fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hafnar því að norskur dómur sé kjaftshögg fyrir orkupakkaandstæðinga – „Ísland er ekki með sæstreng“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 1. nóvember 2023 18:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjólfur Ármannsson, formaður samtakanna Orkan okkar, er ekki sammála þeim sem segja nýjan hæstaréttardóm í Noregi áfall fyrir málstaðinn. Hæstiréttur Noregs úrskurðaði að þriðji orkupakkinn væri minniháttar inngrip sem fæli ekki í sér fullveldisafsal.

„Ísland er ekki tengt. Ísland er ekki með sæstreng,“ segir Eyjólfur, sem jafn framt er þingmaður Flokks fólksins. „Baráttan er öðruvísi hérna.“ Segir hann niðurstöðuna ekki hafa komið sér á óvart. Svo lítið reyndar að hann hafi verið tilbúinn að veðja aleigunni upp á að svona myndi fara.

Ekki stjórnarskrárbrot

Samtökin Nei til EU, sem hafa barist gegn innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, fóru í mál gegn norska ríkinu vegna afgreiðslu þingsins árið 2018 sem þau töldu stjórnarskrárbrot. En tvo þriðju hluta atkvæða þingsins þarf til að afgreiða fullveldisafsal.

Málið tapaðist á tveimur lægri dómstigum og í gær, þriðjudag, úrskurðaði hæstiréttur að einfaldur þingmeirihluti hefði nægt til þess að samþykkja orkupakkann og aðild að ACER, samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði Evrópu. Orkupakkinn væri lítið inngrip og ACER fái ekki ákvörðunarvald yfir raforkuverði eða lagningu sæstrengja. Norsk stjórnvöld geti áfram sett skilyrði varðandi útflutning orku. En talsmenn Nei til Eu höfðu haldið því gagnstæða fram.

Fullveldinu alls ekki ógnað

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamála og dómsmálaráðherra og stuðningsmaður innleiðingar orkupakkans, fjallar um dóminn á heimasíðu sinni bjorn.is. Þar lýsir hann dómnum sem skell fyrir orkupakkaandstæðinga.

„Efnislega niðurstaðan staðfestir það sem fylgismenn þriðja orkupakkans sögðu hér á landi í langvinnum deilum um málið – fullveldinu er alls ekki ógnað. Samþykkt orkupakkans skyldar ekki íslenska ríkið til að fara að erlendum fyrirmælum um lagningu sæstrengs. Það er alfarið á forræði Íslendinga. Þá geta íslensk yfirvöld sett eigin skilyrði fyrir útflutningi á orku,“ segir Björn. „Í stuttu máli stendur ekkert efnislega eftir af stóryrtum fullyrðingum þriðja orkupakkaandstæðinganna hér á árunum 2018/19. Upphlaupið verður óskiljanlegra eftir því sem lengra líður frá því.“

Fleiri taka í sama streng. Meðal annars Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. Á facebook skrifar hún:

„Hæstiréttur Noregs hefur kveðið upp mikilvægan en nokkuð fyrirsjáanlegan dóm, í þriðja orkupakkamálinu. Fullveldinu stendur engin ógn af þessum samningi, það eru engir að fara að stela rafmagninu eða neyða ríki til að selja raforku í gegnum sæstreng. Þingmenn Miðflokksins og þáv. dómari og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks geta andað léttar.“

Áttu ekki pening fyrir málsókn

Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Íslandi í september árið 2019 eftir langt málþóf. 46 þingmenn kusu með þingsályktunartillögunni en 13 á móti, en það voru þingmenn Miðflokksins, Flokks fólksins og Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem voru á móti.

Aðspurður um hvers vegna orkupakkaandstæðingar hér hafi ekki farið í mál eins og í Noregi segir Eyjólfur lagaumgjörðina öðruvísi hér en þar. Það er að hér sé engin krafa um tvo þriðju hluta atkvæða fyrir fullveldisafsali í stjórnarskrá. Þá hafi samtökin heldur ekki verið nógu burðug til að lögsækja. „Það var ekki til peningur til þess,“ segir Eyjólfur.

Sjá einnig:

Viðsnúningur landsmanna í afstöðu til þriðja orkupakkans – Kjósendur Miðflokksins með mestar áhyggjur

Hann hafnar því hins vegar alfarið að dómurinn sé kjaftshögg fyrir orkupakkaandstæðinga hér. Baráttan hér sé allt annars eðlis en í Noregi. Bendir Eyjólfur á grein Björns sjálfs, úr Morgunblaðinu frá því í marsmánuði árið 2018, þar sem Björn segir:

„Hagsmunir Norðmanna eru allt aðrir en Íslendinga í þessu efni vegna margra tenginga norsks raforkumarkaðar við ESB-svæðið.“

Dómurinn breyti engu hér

Eyjólfur býst enn þá við því að Íslendingar verði skikkaðir til þess að leggja raforkusæstreng. Eina fyrirstaðan sé kostnaðurinn við lagninguna, en ef upp kæmi dómsmál vegna þess að íslensk stjórnvöld höfnuðu sæstreng myndu þau vafalítið tapa því.

„Þetta er sambærilegt við að samþykkja frjáls vöruviðskipti á evrópska efnahagssvæðinu en neita að byggja hafnir. Ef við samþykkjum frjálst raforkuflæði á evrópska innri markaðinum en neitum að byggja sæstreng þá er það samningsbrot,“ segir Eyjólfur. Dómurinn í Noregi breyti engu um það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Í gær

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“