Þingflokkur Pírata, ásamt tveimur þingmönnum Samfylkingarinnar, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á stjórnarskránni. Kveður frumvarpið á um að 79. grein stjórnarskrárinnar verði breytt með þeim hætti að til þess að gera breytingar á stjórnarskránni þurfi ekki lengur að rjúfa þing og boða til kosninga og nýtt þing að samþykkja breytingarnar. Samkvæmt frumvarpinu, sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að, yrðu allar breytingar sem Alþingi samþykkir á stjórnarskránni bornar undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.
Ákvæði 79. greinarinnar um breytingar á stjórnarskránni hljóðar í dag svo:
„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“
Samkvæmt frumvarpinu yrði þessu ákvæði breytt á eftirfarandi hátt:
„Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“
Í greinargerð sem fylgir með frumvarpinu segir meðal annars að flutningsmenn frumvarpsins telji í ljósi reynslunnar að ókostir núverandi fyrirkomulags við breytingar á stjórnarskránni séu nokkrir.
Meginþungi umræðu um allar stjórnarskrárbreytingar sé aðallega við lok hvers kjörtímabils. Þá séu störf þingsins gjarnan tekin að þyngjast og hætt við að grundvallarbreytingar á stjórnarskránni hljóti ekki þá athygli sem þeim beri.
Við núgildandi fyrirkomulag sé ekki tryggð nein bein aðkoma almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu. Segja megi að kosið sé um stjórnarskrárbreytingar samhliða almennum þingkosningum, en reynslan hafi verið sú að kosningar sem haldnar séu í kjölfar slíks þingrofs snúist ekki um inntak breytinga á stjórnarskránni.
Reynsla undanfarinna ára hafi einnig sýnt að núverandi fyrirkomulag hafi leitt til þráteflis á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar. Hvort sem um sé að ræða stærri eða smærri atriði hafi þinginu ekki tekist að gera varanlegar breytingar á stjórnarskránni frá því að mannréttindakafla var bætt við árið 1995 og kjördæmamörkum var breytt árið 1999.
Í greinargerðinni segir enn fremur að frumvarpinu sé ætlað tvíþætt hlutverk. Annars vegar að lögfest verði leið til að breyta stjórnarskránni sem sé mun lýðræðislegri en sú sem farin er nú. Undirstrikað verði að almenningur sé stjórnarskrárgjafi og eigi ætíð síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar voni flutningsmenn að sú leið sem þeir leggja til komi í veg fyrir að Alþingi festist í þrátefli um stjórnskrárbreytingar í framtíðinni.
Verði það að lögum hafi Alþingi þau verkfæri sem þurfi til að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni í markvissari skrefum en því hafi auðnast.