Stöð 2 varð örlagavaldur í lífi margra sem þar störfuðu á upphafsárum stöðvarinnar. Á lítilli starfsstöð var nándin mikil. Starfsfólk ruglaði saman reitum og mörg hjónabönd, sem enn standa styrkum fótum, urðu til þó að önnur sambönd stæðust ekki tímans tönn.
Sigmundur Ernir Rúnarsson fer yfir þessa tíma í nýrri bók sinni, Í stríði og friði fréttamennskunnar, og rifjar upp fyrstu kynni sín af sinni stóru ást, Elínu Sveinsdóttur, sem varð og er eiginkona hans í blíðu og stríðu þó að hann væri í byrjun sannfærður um að hún væri gefin og gift öðrum manni.
Við grípum niður í áttunda kafla, þar sem Sigmundur Ernir horfir til upphafsára frjáls sjónvarps á Íslandi.
„Stöð 2 varð ekki bara vinnustaður frá fyrsta starfsdegi. Hún varð manns annað heimili. Eða öllu heldur félagsheimili.
Sumir sögðu ástarfley.
Það má alveg heita svo.
Og fyrir utan það augljósa, að enginn vissi um tíma hvort sjónvarpsstjórinn Jón Óttar Ragnarsson var í tygjum við leikkonuna Elvu Gísladóttur sem var að byrja með barnaefni á Stöðinni, ellegar innanhússarkitektinn Valgerði Matthíasdóttur sem var farin að hanna glæsilegar og litríkar leikmyndir og annað útlit uppi á Krókhálsinum, þá lá það alltaf í loftinu að ástarsambönd væru að verða til á hvaða deildum sem var í flessu afskekkta iðnaðarhúsnæði á ystu mörkum borgarinnar.
Spurningin var bara hver var með hverjum.
Og víst er það svo að Stöð 2 hefur fjöldamörg hjónabönd á samviskunni. Það gat líklega aldrei orðið öðruvísi en svo. Svo þétt og náin varð samvinnan. þvílík og önnur eins var gleðin og glettnin í ásjónu starfsfólksins á hverjum einasta degi.
Bara á fréttastofunni tók Páll Magnússon saman við skriftuna Hildi Hilmarsdóttur, Þórir Guðmundsson við fréttaritarann Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur og Sigmundur Ernir Rúnarsson við förðunarfræðinginn og síðar framleiðslustjórann Elínu Sveinsdóttur.
Og þau hjónabönd hafa haldið síðan.“
Já, það eru tilviljanirnar í lífinu sem gefa því gildi og skipta kannski mestu máli þegar upp er staðið. Aurskriða sem varð síðsumars í Ólafsfirði bylti lífi Sigmundar Ernis og Elínar og fyrir þessa tilviljun er orðinn mikill ættbogi sem áhorfendur Stöðvar 2 urðu stundum varir við. Ættbogi sem aldrei hefði orðið hefði Sigmundur Ernir ekki lent í sminkstólnum hjá henni Ellu á Akureyri fyrir algera tilviljun. Hann komst að því að hún var ekki annars manns og telpan sem einatt snuðraðist í kringum hana í sminkherberginu á Stöð 2 var ekki dóttir hennar heldur litla systir – lífið tók nýja stefnu.
„En það er auðvitað til marks um merkilegar tilviljanirnar í lífinu að aurskriða í Ólafsfirði kom okkur Ellu saman.
Ég hafði í fjölda skipta þegið smink úr hennar mildu höndum. En af því að það var alltaf einhver telpa að snuðrast í kringum hana í sminkherberginu, líklega um tíu ára aldur, tók ég það bara sem gefið mál að þar væri komin dóttir hennar og Ella væri þar af leiðandi gift og gefin öðrum manni.
En svo var ég sendur norður í land einn síðsumardaginn. Það hafði fallið stóreflis aurskriða á byggðina í Ólafsfirði ofan úr Tindaöxl og eyðileggingin var víða mikil, á húsum bæði og bílum, þótt blessunarlega yrðu ekki slys á fólki.
Fréttaöflunin gekk vel á vettvangi – og svo var farið í loftköstum inn á Akureyri til að klippa saman efni í húsakynnum Samvers niðri á Oddeyrinni þar sem félagar mínir og vinir voru fyrir á fleti, þeir Bjarni Hafþór Helgason, Sigurður Hlöðversson og Þórarinn Ágústsson hjá Eyfirska sjónvarpsfélaginu sem síðar urðu svo samstarfsaðilar Stöðvar 2 á Norðurlandi.
Syðra voru uppi hugmyndir að ég kynnti sjálfur inn fréttina úr Sjallanum á Akureyri í beinni útsendingu. Svo vel vildi nefnilega til að Stöðin var á staðnum og var að fara að senda beint út einn af fjöldamörgum skemmtiþáttum sínum, Í sumarskapi, með þeim Sögu Jónsdóttur og Jörundi Guðmundssyni.
Ég var sendur í snatri upp á efri hæðirnar í smink. Og þar er þá komin Ella Sveins með púðurburstann á lofti. Ég man að þegar ég hallaði mér aftur í sminkstólnum og horfði á þessa dökkhærðu gyðju bogra yfir mér, hugsaði ég með mér að hér væri kominn lífsförunautur minn.
Það væri á tæru.
Enda reyndist hún vera á lausu eftir allt saman. Hnátan sem var að skottast í kringum hana á Krókhálsi var þá bara litla systir hennar eftir allt saman.
Ég vissi raunar ekki þá, nýsminkaður fréttamaðurinn á sögufrægasta skemmtistaðnum í heimabæ mínum, að ég ætti eftir að vinna svo náið með þessari konu eftir að hún varð útsendingar- og framleiðslustjóri á fréttastofu Stöðvar 2 til næstu tuttugu ára eða svo, að börnin okkar öll sem uxu síðar úr grasi, gerðu varla greinarmun á vinnustað og heimili, enda ólust þau meira og minna upp á fréttastofunni og í myndverinu.
Og þeim sást raunar iðulega bregða fyrir í miðjum fréttatímanum þegar þau höfðu laumað sér inn í átt að ljósum skrýddu fréttasettinu og tilkynntu pabba sínum í eigin sakleysi að þau þyrftu að pissa.“