fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Seðlabankastjóri: Bankarnir neyða Seðlabankann til að hækka vexti – gengur bankinn óháður til sinna verka?

Ólafur Arnarson
Miðvikudaginn 4. október 2023 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að láta stýrivexti bankans verða óbreytta eftir fjórtán vaxtahækkanir í röð virðist hafa komið greiningardeildum bankanna í opna skjöldu. Hagfræðingar bankanna höfðu spáð 15. vaxtahækkuninni í röð, sumir 0,25 prósenta hækkun og aðrir 0,5 prósenta hækkun.

Ákvörðun peningastefnunefndarinnar þarf hins vegar ekki að koma neinum á óvart, hvorki greiningardeildum né öðrum. Raunvextir hér á landi eru nú orðnir jákvæðir og það umtalsvert. Erfitt er að færa rök fyrir því að Seðlabankinn haldi áfram að hækka vexti þegar svo er komið og verðbólga fremur á niðurleið en hitt. Búast má við því að raunvextir fari nú ört hækkandi með lækkandi verðbólgu á komandi mánuðum. Þegar allt er tekið með í reikninginn væri rökrétt að búast við því að næsta hreyfing vaxtastigsins verði til lækkunar en ekki hækkunar.

Orð Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, og Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu, á kynningarfundi bankans í morgun gefa þó til kynna að talsverð hætta sé á að vextir eigi enn eftir að hækka.

Athyglisvert var að heyra þau bæði lýsa því yfir að risahækkunin í vor, þegar vextir voru hækkaðir um 125 punkta, hefði verið í þeim markvissa tilgangi að vinna í haginn fyrir komandi kjarasamninga. Vaxtakostnaður er sá líður í útgjöldum heimila sem mest bein áhrif hefur á ráðstöfunartekjur þeirra og fyrir liggur að verkalýðshreyfingin telur sig engan kost eiga annan en að sækja fast leiðréttingu á skertum ráðstöfunartekjum í komandi kjarasamningum. Þannig veldur hver stýrivaxtahækkun Seðlabankans, sem bankarnir síðan elta blint og hrinda beint út í vaxtatöflu sína og bæta jafnvel við, því að kaupkröfur launþega magnast í komandi kjarasamningum.

Einnig var athyglisvert að seðlabankastjóri svaraði því til, þegar hann var inntur eftir því hvers vegna hann viki ekki orði að fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og ríkisfjármálunum, að fjárlögin væru „hlutlaus“ og hefðu ekki áhrif á verðbólguna. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir miklum halla í bullandi hagvexti og getur því ekki talist „hlutlaust“ hvað varðar baráttuna við verðbólgu. Þá á eftir að taka tillit til þess að fjárlagafrumvarpið bólgnar einatt í meðförum þingsins og því sætir furðu að seðlabankastjóri minnist vart orði á ríkisfjármálin.

Fáir vilja trúa því að skýringin liggi í því að á næsta ári rennur skipunartími hans út og það er í hendi fjármálaráðherra að endurskipa hann til fimm ára eða auglýsa stöðuna.

Á kynningarfundinum kom fram að sumir hagfræðingar bankanna átöldu Seðlabankann fyrir að hafa ekki hækkað vextina eins og þeir höfðu spáð. Raunar virtist Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Arion banka, furðu lostinn yfir þessu. Ásgeir mótmælti því að Seðlabankinn væri óútreiknanlegur í vaxtaákvörðunum sínum og gaf raunar í skyn að Seðlabankinn væri um of leiðitamur bönkunum sem ítrekað kalla eftir frekari vaxtahækkunum bankans. Talaði hann um að bankarnir neyði Seðlabankann til að gera ákveðna hluti, sem erfitt er að túlka öðru vísi en svo að það séu bankarnir sem þrýsti á um sífellt fleiri og meiri vaxtahækkanir.

Þetta er athyglisvert að skoða í ljósi þess að í aðdraganda hrunsins og eftir það voru greiningardeildir íslensku bankanna í sviðsljósinu vegna þess hve greiningar þeirra voru jákvæðar fyrir efnahagslífið í heild, atvinnulífið og einstök fyrirtæki. Nokkuð sem eftir á varð ljóst að stóðst engan veginn og greiningardeildunum hlaut að hafa verið það ljóst. Spannst þá nokkur umræða um það hvort greiningardeildir bankanna væru framlenging á markaðs- og söluteymum þeirra eða óháðar og fræðilegar greiningardeildir sem reyndu að rýna í stöðuna eins og hún er raunverulega en ekki eftir því sem hentar afkomu bankanna.

Engir græða meira á vaxtahækkunum Seðlabankans en einmitt bankarnir sjálfir sem hafa notað tækifærið og hækkað útlánsvexti sína eftir hverja stýrivaxtahækkun. Raunar hafa þeir gengið lengra og nú eru yfirdráttarvextir bankanna í fyrsta sinn hærri en opinberir dráttarvextir Seðlabankans – með öðrum orðum bankarnir taka sérstakt vaxtaálag af þeim sem höllustum fæti standa. Orð seðlabankastjóra um að bankarnir þrýsti á vaxtahækkanir sem síðan fara beint út í útlánsvexti þeirra á öll lán, ný og gömul, kalla á skoðun á því hvort eðlilegur aðskilnaður sé milli starfsemi greiningardeilda bankanna og stjórnenda þeirra, sem keppast við að skila eigendum bankanna methagnaði á sama tíma og heimili landsins og skuldsett fyrirtæki berjast í bökkum.

Vonandi er það góðs viti að Seðlabankinn sé hættur að hlýða fyrirmælum bankanna í vaxtamálum. Vonandi horfir bankinn í vaxandi mæli til þess að beita öðrum tækjum en því gereyðingarvopni sem vaxtatækið er til að tryggja stöðugleika hér á landi. Í ljósi þess hve hrikalegar afleiðingar það hefur fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu að beita vaxtavopninu til að reyna að slá á þenslu er áhyggjuefni að varaseðlabankastjóri lýsti því sérstaklega yfir á fundinum í morgun að sérstök ákvörðun hefði verið tekin í peningastefnunefnd að nota vextina en ekki önnur vopn til að ná niður verðbólgunni. Full ástæða er til að draga dómgreind þeirra sem slíkar ákvarðanir taka í efa, eða jafnvel efast um að þeir gangi til sinna verka óháðir hagsmunaöflum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt