Alls hafa 236 einkafyrirtæki og einkafélög heimild til að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli og birta ársreikninga í erlendum gjaldmiðli í stað íslenskrar krónu. Þetta kemur fram í skriflegu svari Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar.
Þá kemur fram að þrjú opinber fyrirtæki hafa heimild til að gera upp í erlendri mynt. Þetta eru Landsvirkjun og Landsnet, sem gera upp í Bandaríkjadölum, og Farice, sem gerir upp í evrum.
Erlendar myntir sem einkafyrirtæki gera upp í eru eftirfarandi:
Á þessu ári fengu 15 fyrirtæki heimild til að gera upp í erlendri mynt og eitt fyrirtæki hefur fengið heimilt til að gera upp í erlendri mynt fyrir reikningsárið sem hefst 1. janúar 2024.
Til að fyrirtæki geti fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt þarf það að uppfylla skilyrði sem koma fram í 7. og 8. grein laga nr. 3/2006 um ársreikninga um að viðkomandi gjaldmiðill skuli vera starfrækslugjaldmiðill þess.
Í svari ráðherra kemur fram að ekki sé hægt að upplýsa um skiptingu þessara félaga og fyrirtækja milli atvinnugreina samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands vegna þess að við skil á ársreikningum veiti félög ekki upplýsingar um atvinnugreinaflokkun til ársreikningaskrár.
Þetta er athyglisvert vegna þess að á síðasta þingi lagði Þorbjörg Sigríður sömu spurningu fyrir ráðherra og fékk svar þar sem m.a. birtist full sundurgreining á því hvernig félögin og fyrirtækin skiptast milli atvinnugreina.
Þar kemur m.a. fram að yfir 40 fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi gera upp í erlendri mynt. 68 fyrirtæki eru skilgreind sem eignarhaldsfélög, 13 eru í hugbúnaðargerð.
Félögum sem gera upp í erlendri mynt virðist fækka úr 248 í 239 milli ára en mögulega er samantektin ekki að öllu leyti sambærileg.
Árið 2022 gerðu íslensk félög upp í eftirfarandi myntum:
Frá árinu 2013 hafa samtals 122 félög fengið heimilt til að gera upp í erlendri mynt og gerir meirihluti þeirra upp í evrum.