fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Bjarni segir engan ágreining milli hans og Katrínar um Ísrael og Palestínu – „Segðu þingflokki VG það“

Eyjan
Mánudaginn 6. nóvember 2023 17:05

Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í dag var nokkuð rætt um yfirstandandi stríðsátök fyrir botni Miðjarðarhafs. Þremur spurningum um þetta viðfangsefni var beint til Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra og var þá ekki síst rætt um andstöðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og þingflokks Vinstri Grænna við þá ákvörðun Bjarna að Ísland sæti hjá við samþykktun ályktunar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé. Stjórnarandstaðan vildi meina að forsætisráðherra og utanríkisráðherra töluðu ekki einni röddu þegar kæmi að utanríkisstefnu Íslands en Bjarni fullyrti að enginn ágreiningur væri milli sín og Katrínar um utanríkisstefnuna og að stjórnarandstaðan væri að „kokka“ þennan meinta ágreining upp.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar var fyrst til að spyrja Bjarna. Hún sagði það skipta máli að Ísland talaði einni og skýrri röddu á alþjóðavettvangi og spurði Bjarna hvort það væri stefna hans eða Katrínar sem gilti:

„Því spyr ég hæstvirtan utanríkisráðherra: Ef utanríkisráðherra segir eitt en forsætisráðherra annað, hvort gildir? Hvort gildir utanríkisstefna utanríkisráðherrans eða það sem höfuð ríkisstjórnarinnar segir í kjölfarið þegar hún lýsir opinberri andstöðu við ákvörðun utanríkisráðherra?“

Bjarni sagði það rangt að sú afstaða sem birtist hjá forsætisráðherra og þingflokki Vinstri grænna sé í andstöðu við þá utanríkisstefnu sem Ísland kynnti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna:

„Það er enginn efnislegur ágreiningur um þau meginatriði sem við höfum lagt áherslu á í allsherjarþinginu, sem er að það verði að gera vopnahlé, það verði að fylgja alþjóðalögum án undantekninga og það verði að koma neyðarbirgðum til fólks sem þjáist og er í algerri neyð.“

„Ég bara kannast ekki við að það sé ágreiningur um utanríkisstefnu Íslands þó að það komi mér ekkert á óvart að menn sjái einhver pólitísk sóknarfæri í því að halda því fram.“

Hafði Bjarni að lokum eftirfarandi orð eftir ónefndum þingmanni:

„Hefur stjórnarandstaðan ekkert uppbyggilegra til málanna að leggja en þetta?“

Kristrún kom þá aftur í pontu og sagðist umræður um málið ekki snúast um að taka djúpt í árinni eða pólitísk sóknarfæri. Það þurfi að veita fólki á svæðinu von:

„Ég segi alveg eins og er að mér þykir miður að þessi ríkisstjórn geti ekki talað einni röddu í þessum viðkvæma málaflokki, með einum tóni sem hæfir aðstæðum.“

Undir þessum orðum var kallað:

„Heyr, heyr.“

Bjarni kom þá aftur í pontu og las upp úr yfirlýsingu fulltrúa Íslands á allsherjarþinginu:

„Í þessari yfirlýsingu er sömuleiðis kallað eftir því að það verði gert mannúðarhlé á átökunum. Mjög skýrt. Þannig að efnislegi ágreiningurinn sem háttvirtur þingmaður er að kokka hér upp er ekki til staðar.“

Kallaði þá einn þingmanna fram í:

„Segðu þingflokki VG það.“

Sagði dapurlegt að spyrja hvað hann hefði lært

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gerði opinberan ágreining ráðherranna um ályktunina að umtalsefni í sinni fyrirspurn. Hún taldi samskiptin bera vott um fálmkennd vinnubrögð og spurði Bjarna hvað hann hefði lært af þessu.

Bjarni sagði allt of mikið gert úr meintri gjá milli Íslands og ríkja eins og Noregs sem samþykktu ályktunina á allsherjarþingi SÞ. Hann sagði spurningu Þorgerðar Katrínar vera dapurlega:

„Að kalla eftir því á meðan staðan er jafn alvarleg og við horfum upp á fyrir botni Miðjarðarhafs að efna til einhverrar sérstakrar umræðu um það hvað maður hafi lært af þessum samskiptum, sem að mínu mati voru bara eðlileg og í samræmi við venjur og hefðir, finnst mér heldur dapurlegt. Það verð ég að segja.“

Bjarni hvatti til meiri samstöðu á þingi þegar kemur að stríðsátökunum fyrir botni Miðjaraðarhafs. Hann ítrekaði það í svörum sínum við spurningum Gísli Rafn Ólafssonar, þingmannns Pírata. Gísli Rafn spurði Bjarna meðal annars hvort hann teldi Ísraelsmenn hafa gengið of langt í aðgerðum sínum. Bjarni sagði svo vera og svaraði með eftirfarandi hætti:

„Ég hef sagt það mjög skýrt að við séum með skýrar vísbendingar um að mannúðarlög séu brotin, m.a. með því að það er komið í veg fyrir að nauðþurftir berist inn á neyðarsvæði. Ég veit ekki hvernig ég gæti verið skýrari með þetta atriði. Ég er sömuleiðis búinn að vera mjög skýr allan tímann um að við veitum engan afslátt á því að það beri að virða alþjóðalög. Í því felst m.a. að margt af því sem við höfum séð getur ekki flokkast öðruvísi en að menn hafi gengið allt of langt miðað við það að menn eru að bregðast við þeirri árás sem varð hér 7. október, það eru sömuleiðis brot sem beri að rannsaka og eigi að hafa afleiðingar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu