fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Undirlægjuháttur gagnvart útlendum auðkýfingum

Eyjan
Sunnudaginn 8. október 2023 16:15

Íslenskir auðmenn eru eins og þurfalingar í samanburði við þá Jim Ratcliffe, næstríkasta mann Bretlands, og Gustav Magnar Witzøe, fimmta ríkasta Norðmanninn/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ekið er að sumarlagi um sveitir Skotlands verður ferðalangur sýnilega var við að þar eru tvær þjóðir á ferðinni; annars vegar heimamenn sem aka um á gömlum, ódýrum bifreiðum og landeigendurnir að sunnan sem mættir eru þangað norður eftir á spánýjum Bentley Continental eða Rolls-Royce Phantom. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði Skota fyrir rétt tæpum áratug var talsvert um það rætt hverju það breytti í reynd fyrir þessi svæði að losa um tengslin við Bretland: Bestu landareignirnar, gjöfulustu árnar og fengsælustu veiðilendurnar eru í höndum moldríkra Englendinga sem líta þangað norður eftir fáeina daga yfir sumarið. Í stað þess að landið sé í eigu og undir stjórn heimamanna og afraksturinn gangi til nærsamfélagsins eru Skotarnir undirsátar auðkýfinga að sunnan.

Litlar takmarkanir á eignarhaldi útlendinga

Í íslenskri stjórnmálaumræðu skortir jafnan verulega á framtíðarsýn og menn bregða gjarnan fyrir sig innantómum orðaleppum. Í skýrslu nefndar sem fjallaði um endurskoðun laga um eignar- og afnotarétt fasteigna árið 2014 sagði að erlend fjárfesting yki „hagsæld og fjölbreytileika í íslensku samfélagi og atvinnulífi“. Þá sagði nefndin að farsælast væri „að auka frjálsræði á þessu sviði“. Margir halda því fram að „aukið frjálsræði“ og „aukin erlend fjárfesting“ séu alltaf lausnarorðin en slík afstaða getur beinlínis verið einfeldningsleg ef betur er að gáð. Valdið leitar þangað sem auðurinn er og þess vegna er sæmileg eignadreifing forsenda valddreifingar. Þá þarf ekki að fjölyrða um gildi þess fyrir samfélag að helstu eignir þess séu í höndum heimamanna — og í slíkri fullyrðingu þarf vitaskuld ekki að felast almenn andstaða við erlenda fjárfestingu. Höfum líka hugfast að þó svo að jarðnæði hér á landi sé verðlítið í erlendum samanburði er um að ræða takmarkaða auðlind.

Já, hér er umfjöllunarefnið kaup útlendinga á fasteignum en í reynd eru þeim litlar takmarkanir settar. Þannig getur ráðherra veitt undanþágu fyrir eignarhaldi erlendra aðila á meiru en 1.500 hekturum en þó skal samþykki „að jafnaði ekki veitt ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð, nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar,“ eins og það er orðað. Tíu þúsund hektarar er ekkert smáræði en til að setja það í samhengi samsvarar það ríflega átta Skálholtsjörðum.

Engin skylda er gerð til búsetu landeiganda á Íslandi og umræddar takmarkanir stóðu til að mynda ekki í vegi fyrir því að félag sem nefnist Power Minerals Iceland keypti Hjörleifshöfða nýverið fyrir 489 milljónir króna en umrætt landsvæði er 11.500 hektarar að stærð. Félagið sem um ræðir er að fullu í eigu þýska fyrirtækisins STEAG Beteilungsgesellschaft mbH í Essen.

Lög og reglugerðir komu heldur ekki í veg fyrir því að Svisslendingurinn Rudolf Walter Lamprecht og fleiri útlendingar keyptu fasteignir í Mýrdal og nágrenni, samtals vel á annan tug þúsunda hektara.

Þrjátíu og níu bújarðir

Jarðakaup breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe hafa talsvert verið til umræðu undanfarin ár. Í frétt Daily Mail í hitteðfyrra sagði frá því að hann hefði keypt 39 bújarðir hér á landi frá árinu 2016 fyrir 36 milljónir sterlingspunda sem samsvarar meira en sex milljörðum króna á núverandi verðlagi. Ratcliffe er sagður næstríkasti maður Bretlandseyja en samkvæmt lista The Sunday Times er auður hans nú metinn á 29 milljarða sterlingspunda. Það yrði umreiknað til nærri fimm þúsund milljarða íslenskra króna sem er mun meira en öll þjóðarframleiðsla Íslendinga. Þannig að næg innistæða er eftir á tékkheftinu hjá Ratcliffe eftir umrædd jarðakaup.

Í frétt Ríkisútvarpsins 2019 kom fram að Ratcliffe ætti nú land við átta laxveiðiár á norðausturhorni landsins: Hofsá, Sunnudalsá, Selá, Miðfjarðará, Hafralónsá, Kverká og Vesturdalsá. Í síðastnefndu ánni fær víst enginn að veiða nema Ratcliffe einn.

Blaðamaður Daily Mail ræddi í fyrrnefndri frétt við Jóhannes Sigfússon, fjárbónda nærri Hafralónsá, sem sagði aðspurður „ekki gott fyrir einn mann að kaupa svona mikið land“. Í sömu umfjöllun var rætt við Sigrúnu Davíðsdóttur, fréttaritara Ríkisútvarpsins í Bretlandi, sem sagði jarðakaup Ratcliffs hafa valdið almenningi áhyggjum yfir framtíðarnotkun landsins. Ekki dygði að horfa á gott kaupverð í þessu sambandi, heimamenn væru að missa yfirráð yfir landinu, nokkrum gjöfulustu laxveiðiánum og hagnaðinum af veiðiréttinum.

Ólíkt höfðust þeir að ráðherrarnir

Í tilkynningu frá Ratcliffe árið 2016 kom fram að hann hefði keypt meirihlutann í Grímsstöðum á Fjöllum — jörðinni sem kínverski auðkýfingurinn Huang Nubo ásældist nokkrum árum fyrr. Ögmundur Jónasson, fyrrv. þingmaður og ráðherra, gerði kaup Ratcliffs á Grímsstöðum að umtalsefni á vefsvæði sínu á þeim tíma sem greint var frá þeim og sagði grundvallaratriði að halda eignarhaldi á landi í höndum fólks sem hér byggi. Þá yrði að koma í veg fyrir að stór landsvæði söfnuðust á hendur fárra auðmanna og tryggja þyrfti að eignarhald á náttúrudjásnum yrði hjá þjóðinni. Íslendingar hefðu sloppið með skrekkinn eftir viðeign við Huang Nubo en nú sætum við „uppi með órækan vitnisburð um vesaldóm íslenskra stjórnvalda,“ eins og Ögmundur orðaði það. Hanna Birna Kristjánsdóttir, eftirmaður hans á ráðherrastóli, hefði afnumið reglugerð sem hann hafði sett til að takmarka jarðakaup útlendinga hér á landi. Ratcliffe gæti því þakkað Hönnu Birnu.

Ábúðarskylda gengur ekki upp

Stórfelld uppkaup á landi gera þær jarðir sem eftir eru í eigu heimamanna og í ábúð illbyggilegri og geta flýtt fyrir því að sveitir leggist í eyði. Einhver dæmi munu þess hér á landi að bændur hafi sökum þessa brugðið búi og neyðst til að selja jarðir sínar hinum sömu auðkýfingum á hrakvirði. Því fer nefnilega fjarri að allir hagnist stórkostlega á sölu lands til útlendinga.

Guðni Ágústsson, fyrrv. ráðherra og alþingismaður, velti því upp í grein í Bændablaðinu 2019 hvort Kínverjar væru að koma „inn um bakdyrnar“ með jarðakaupum annarra; kaupa upp jarðir í kippum og auðlindir í leiðinni (svo sem vatnsréttindi) líkt og þeir hefðu gert víðs vegar um heiminn. Hann spurði einnig í sömu grein hvort einhverjir kaupendur jarða væru leppar annarra. Svar Guðna við uppkaupum útlendinga á landi væri að „byggja landið allt“ og vísaði hann til Noregs þar sem er ábúðarskylda á jörðum.

En þrátt fyrir góðan vilja Guðna gengur vitaskuld ekki upp að halda öllum jörðum landsins í byggð. Ábúðarskylda er því ekki svarið. Danir hafa einnig mikil höft á kaupum útlendinga að fasteignum. Í aðdraganda þess að þeir gengu í Efnahagsbandalagið fyrir réttri hálfri öld vöruðu margir við því að Jótland yrði að samfelldu sumarhúsalandi Þjóðverja. Við þessu var brugðist og í dönskum jarðalögum (d. lov om landbrugsejendomme) er meginreglan sú að heimild til að öðlast réttindi yfir jörð er háð því skilyrði að eigandi jarðar taki upp fasta búsetu á jörðinni og gildir búsetuskyldan í tíu ár. Til skamms tíma var einnig það ákvæði í dönskum lögum að engum væri heimilt að eiga fasteign þar í landi nema standa skil á sköttum þar sömuleiðis. Reglur af þessu tagi styðjast við málefnaleg sjónarmið og samrýmast vel Evrópureglum. Og úr því að Jim Ratcliffe var hér til umfjöllunar má rifja upp fréttir frá árinu 2019 þess efnis að hann hefði flutt lögheimili sitt til Mónakó til að spara sér skattgreiðslur í Bretlandi upp á sem samsvarar 600 milljörðum íslenskra króna. Mörgum þótti þetta raunar kaldhæðnislegt þar sem Ratcliffe var áberandi stuðningsmaður þess að Bretar yfirgæfu Evrópusambandið í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016.

Takmarka þarf jarðakaup útlendinga verulega

Fyrir viku gerði ég að umtalsefni hér á þessum vettvangi gríðarleg náttúruspjöll af sjókvíeldi sem stundað er hér við land. Þar eiga einkum og sér í lagi í hlut norsk stórfyrirtæki. Meðal norskra fyrirtækja sem starfrækja sjókvíaeldi í íslenskum fjörðum er dótturfélag fyrirtækis fimmta ríkasta manns Noregs, Gustavs Magnars Witzøe, en eignir hans eru metnar á sem samsvarar 370 milljörðum íslenskra króna. Það mætti kannski rifja í þessu sambandi upp hin fleygu ummæli sem eignuð eru Filippusi Makedóníukonungi þegar hann var að sölsa undir sig grísku borgríkin hvert af öðru en hann mun hafa sagt hverja borg auðsigraða kæmist asni klyfjaður gulli inn um borgarhliðið.

Æði oft vakna menn við vondan draum hér á landi — slíkt er landlægt fyrirhyggjuleysið — og nú mögulega þá martröð að heilu héruðin verði orðin einkaeign erlendra auðkýfinga. Við blasir að setja þarf miklu strangari skilyrði fyrir hámarkseign hvers og eins landeiganda (tíu þúsund hektarar er alltof mikið) og sömuleiðis afnema hinar rúmu heimildir ráðherra til að veita undanþágur. Þá væri líklega rétt að fara leið Dana: að engum verði heimilt að eiga fasteign hér á landi nema gjalda skatt til ríkissjóðs. Að sama skapi þarf að gera kröfu um skýrt eignarhald; erlendir aðilar geti til að mynda ekki skýlt sig bakvið félög — eigi þeir fasteign eða hlut í fasteign hér á landi verði skattaleg heimilisfesti þeirra að vera hér.

Að mínu viti er þetta einfalt sanngirnismál en segir mér samt hugur að ráðamenn muni enn sem fyrr beygja sig í duftið fyrir hinum moldríku útlendingum. Samt er aldrei að vita nema þjóðin vakni. Alltént sýndi samstöðufundurinn á Austurvelli í gær að hún vöknuð til vitundar um þau stórfelldu umhverfisspjöll sem framin eru með opnu sjókvíaeldi hér við land. Í því efni höfðu hagsmunir erlendra auðkýfinga verið látnir vega þyngra en sjónarmið um vernd íslenskrar náttúru. En spurningin nú er hversu margar sýslur landsins verða orðnar einkalendur erlendra peningamanna áður en stungið verður niður fæti og raunveruleg takmörk sett á eignarhald útlendinga að landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?