinn pening til samtaka sem styrkja fatlaða. Ég bað einnig íslenska sendiherrann í Bandaríkjunum að fjarlægja stuðningsyfirlýsingu við Black Lives Matter á vefsíðu íslenskra stjórnvalda,“ sagði Gunter. Íslensk stjórnvöld hafi hins vegar ekki orðið við því.