fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Eyjan

Björn Ingi svartsýnn og spáir kosningum í vetur – „Það mun allt loga“

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 5. október 2023 18:00

Björn Ingi Hrafnsson - Skjáskot/Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er auðvitað milljón dollara spurningin,“ sagði fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, þegar hann var spurður hvort Samfylkingin væri hugsanlega að toppa of snemma.

Björn Ingi var gestur Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem hann fór yfir stjórnmálasviðið, nýja könnun Gallup á fylgi flokkanna og hvers sé að vænta í vetur.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup er Samfylkingin með 30 prósenta fylgi og fengi flokkurinn 22 þingmenn samkvæmt því. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 14 þingmenn og væri eini möguleikinn á tveggja flokka stjórn samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ekki væri hægt að mynda þriggja eða fjögurra flokka stjórn án aðkomu Samfylkingarinnar.

Samfylkingin smeyk?

„Ég held að þau [Samfylkingin] séu pínulítið hrædd við þessa stöðu því það er auðvitað ekki komið að kosningum. En engu að síður þá tekur maður eftir því að Samfylkingin er hreinlega komin í kosningabaráttu,“ sagði Björn Ingi og sagði að flokkurinn væri að veðja á persónuvinsældir Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins. „Eins og staðan er núna eiga aðrir flokkar erfitt með að tækla þetta.“

Kristrún Frostadóttir – Mynd/Valli

Björn Ingi bætti við að Miðflokkurinn væri að sækja í sig veðrið og Viðreisn væri aðeins að ná vopnum sínum, til dæmis þegar kemur að gjaldeyrismálum í því efnahagsástandi sem nú ríkir.

Framsókn í þröngri stöðu

Framsóknarflokkurinn náði góðum árangri í síðustu kosningum og var ótvíræður sigurvegari þeirra með 17,3% atkvæða og þrettán þingmenn kjörna. Að undanförnu hefur gefið á bátinn hjá Framsókn og samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup mælist flokkurinn með 8,1% fylgi, minna en Miðflokkurinn (8,6%) og Píratar (9,6%).

„Framsóknarflokkurinn stendur frammi fyrir því að þurfa núna að standa við gefin kosningaloforð og það hefur ekki verið mjög jákvæð umræða um ríkisstjórnina sem bitnar að sjálfsögðu á Framsókn eins og VG og Sjálfstæðisflokki. Ríkisstjórnin er þannig skipuð og þannig stödd að hún kemur mjög litlu í verk vegna innbyrðis deilna og það virðist orðið eina markmiðið að klára kjörtímabilið, jafnvel þó að það geri það að verkum að það verður ekki mörgu hrint í framkvæmd. Framsóknarflokkurinn lendir í vandræðum út af því og ekki síður út af því að hann er að fara taka við borgarstjórastóli í Reykjavík. Það er ekki eins og efnahagsstaða Reykjavíkur bjóði upp á að hann haldi marga blaðamannafundi til að kynna miklar framkvæmdir. Hann er frekar og væntanlega að fara kynna niðurskurð. Pólitíkin er auðvitað þannig að það kemur að skuldadögum ef maður segir eitthvað.“

Björn Ingi segir að Samfylkingin sé í lykilstöðu en kosningabaráttan sé ekki komin á fullt. „Við eigum eftir að sjá meira til formannsins sem hingað til hefur stillt sinni framkomu mjög í hóf. Kemur inn í mál á tilteknum stundum og svo kemur þögn frá henni þess á milli, mjög vel gert. Pólitískir andstæðingar hennar munu ekki láta hana komast upp með það þegar kemur að kosningabaráttunni sjálfri.“

Samfylkingin verður skotmark

Björn Ingi segir að Samfylkingin þurfi að búa sig undir að verða sameiginlegt skotmark annarra flokka og þá eigi eftir að raða fólki á lista.

Hann segir að pólitíkin sé í flókinni stöðu, meðal annars í ljósi hárrar verðbólgu og komandi kjarasamninga. Seðlabankinn hafi nýlega sagt að samið hafi verið um of miklar launahækkanir í fyrra.

„Gangi okkur vel að reyna að finna út úr þessu öllu saman. Það mun allt loga. Sjálfstæðismenn eru mjög ósáttir við ríkisstjórnina, eru óhamingjusamir í þessu samstarfi. Það gefur tækifæri fyrir Miðflokkinn, fyrir Viðreisn og VG virðast einhvern veginn vera ánægðir með það, innan gæsalappa, að vera í kringum fimm prósentin sem er auðvitað ótrúlega dapurt þegar um er að ræða flokk forsætisráðherrans. Þeir virðast einhvern veginn ákveðnir í að það eina sem skiptir máli sé að klára kjörtímabilið og stöðva stærstu málin hjá Sjálfstæðisflokknum í leiðinni.“

Skilin en búa enn saman

Aðspurður hvort Samfylkingin væri hugsanlega að stóla á það að farið verði fyrr í kosningar en áætlað er sagði hann: „Ekki spurning og það eru sjálfsagt fleiri að gera. Ég var til dæmis á sjávarútvegsdeginum í Hörpu og þar var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ræðumaður. Hún bara benti fundarmönnum á að kjörtímabil gæti endað hvenær sem er. Það eru margir með meldingar út um allt þessa dagana.“

Björn Ingi sagt að það hefði verið haft á orði að ríkisstjórnin gæti ekki haldið áfram en gæti heldur ekki hætt eins og staðan er núna. Upp væri komin eins konar biðstaða og lítið væri að gerast hjá ríkisstjórninni.

Hart er í ári hjá ríkisstjórnarflokkunum.

„Það eru mjög vond tíðindi fyrir almenning eins og maður heyrir að allir eru að kvarta yfir. Tökum málefni hælisleitenda þar sem ráðherrar eru að rífast innbyrðis. Það er hver höndin upp á móti annarri og niðurstaðan er einhvern veginn ekki neitt. Við erum ekki að virkja, við erum ekki að nýta náttúruna, það eru deilur um sjávarútvegsmálin, hvalveiðimálin,“ sagði hann og líkti ástandinu við hjón sem væru búin að ákveða að skilja en búa enn saman. „Aðrir í fjölskyldunni þurfa þá að hlusta á nöldur og leiðindi hvert einasta kvöld. Ég bara spyr: Hafið þið séð mörg stór mál koma frá ríkisstjórninni undanfarið?“

Furðar sig á ummælum Áslaugar Örnu

Björn Ingi segir að ríkisstjórnarflokkarnir muni bíða afhroð í næstu kosningum ef þeir fara ekki að gera eitthvað. Hann útilokar ekki að kosið verði í vetur.

„Út af jafnvel máli sem er ekki enn þá komið fram. Þreytan er orðin svo mikil að það þarf oft mjög lítið til að það gerist. Ef niðurstaðan er að halda áfram bara til að halda áfram þá þola þeir ekkert hverja könnunina á fætur annarri þar sem fylgið minnkar og aðrir flokkar stækka. Sjálfstraustið þeirra gagnvart ríkisstjórninni er svolítið farið. Eins og ráðherrann sem ég hlustaði á í Hörpu sagðist vita að útgerðarmennirnir væru ekki ánægðir með þessa ríkisstjórn, en hún væri skárri með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs. Það að heyra ráðherra tala með þessum hætti um ríkisstjórnina sem hann situr í segir eiginlega allt sem segja þarf.“

Þannig að þú ert að spá kosningum í vetur?

„Já, það kæmi mér ekki á óvart,“ sagði Björn Ingi í Reykjavík síðdegis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”