Í tilkynningu Reykjavíkurborgar til kauphallarinnar sem lögð var fram 8. nóvember síðastliðinn kemur fram að samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að borgarsjóður taki lán fyrir allt að 21 milljarð króna á þessu ári. Það sem af er árinu nemur fjármögnunin 20,92 milljörðum króna.
Fyrirhuguð skuldabréfaútboð borgarinnar sem fara áttu fram samkvæmt útgáfuáætlun 15. nóvember og 6. desember næst komandi falla þar af leiðandi niður.
Á fundi borgarstjórnar þann 7. nóvember síðastliðinn var tillaga borgarstjóra um lántökur næsta árs samþykkt en samkvæmt tillögunni munu þær nema 16,5 milljörðum króna. Enginn borgarfulltrúi greiddi atkvæði á móti tillögunni en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna sátu hjá.
Í greinargerð með tillögunni segir að þær séu hugsaðar til til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2024 og til að fjármagna stofnframlög vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Einnig á að nýta lántökuna til fjármögnunar á stofnframlögum B-hluta fyrirtækja og hlutdeildarfélaga í eigu borgarinnar.
Í tillögunni er lagt til að veita sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs umboð til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast skuldabréfaútgáfu borgarsjóðs og til þess að taka á móti, undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökunum en einstakar lántökur verði lagðar fyrir borgarráð til afgreiðslu.
Í greinargerðinni segir tillagan miðist við að um 80 prósent af fjárfestingum ársins 2024 séu fjármagnaðar með langtímalánum. Einnig stofnframlög borgarinnar til húsnæðissjálfseignarstofnana og fyrirtækja sem uppfylli skilyrði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum samkvæmt lögum.
Gert er ráð fyrir að fjármögnun fjárfestinga fari aðallega fram í gegnum skuldabréfaflokka borgarsjóðs sem eru skráðir í Kauphöll Íslands að undanskildum einum flokki sem ekki er skráður í kauphöllina. Jafnframt komi til álita að fjármögnun ársins verði með útgáfum á nýjum löngum eða styttri skuldabréfaflokkum, beinni lántöku eða með öðrum hætti með hliðsjón af markaðsaðstæðum.
Á árinu 2021 hafi borgin gefið út stuttan óverðtryggðan skuldabréfaflokk með lokagjalddaga í maí 2024 að fjárhæð 4,9 milljarðar króna til að mæta halla á rekstri sem rekja hafi mátt til viðbragða við aðstæðum í efnahagslífinu. Fyrr á þessu ári hafi einnig verið samið við Íslandsbanka um lánaramma að fjárhæð allt að 6 milljarðar króna.