fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Fimmtíu lög verða felld niður

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 24. október 2023 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið birt áform um að fella úr gildi alls 50 lög sem varða fjármál og fjármálamarkaði og talin eru úrelt eða hafa lokið hlutverki sínu.

Viðkomandi lagabálkar eru sagðir eiga ekki lengur við, ýmist sökum breyttra aðstæðna, vegna þess að hlutverk þeirra var afmarkað í tíma eða sökum þess að fyrirhugaðar ráðstafanir, sem í þeim fólust komu ekki til framkvæmda. Að óbreyttu standi þeir áfram í lagasafninu að þarflausu.

Fyrirhugað er að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp á Alþingi sem er í formi safnlaga sem ná til nokkurra kafla lagasafnsins. Skilvirkara sé að fella lagabálkana á brott með samþykkt eins frumvarp heldur en að leggja fram stakt frumvarp um brottfall hvers og eins lagabálks.

Meðal laga sem stendur til að fella úr gildi eru nokkur sem sett voru í kjölfar bankahrunsins 2008 en þykja ekki þjóna tilgangi lengur.

Þar má til dæmis nefna:

Lög um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., nr. 138/2009:

Lögin heimiluðu ráðherra að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. í tengslum við samninga sem gerðir höfðu verið um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda í kjölfar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá október 2008 á grundvelli laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, nr. 125/2008. Uppgjörum við Glitni banka hf., Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. sé nú lokið og skilanefndir þeirra hafi látið af störfum.

Lög um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008, nr. 172/2008:

Lögunum var ætlað að gera ríkinu kleift að veita fjárhagslega fyrirgreiðslu til að standa undir kostnaði við málshöfðum fyrir erlendum dómstólum vegna ákvarðana breskra stjórnvalda frá október 2008 sem vörðuðu Landsbanka Íslands hf. og Kaupþing banka hf. Fjármálaráðherra skrifaði undir samning við Kaupþing banka hf. um stuðning við slíka málshöfðum í apríl 2009 og með fjáraukalögum fyrir árið 2009, nr. 150/2009, var samþykkt 120 milljóna króna fjárveiting vegna þessa. Ekki varð þó úr málshöfðun á grundvelli laganna.

Ýmis önnur lög sem varða ekki bankahrunið en þykja komin til ára sinna og voru í sumum tilfellum sett fyrir mörgum áratugum verða einnig felld úr gildi.

Þar má til dæmis nefna:

Lög um viðauka við lög nr. 115 7. nóvember 1941, um Búnaðarbanka Íslands, nr. 31/1954:

Lögin höfðu að geyma ákvæði um veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Lög um Búnaðarbanka Íslands, nr. 115/1941, eru nú brott fallin og bankinn er ekki lengur starfandi.

Lög um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf., nr. 119/1985:

Lögin kváðu á um skipun nefndar til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu sinni í nóvember 1986 og lauk þar með störfum sínum.

Lög um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, nr. 50/1997:

Samkvæmt lögunum skyldi Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands breytt úr ríkisviðskiptabönkum í hlutafélög. Það gekk í gegn 1998. Með síðari breytingum á lögunum var veitt heimild til að selja hluti ríkissjóðs í bönkunum og var það gert í áföngum næstu ár á eftir.

Þegar kemur að lögum sem varða fasteignalán verða eftirfarandi lög felld úr gildi:

Lög um heimild til að fresta greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána, nr. 81/1983:

Lögin heimiluðu ríkisstjórninni að ákveða að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og Seðlabanka Íslands að fresta skyldi greiðslu á allt að 25% af samanlagðri fjárhæð afborgana, verðtryggingaþátta og vaxta verðtryggðra lána Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og verðtryggðra íbúðalána banka og annarra lánastofnana, ef lántaki óskaði.

Í áformunum sem birt eru í samráðsgáttinni segir að lögin hafi tekið mið af aðstæðum  árið 1983 og hafi lokið hlutverki sínu.

Lög um heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu stimpilgjalda af íbúðalánum, nr. 20/1984:

Lögin heimiluðu fjármálaráðherra að fella niður eða endurgreiða stimpilgjald af skuldbreytingarlánum húsbyggjenda og íbúðakaupenda sem lánastofnanir kynnu að veita í samræmi við samkomulag þeirra við ríkisstjórnina og stjórnarsáttmála hennar frá 27. maí 1983.

Tekið er fram í áformunum að þessi lög hafi lokið hlutverki sínu.

Lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014:

Lögin kváðu á um ráðstafanir til að lækka verðtryggð fasteignalán einstaklinga. Umsóknartímabil var til 1. september 2014 og var ráðstöfununum lokið í kjölfarið.

Lögin eru því sögð hafa lokið hlutverki sínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt