Fundur hófst á Alþingi í dag klukkan 13:30. Samkvæmt dagskrá fundarins lágu alls 9 mál fyrir fundinum.
Í upphafi fundarins minnti Ásmundur Friðriksson þingmaður, sem sat í forsetastól, á að í dag stæði yfir verkfall kvenna og kvára. Hann sagði að verkfallið væri meðal annars í þeim tilgangi að krefjast þess að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt og að störf kvenna og kvára verði metin að verðleikum. Konur í hópi þingmanna tækju þátt í verkfallinu og þar af leiðandi væru öll mál sem lægju fyrir fundinum tekin út af dagskrá, nema óundirbúinn fyrirspurnatími.
Samanstóð hann af spurningum karlkyns þingmanna til karlkyns ráðherra. Snerust þær flestar um stöðu kvenna og jafnréttis.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var spurður meðal annars af Guðmundi Andra Thorssyni um umbætur á kjörum og starfsaðstæðum þeirra starfsstétta í heilbrigðisgeiranum sem samanstanda nánast eingöngu af konum.
Sigmar Guðmundsson spurði Willlum meðal annars um meðferðir við fíknisjúkdómum hjá konum.
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður spurði Guðmund Inga Guðbrandsson félagsmálaráðherra meðal annars um hvort til stæði að grípa til sérstakra aðgerða í ljósi þess að fátækt legðist sérstaklega þungt á þær konur sem lifa við hana.
Loks spurði Bjarni Jónsson Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra um jafnrétti í þeim löndum sem Ísland hefur veitt þróunaraðstoð.
Að fyrirspurnum loknum var þingfundi slitið.