Hlutabréf Marels hafa hækkað um nær átta prósent það sem af er degi. Innherji á Vísi greindi frá því í morgun að rætt væri um að hluthafar í Eyri hyggist koma með 12 milljarða til styrktar félaginu og virðist það leggjast vel í fjárfesta.
Eyrir Invest er stærsti hluthafinn í Marel og ráðandi hluthafar í Eyri hafa verið feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson, sem í vikunni lét af störfum sem forstjóri Marels eftir 10 ár í starfi vegna veðkalls frá Arion banka á hluta af bréfum hans í Eyri Invest. Í kjölfarið óskaði Árni Oddur eftir greiðslustöðvun.
Lengst af í forstjóratíð hans var mikill vöxtur á Marel og hlutabréf þess margfölduðust í verði. Síðustu tvö árin hafa bréfin hins vegar lækkað um tæplega 2/3 og í hækkandi vaxtaumhverfi hafa fjárfestar haft áhyggjur af skuldsetningu Marels, en félagið hefur fjárfest mikið með kaupum á öðrum fyrirtækjum.
Fyrstu tvo dagana eftir afsögn Árna Odds lækkuðu hlutabréfin í Marel um meira en 12 prósent en við orðróminn í morgun tóku þau kipp upp á við, sem gefur til kynna að innspýting frá stærsta hluthafanum geti orðið sá hvati sem til þarf til að gengi hlutabréfa Marels verði stöðugra og þau fari að hækka á ný.
Búast má við að aukin áhersla verði nú lögð á að draga úr skuldsetningu Marels og treysta eiginfjárstöðuna, en tekjustreymi þess er mjög öflugt þótt hækkandi fjármagnskostnaður hafi skapað titring meðal fjárfesta.