Vilhjálmur Birgisson, sem í gær var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að hann og félagsmenn þess vilji að tekið verði af krafti á fjármálakerfinu sem formaðurinn segist ógeðfellt og sjúgi til sín ráðstöfunartekjur heimilanna.
Vilhjálmur deilir skjáskoti af greiðsluseðli sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum og vakið sterk viðbrögð, meðal annars hjá Ingu Sælandi, formanni Flokks Fólksins. Þar má sjá að afborgun upp á rúnmlega 500 þúsund krónur af fasteignaláni skiptist þannig að afborgun af nafnverði er aðeins rúmar 10 þúsund krónur en vaxtagreiðslan um 490 þúsund krónur.
Vilhjálmur segir að greiðsluseðillinn sýni það „skefjalausa ofbeldi sem íslensk heimili hafa þurft að þola af hálfu fjármálakerfisins á liðnum árum og áratugum.“
Bendir hann svo á ýmsar samþykktir á nýafstöðnu þingi Starfsgreinasambandsins sem stemma eigi stigu við þessu ástandi. Meðal annars var gerð krafa um að að ráðist verði í kerfisbreytingar, kerfisbreytingar sem lúta að því að tekið verði upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem heimilum verði tryggð sambærileg lánakjör og standa til boða í samanburðarlöndunum.