fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Út úr heimsósómanum

Eyjan
Föstudaginn 3. nóvember 2023 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gegnum tíðina hef ég stundum verið þungt haldin af heimsverk, það er, áhyggjum af ástandi mála á Íslandi hverju sinni og reyndar, af því að EKKERT er mér óviðkomandi, hafa áhyggjur mínar ósjaldan teygt sig um gjörvalla veröld. Ég ímynda mér greinilega að með geðvonskunni einni saman geti ég haft áhrif á gang mála og að hjá Sameinuðu þjóðunum sitji jafnvel í röðum verklaust dragtar- og jakkafataklætt fólk og bíði í andakt eftir því að ég hafi velt mér andvaka, bölvandi og ragnandi heila nótt! Kostulegt bull ekki satt?

Af og til hefur mér þó tekist að slíta mig lausa frá heimsósómanum, stundum þvert gegn vilja mínum því aðstæður hafa beinlínis krafist þess, stundum vegna vinnu en nú á síðustu árum æ oftar með beinum vilja.

Þegar maður snýr aftur til mannheima sér maður ævinlega að ekkert hefur breyst og ég verð æ fljótari að snúa mér undan. Ekki af því að mér sé sama, langt í frá. Þetta er bara sorglega líkt því að labba inn á bar og hitta fólk sem maður var að djamma með fyrir 20 árum og heyra allar handraðasögurnar aftur. Bara súrari og sárari.

Við lifum í eilífum endurtekningum, þrætum með nýjum persónum og leikendum. Hver keimlíki skandallinn rekur annan, eilífðarstyrjaldir geisa og lítið verður okkur ágengt því miður, þrátt fyrir andvökunæturnar, erjurnar, svo ekki sé minnst á *geðbólgurnar sem hrjá mann þegar maður telur sig hafa rétt fyrir sér og aðrir rangt.

Er mannkynið ekki bara hamstrar fastir í hjóli sem snýst eins og jörðin sjálf? Það er engu líkara.

Þrátt fyrir svokallaðar framfarir þá er samhliða ætíð einhverskonar hnignun. Það sem þykir úrelt í dag því nýrra þykir betra er látið víkja og endalaus dæmi eru um það hversu oft mannkynið hefur í villu glatað niður mikilvægri þekkingu í oflæti sínu. Þetta er kannski bara lögmálið, hin sífella fæðing og dauði alls sem er.

Kannski er mannsheilinn fremur takmörkuð græja eftir allt?

Erum við núna stödd í hnignuninni miðri þar sem okkur er að takast með sjálfskaðahegðun að ganga ansi nærri okkur sem dýrategund? Þau sem valdið hafa hvert sem litið er eru löngu búin að missa bæði sjón og heyrn og heill mannkynsins er langt í frá í þeirra öndvegi.

Í þeirri súpu sitjum við svo valdalaus og tökumst á innbyrðis í nauðvörn hins aðþrengda og þjáða. Þar á einmanaleg sjálfsréttlætingin hásæti, þar skilgreinum við mannkynið í, okkur og aðra, og þar með útilokum við okkur frá hinu sammannlega og þá slökkna ljósin hratt eitt af öðru.

Hvað er til ráða þegar maður missir trúna á mannkynið? Á maður að loka sig frá umheiminum? Á maður bara að snúa sér að sínum nánustu? Ég hef engin svör en eitthvað segir mér að mannkynið verði nú og kannski sem aldrei fyrr að standa saman til að verja sína eigin tegund. Ef mannkynið á yfirleitt áframhaldandi erindi hér á jörðinni?

Í slíkri baráttu þurfum við öll að læra að setja okkur í annara spor, líta á aðra sem við skiljum lítt sem birtingarmynd mennskunnar sem við verðum með öllum ráðum að reyna að skilja fordómalaust.

Fyrsta skrefið er kannski að byrja á því að líta í eigin barm, því allir hafa einhvern tímann haft á röngu að standa. Annað skref væri að skyggnast undir leikklæði þau sem við sjálf berum og gangast við eigin ótta. Því heiftin er að sjálfsögðu rangan á óttanum.

Hvað erum við svona hrædd við? Stöðu okkar? Ímynd? Að gervið sem við höfum valið okkur sem brynju sé gatslitið og þoli ekki þvott?

Næst er að skoða leikklæði þeirra sem við illa skiljum? Hvað er viðkomandi að fela? Hvað hlutverk hefur hann valið sér sem hann vill svo ólmur verja? Hvaða ótti um afhjúpun býr að baki heiftinni?

Við vitum öll hvað manneskjum er dýrmætast þegar við gefum okkur næði til að hugsa það til enda. Allt sem er best er frítt, á okkar valdi og fæst með nánd, elsku og hlýju og þær systur höfum við með okkur í för, ef við bara viljum. Manndýrinu verður ekki bjargað með dilkadrætti, sérgæsku og ásökunum, svo mikið er víst.

*Orðið geðbólga er úr orðasmiðju Evu Hauksdóttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar