Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ófjármagnaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar orsök hallareksturs ríkisins nú. Þær séu verðbólguhvetjandi, dragi úr opinberum stuðningi við velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, húsnæðiskerfið, almannatryggingakerfið og barnafjölskyldur. Þetta skapi vítahring sem nágrannalönd okkar séu komin út úr vegna þess að þau skilji að velferðin er undirstaða stöðugleika á vinnumarkaði.
Kristrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Ég var mikill gagnrýnandi þessara hröðu vaxtalækkana á sínum tíma. Þetta var áður en ég fór í pólitík og þótti nú ekkert vinsælt sjónarmið. Ég nefndi í því samhengi, alveg eins og ég er að nefna núna í sambandi við vaxtahækkanir, að þetta er eitt breiðasta og einfaldasta tól sem hægt er að nota sem gerir það að verkum að allir fá stuðning eða, eins og núna, allir fá skell. Og það er til þess fallið að hafa mikil áhrif til dæmis á eignamarkaði sem reyndist síðan raunin,“ segir Kristrún.
Kristrún segist alltaf hefðu farið mjög varlega í að breyta tekjuhlið ríkissjóðs eins og var gert á sínum tíma. „Það var samið um verulegar breytingar á sköttum í kringum 2018-2019 og svo ég vitni nú bara til orða systurflokka okkar í Danmörku og víða á Norðurlöndunum; sósíaldemókratar hefðu frekar varið velferðina en að fara í þessar skattabreytingar.“
Hún telur að ef við hefðum, í stað þess að taka 50, 60, 70 milljarða – þetta mat fari svolítið eftir því hvern sé talað við – út úr tekjuhlið ríkissjóðs með skatta- og gjaldabreytingum, þá hefði sá peningur verið eftir til þess t.d. að fjárfesta í heilbrigðiskerfinu, til þess að styðja betur við húsnæðismálin, til þess að styrkja almannatryggingakerfið, barnabætur, vaxtabætur.
„Þá værum við ekki í þeirri stöðu að fá trekk í trekk yfir okkur svona ákveðna klemmu í aðdraganda kjarasamninga sem verður oftar en ekki til þess, því miður, að við fáum yfir okkur almennari launahækkanir en fólk oft vill semja um og skilar síðan ákveðnum vítahring; gjöld hækka hjá ákveðnum fyrirtækjum sem eru aðþrengdari en önnur og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um lítil og meðalstór fyrirtæki sem reka sig ekki í erlendum gjaldmiðlum og er ekki með erlent starfsfólk á alþjóðavísu heldur starfa í íslensku hagkerfi.
Þetta er þetta samhengi sem ég þreytist ekki á að minnast á að öll þessi umræða um skattalækkanir, að hún skili sér svo mikið fyrir hinn almenna Íslending. Það skiptir máli í fyrsta lagi hvar skattabreytingar eiga sér stað á kúrfunni og í öðru lagi, ef þær verða til þess að veikja velferðina, veikja húsnæðisstuðning, veikja barnabætur, veikja vaxtabætur, veikja heilbrigðisþjónustu, auka greiðsluþátttökum skapa frústrasjón, pirring og örvæntingu þá leitar þetta bara út í velferðarkerfi sem er fjármagnað af atvinnurekendum annars staðar og skilar sér í miklu almennari hækkunum og við fáum þetta aftur í fangið.“
Kristrún segir þetta vera það sem löndin í kringum okkur, sem hefur verið stýrt af sósíaldemókrötum í lengri tíma, hafi lært. Til þess að fá stöðugleika á vinnumarkaði og minni áshækkanir í launum þurfi að vera með öflugt velferðarkerfi. Þar sé skattbyrðin með öðrum hætti en hér. „Þannig að þetta er grundvallar pólitískur munur sem ég myndi segja að sé á Samfylkingunni og þeim flokkum sem nú eru við stjórn.“
Hún segist hissa á því hversu auðveldlega Vinstri græn sem dæmi – líka megi nefna Framsóknarflokkinn sem hann á tyllidögum spili sig jafnaðarmannaflokk – afi gleypt orðræðu fjármálaráðherra og stæri sig af þeim skattalækkunum sem gerðar voru á sínum tíma vitandi það að þetta hafi allt saman verið ófjármagnað sem hafi meðal annars það að verkum að við séum núna með ígildi þessara skattalækkana í halla á ríkissjóði og hafi þar með talið líka ýtt undir verðbólgu. „Þannig að þessi stefna hefur verið verðbólguhvetjandi bæði í þeim skilningi að hún hver gert það að verkum að það hefur verið halli á ríkissjóði en líka með því að grafa undan styrk velferðarkerfisins og skapa spennu á vinnumarkaði og gagnvart atvinnurekendum.“