Tveir sænskir fótboltaáhugamenn voru nýlega skotnir til bana í Belgíu. Heittrúaður múslimi skaut þá vegna þess að þeir voru klæddir blágulum landsliðstreyjum. Ástæðan er sögð sú að Svíþjóð sé fjandsamlegt múslímum. Því til sönnunar eru birtar myndir af mönnum í Málmey sem brenna Kóraninn á almannafæri í skjóli tjáningarfrelsisins.
Svíar hafa þó verið duglegastir allra að taka við flóttafólki frá Afríku og Miðausturlöndum og Afganistan sem flúið hefur skoðanakúgun og harðstjórn í heimalandinu. Illa hefur gengið að aðlaga þetta fólk sænsku samfélagi. Miklar og dýrar aðgerðir stjórnvalda til að kenna því sænsku og ná áttum í nýju landi hafa að hluta mistekist. Innflytjendur hafa einangrast í sérstökum hverfum og ekki orðið hluti af sænsku samfélagi. Þetta hefur leitt til glæpa og gengjamyndunar í hverfum innflytjenda. Hver kynslóðin á fætur annarri hefur valið að vera utanveltu og stunda skipulagða glæpastarfsemi.
Svíþjóð nútímans einkennist af tortryggni og öryggisleysi þar sem skotárásir og sprengingar og óeirðir eru daglegt brauð. Mikið af þessum flóttamönnum skildu aldrei við heimalandið heldur fluttu með sér fjölskyldudeilur, trúarofstæki og ofbeldi.
Ég starfaði lengi sem læknir meðal innflytjenda í Svíþjóð og upplifði þessa sjálfvöldu aðskilnaðarstefnu sem einkennir samfélög innflytjenda. Gestrisni Svía hefur snúist upp í andhverfu sína og sænskir þegnar eru taldir réttdræpir. Þessu vanþakklæti heimsins segir sr. Hallgrímur reyndar frá á Passíusálmum sínum:
Jesús þeim sýndi í sannri raun
sálarheill, náð og frelsi.
Guðs syni Júðar guldu í laun
grimmd, hatur og fangelsi.
Furða það, sál mín, engin er,
ei skalt því dæmi týna,
þó veröldin launi vondu þér
velgjörð mjög litla þína.