Fjölmargar deildir, nefndir og ráð starfa í öflugu stóru félagi eins og FKA sem í eru 1420 konur af landinu öllu. Eitt af hlutverkum Fræðslunefndar FKA er að sjá um Nýliðamóttöku tvisvar á ári og fór ein slík fram í húsakynnum Össurar á dögunum.
„Hildur Einarsdóttir rafmagnsverkfræðingur með meistaragráðu í læknisfræðilegri verkfræði og reiknifræðilegum taugavísindum var með kröftugt erindi og það var magnað að spjalla við félagskonu sem var í salnum sem á föður sem fékk fyrir margt löngu gervifót hjá Össuri sem hafði heldur betur áhrif á allt hans fólk og hans líf,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA. „Almennt fjör, hraðstefnumót og regla sem við erum með sem er að tala við tvær til þrjár konur sem þú hefur ekki hitt áður. Við hlustum en svo tölum við líka mjög mikið. Nýliðamóttakan hjá FKA er ekki staður til að heyra saumnál detta.“
Ástríða fyrir nýsköpun út í öll horn hjá Össuri.
„Við komum fólki á fætur,“ sagði Hildur Einarsdóttir framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Össuri í áhrifaríku erindi á nýliðamóttöku FKA en reglubundin nýliðamóttaka er haldin fyrir nýjar félagskonur en einnig þær sem ætla loksins eða aftur að stimpla sig inn í starfið og verða virkari í Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA.
„Ástríða Hildar fyrir nýsköpun og víðtæk reynsla hennar og þekking á stoðtækjaiðnaðinum og stefnumótun í vöruþróun er mikil og því gefandi að hlusta á hana,“ segir Rósa Viggósdóttir sviðsstjóri sölu- og markaðsmála Sólar ræstinga sem er í stjórn fræðslunefndar.