Verður blönduð vinna (e. Hybrid) allsráðandi árið 2030? Sumir vilja ganga svo langt og telja að slík vinna verði ráðandi þar sem starfsfólk geti blandað saman fjarvinnu og samvinnuverkefnum.
„Módelið er talið veita starfsfólki sveigjanleika og er ekki síður góð nálgun fyrir vinnuveitendur,“ segir Gísli Þorsteinsson, viðskipta- og vörustjóri hjá Opnum kerfum. „Segja má að þessi nálgun muni með tíð og tíma skapa fyrirsjáanleika á vinnustöðum sem tryggi bæði hag vinnuveitenda og starfsfólks. Sem dæmi ef starfsfólk tæki ákvörðun um að mæta þrjá daga í viku væru mestar líkur á að það mundi velja þriðjudag-fimmtudag,“ segir Gísli. Hann hélt kynningu á vinnustað sínum um blandaða vinnu. Um leið greindi hann frá því að Opin kerfi sé nú eini íslenski vottaði þjónustuaðili HP Poly, sem sérhæfir sig í hljóð- og myndbúnaði í fyrirtækjaumhverfi.
Aukið jafnvægi vinnu og einkalífs
Gísli segir blandaða vinnu enn fremur gera fólki kleift að ná jafnvægi milli einkalífs og faglegra skuldbindinga; fjarvinna, auk ýmissa samvinnuverkefna, geri fólki mögulegt að sérsníða vinnuumhverfi og tímasetningar eftir þörfum, svo með lausnum frá tæknifyrirtækjum eins og Poly.
„Ég sá í bloggi hjá Flex Index að tækniframfarir muni á komandi árum gegna lykilhlutverki fyrir fjarvinnu. Ljóst er að innan nokkurra ára má búast við nýstárlegum lausnum sem munu brúa enn betur bilið milli fjarvinnu og skrifstofuvinnu. Nýjungar munu festa blandaða vinnu enn frekar í sessi og ættu að stuðla að aukinni framleiðni.“
Gervigreindin mun gegna lykilhlutverki
Hann segir að fjarfundir muni skapa aukna gagnvirkni og líkja eftir hefðbundnum fundum. „Þá munu skýjalausnir halda áfram að þróast og efla aðgang að skrám, gögnum og samvinnusvæðum óháð staðsetningu. Þá má ekki gleyma gervigreind sem mun taka í auknum mæli við ýmsum verkefnum sem þarfnast endurtekningar, en slíkt mun tryggja möguleika starfsfólks á að einbeita sér að aukinni verðmætasköpun.“
Í ljósi þess ætti starfsfólk að geta tileinkað sér blandaða vinnu á óaðfinnanlegan hátt, finna hentugasta vinnustaðinn út frá verkefnum og persónulegum aðstæðum, að sögn Gísla. Slíkt muni leiða til aukins jafnvægis vinnu og einkalífs og starfsánægju.