Rúmlega 70% aðspurða eru á þeirri skoðun að Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, eigi að stíga skrefið til fulls og hætta alfarið sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá Maskínu þar sem afsögn ráðherrans var borin undir þátttakendur. Í henni kemur fram að 13% vilja að Bjarni setjist í annan ráðherrastól, tæp 3% vilja að hann dragi í afsögn sína tilbaka og rúmlega 13% er nákvæmlega sama um hvaða skref hann tekur.
Eins og alþjóð veit tilkynnti Bjarni um afsögn sína sem fjármála- og efnhagsráðherra á blaðamannafundi í byrjun vikunnar. Tilefnið var álit umboðsmanns Alþingis um að ráðherrann hefði brostið hæfi við sölu á 22,5% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022 en félag í eigu föður Bjarna var meðal kaupenda.
Í áðurnefndri Maskínu-könnun er ákvörðunin sjálf borin undir þátttakendur og voru 80% mjög sammála eða sammála ákvörðun Bjarna. Tæplega 14% höfðu enga skoðun á afsögninni og rétt rúmlega 6% þátttakenda voru ósammála ákvörðun hans.
Ekki þarf að koma á óvart að stuðningsmenn þeirra flokka sem sitja í minnihluta á Alþingi voru mjög ánægðir með afsögn Bjarna og vilja að hann hætti alfarið sem ráðherra. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru á annarri skoðun en þó vilja tæplega 25% að hann hætti sem ráðherra en um 43 % eru á þeirri skoðun að hann eigi að taka við öðru ráðuneyti. 20% er alveg sama og rúm 12% vilja að hann dragi afsögnina tilbaka.
Hver niðurstaðan verður kemur í ljós á morgun en ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar kl.11 á morgun.
Könnunin fór fram dagana 12. til 13.október 2023 og voru svarendur 916 talsins.