Engin merki eru sjáanleg um að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu með átak í gangi til að auka lóðaframboð. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG-verk segir kostnað vegna lóða og opinberra gjalda hafa þrefaldast hjá byggingaraðilum á síðustu 4-5 árum
Þorvaldur er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Það er auðvitað staðreynd, einföld staðreynd, að það hefur verið viðvarandi lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu núna síðustu ár. Það er umhugsunarvert þegar verið er að tala um vöntun íbúða og gríðarlega mikla þörf á nýjum íbúðum – mikla þörf á íbúðauppbyggingu í stórum mæli – þá veltir maður óneitanlega fyrir sér: Hvar eiga þessar íbúðir að rísa?“ spyr Þorvaldur.
„Ef opinberir aðilar og sveitarfélögin hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi allar þessar nýju íbúðir, hvar eru þá lóðirnar? Hvar eru byggingarlóðirnar fyrir þessar íbúðir sem vantar? Það virðist ganga afskaplega treglega að búa þær til og það sem gerist þegar skortur er á íbúðalóðum, eins og verið hefur, er að kostnaðurinn, verð fyrir lóðirnar, eða byggingarrétt, rýkur upp úr öllu valdi.“
Þorvaldur segist telja að lóðaverð sé hætt að hækka núna og jafnvel sé það frekar farið að lækka vegna þess að framboð og eftirspurn ráðið ferðinni og eftirspurnin hefur minnkað.
„Það hefur hins vegar verið gríðarleg eftirspurn eftir lóðum síðastliðin ár og þetta misvægi hefur alltaf verið til staðar. Þá komum við aftur að þessu vandamáli sem er hækkun byggingarkostnaðar. Fjármögnunarkostnaður hefur þrefaldast á fáeinum árum, eins og ég hef áður nefnt. En það sama hefur gerst í kostnaði við lóðir og gjöld; það hefur líka þrefaldast,“ segir Þorvaldur.
Hann segir að ef horft sé 4-5 ár aftur í tímann og borinn saman lóðarkostnaður ásamt gjöldum hér á höfuðborgarsvæðinu komi í ljós að þessi kostnaður hafi u.þ.b. þrefaldast. „Það eru þessir þættir sem gera það að verkum að það er mikill hækkunarþrýstingur á íbúðarverð.“ Hann segist ekki sjá merki þess að átak sé í gangi hjá sveitarfélögum til að bæta lóðaframboð.