Vart hefur farið fram hjá nokkrum að Nóbelsverðlaunin í bókmenntum þetta árið hlýtur norska skáldið Jon Fosse. Þar sem ég var staddur í samkvæmi í Ósló í seinustu viku barst talið að Fosse og einn nærstaddra kvaðst jafnan spyrja sig þegar hann læsi verk hans: Hvað í veröldinni er ég eiginlega að lesa? Og ekki nema von því sjaldnast liggur í augum uppi hvað Fosse á við og textinn er í ofanálag margræður á stundum. Jon Fosse er fjórði Norðmaðurinn sem hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Fyrstur var Bjørnstjerne Bjørnsson árið1903. Bjørnsson naut feiknamikilla vinsælda hér á landi á tímum þegar lestrarfélög spruttu upp víðsvegar um kauptún og sveitir.
Sama ár hlaut Niels R. Finsen Nóbelsverðlaunin í læknisfræði, en faðir hans var Hannes Finsen, sem um tíma var amtmaður í Færeyjum, og þar var Niels fæddur. Móðir hans hét Johanne Formann og var frá Danmörku. Hannes var borinn og barnfæddur Reykvíkingur og Niels því Íslendingur í föðurætt og danskur í móðurætt. Hann var stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík. Finsen er líklega flestum löngu gleymdur hér á landi en skjöldur til minningar um hann hangir í anddyri Menntaskólans í Reykjavík. Knud Hamsun hlaut verðlaunin í bókmenntum 1920 og Sigrid Undset 1928. Það er því æði langt síðan Norðmanni hlotnaðist þessi heiður.
Í áðurnefndu samkvæmi var mér bent á að þau Fosse og Undset eiga það bæði sammerkt að hafa snúist til kaþólsku, en Undset gerðist kaþólsk um líkt leyti og Halldór Kiljan Laxness. Halldór var nemandi við Menntaskólann í Reykjavík, eins og Finsen, en tókst aldrei að ljúka prófi. Vitnisburðir Finsen í sama skóla voru heldur ekki til að hrópa húrra fyrir; ágæt áminning til slakra nemenda um að lágar einkunnir í skóla segja líklega fátt um dóminn á efsta degi.
Í flugvélinni á leiðinni frá Ósló las ég nýjasta skáldverk Fosse, Kvidleik, sem er aðeins 72 blaðsíður í litlu broti. Og líkt og maðurinn í samkvæminu hugsaði ég með mér: hvað er ég eiginlega að lesa? Sögumaður festir bílinn í miðjum skógi seint að hausti, það er svalt í veðri og hann gengur af stað til að leita sér aðstoðar. Hann er rammvilltur og hrópar á hjálp. Síðan kyngir niður snjó og hann hittir nokkrar verur en allt um lykjandi er þetta „hvíta“ sem er allt í öllu. Fosse tekst einhvern veginn að skrifa þarna um það sem ekki er hægt að fanga eða lýsa af neinni nákvæmni, sem er almættið.
Í samtali við þýska ríkisútvarpið árið 2015 lét Fosse svo um mælt að skrifin hefðu gert hann að trúmanni þegar á þrítugsaldri. Mótmælendur hefðu viljað fjarlægja hið dulræna og ljóðræna úr trúnni. Þetta hefði gert það að verkum að texti ritningarinnar glataði að hluta til merkingunni. Frásagnir Biblíunnar yrði að lesa sem myndlíkingar og trúartilfinningin þyrfti að vera dulræn. Og verk Fosse eru uppfull af táknum sem oftar en ekki eiga sér fyrirmyndir í ritningunni.
Nú er ég samt hvorki bókmenntafræðingur né guðfræðingur og ætla ekki að hætta mér lengra í þessum pælingum en það er ótrúlega heillandi hvernig Fosse virðist takast að nálgast eitthvað sem við samt festum ekki hönd á ― enda ofar okkar skilningi. Og úr því ég minntist á Sigrid Undset þá var hún ákaflega heilluð af dýrlingum og ritaði til að mynda ævisögu heilagrar Katrínar af Siena, sem er líklega ein áhugaverðasta kona síðmiðalda. Raunar finnst mér æði margt í fari heilagrar Katrínar minna mig á Gretu nokkra Thunberg en látum þær pælingar liggja milli hluta að sinni.
Undset velti líka fyrir sér sögu Ólafs helga, þjóðardýrlings Norðmanna. Ólafur konungur var skírður til kristinnar trúar í Rúðuborg og varpaði Undset fram þeirri tilgátu að kristniboðsbiskupar hans hefðu verið frá ríki Normanna sem við köllum nú Normandí, enda ekki ólíklegt að ýmsir þar hafi enn talað norrænt mál. Ólafur helgi kemur við okkar sögu því hann mun hafa gefið við til að reist yrði kirkja á Þingvöllum og kirkjan þar var helguð honum. Og Ólafur helgi var tignaður vítt og breytt um Norðurlönd og Bretlandseyjar. Hann hafði titilinn Rex Perpetuus Norvegiae, þ.e. eilífur konungur Noregs, en dómkirkjan í Niðarósi er sögð reist yfir legstað dýrlingsins.
Flest ríki miðalda áttu sér slíka þjóðardýrlinga og það hefur margbrotna merkingu. Þegar norskum bændum þóttu höfðingjar eða embættismenn konungs gera á rétt sinn vísuðu þeir til hinna fornu laga Ólafs helga ― sem voru þá í einhverjum skilningi hliðstæða óskráðra stjórnarskrárreglna nútímans. Og Ólafur helgi var eilífur konungur á himnum en konungur hverju sinni var aðeins umboðsmaður eins og það var kallað. Öll tilvist ríkisins ― og þar með valdsins ― var reist á grunni einhvers sem var ekki bara óáþreifanlegt heldur guðfræðilegs eðlis. Ólafur helgi er síðan áfram nálægur löngu eftir siðaskipti og hann er samhengið í sögunni og trúnni. Sá þráður hefur haldist óslitinn að ýmsu leyti fram á okkar daga. Og er þá nokkuð hægt að skilja ríkið og valdið nema gefa hinu dulræna og ósegjanlega gaum? Getur ekki verið að djúphugul skáld á borð við Jon Fosse veiti okkur dýpri sýn á heiminn ― sér í lagi um hið andlega?