fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Ógnin við frjálsa hugsun

Eyjan
Sunnudaginn 5. nóvember 2023 17:30

Salman Rushdie Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsbyggðin var felmtri slegin er fregnir bárust af tilræðinu við rithöfundinn Salman Rushdie hinn 12. ágúst í fyrra. Árásin sýndi hversu vægðarlaus og um leið þolinmóður óvinurinn er en klerkastjórnin í Teheran lýsti Rushdie réttdræpan árið 1989 í kjölfar útgáfu Söngva Satans. Rushdie varð fyrir fjölmörgum hnífstungum tilræðismannsins og missti meðal annars sjón á öðru auga. Fyrr á þessu ári kom út bókin Knife: Meditations After an Attempted Murder, þ.e. Hnífur. Hugleiðingar í kjölfar morðtilraunar. Í viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Der Spiegel segir Rushdie bókina leið sína til að takast á við afleiðingar árásarinnar — með þeim eina hætti sem honum sé fær, þ.e. skrifum. Hann kveðst hafa viljað svara ofbeldisverkinu með listaverki.

Tildrög viðtalsins í Spiegel eru þau að Rushdie hlaut á dögunum friðarverðlaun þýskra bókaútgefanda og bókakaupmanna sem veitt eru ár hvert í Pálskirkjunni í Frankfurt í tengslum við bókamessuna.

Að vilja afmá listaverk

Rushdie segir í viðtalinu að einræðisöflum standi ætíð stuggur af rithöfundum því ynni lesandinn ritverki hefði það áhrif á hann; heimssýn sú sem birtist í bókinni yrði gjarnan heimssýn lesandans, að minnsta kosti um stundarsakir. Bækur gætu þannig haft afgerandi áhrif á  hugsunarhátt fólks. Hann nefndi sem dæmi þegar Abraham Lincoln Bandaríkjaforseti var kynntur fyrir Harriet Beecher Stowe árið 1862 hefði hann látið svo um mælt: „Svo þér eruð hinn lágvaxni kvenmaður sem kveikt hefur hið mikla ófriðarbál,“ og vísaði þar til þrælastríðsins sem þá geisaði. Stowe var eindreginn andstæðingur þrælahalds, en bók hennar Kofi Tómasar frænda hafði komið út áratug fyrr.

Rushdie gerir tjáningarfrelsið að umtalsefni í viðtalinu. Í Bandaríkjunum séu ýmis fremstu ritverk sögunnar fordæmd þessi misserin og þess jafnvel krafist að þau verði bönnuð. Slík sjónarmið heyrist jafnt frá hægri og vinstri. Því sé meira að segja haldið fram að svo svæsið kynþáttahatur birtist í áðurnefndri bók Stowe að rétt sé að banna hana.

Rushdie segir fullkomlega réttlætanlegt að menn viðri andstöðu sína og fyrirlitningu á bókum en öðru máli gegndi um þá tilhneigingu að vilja afmá listaverk sem þeim kynnu að mislíka. Blaðamanni Spiegel varð þá að orði: „En er ekki skiljanlegt að tilteknir minnihlutahópar …“ Rushdie greip orðið og lauk við setninguna: „… séu sérlega viðkvæmir og þarfnist þess vegna verndar gegn meiðandi efni? Ég veit, ég þekki röksemdafærsluna. En ég hafna henni.“

Að forðast rökræður

Blaðamaður spurði þá hvort ekki þyrfti að vernda minnihlutahópa sem ættu sér ef til vill fáa formælendur. Rushdie nefndi þá á móti að það væru einmitt minnihlutahópar sem helst yrðu fyrir barðinu á ritskoðun. Þeir sem á okkar tímum töluðu fyrir ritskoðun væru í reynd að skaða það fólk sem þeir teldu sig hjálpa. Líki mönnum ekki bækur skyldu þeir ekki lesa þær — og jafnvel bara skrifa sjálfir bók. Það viðhorf sé orðið mjög útbreitt, sér í lagi meðal stúdenta á Vesturlöndum, að komi eitthvað fram sem móðgi þá eða meiði verði að útrýma því hinu sama.

Blaðamaður Spiegel vísaði þá til ummæla sem hann eignaði Voltaire: „Ég kann að hafa aðra afstöðu en þú en ég mun fórna lífi mínu til að verja rétt þinn til að tjá skoðun þína.“ Rushdie kvaðst taka undir þetta viðhorf nema hvað ummælin væru ekki frá Voltaire komin. Það væri svo miklu auðveldara að þagga niður í mönnum en horfast í augu við þá og sannfæra með rökum. Og háskólar yrðu að vera vettvangur rökræðna.

Lítum okkur nær

Rushdie lét svo um mælt í viðtali við The Guardian fyrir tveimur árum að líklega myndu mun færri taka málstað hans á okkar dögum ef nú kæmi fram yfirlýsing frá klerkastjórninni um að rithöfundurinn skyldi réttdræpur. Það helgist af því að sífellt fleiri í okkar samtíma telji óréttmætt að hópar manna verði fyrir móðgunum. Í því sambandi er þó rétt að huga að því að fyrir Rushdie vakti ekki að móðga múslima — hann er einfaldlega þeirrar skoðunar að trúarsetningar séu efniviður sem listamönnum sé frjálst að notfæra við sköpun sína en þannig hefðu til að mynda vestrænir listamenn umgengist kristindóminn.

Bandaríski rithöfundurinn David Rieff kveðst þess fullviss að kæmu Söngvar Satans út fyrst nú væri næsta víst að sú gagnrýni heyrðist að verið væri að móðga hóp manna og sá sem ritaði texta af þessu tagi fengi að heyra að „orð væru ofbeldi“ eins og oft er tekið orða í bandarískri þjóðmálaumræðu þessi misserin. Rieff benti á að tal af þessu tagi minnti illþyrmilega á skilning ofstrúarklerkanna í Íran.

Árásin á Salman Rushdie kemur okkur öllum við enda var hún tilræði við grundvöll vestræns lýðræðis og frumlega sköpun — tjáningar- og skoðanafrelsi. En líkt og Rushdie bendir á í viðtalinu í Spiegel er ógnin við frjálsa hugsun og frjálsa tjáningu ekki bara utanaðkomandi. Hana er líka að finna innan vestrænna samfélaga.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu