fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: „Skrifaðu flugvöll, Jón Magnússon“

Svarthöfði
Föstudaginn 6. október 2023 12:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði tekur ofan hatt sinni fyrir Kristrúnu Frostadóttur, sem nú hefur leitt Samfylkinguna í næstum ár, fyrir að hafa farið í fundaherferð um landið og haldið 40 opna fundi með kjósendum.

Gott er til þess að vita að hinn nýi leiðtogi jafnaðarmanna skuli leggja áherslu á gott samband við kjósendur. Mættu leiðtogar fleiri stjórnmálaafla taka það sér til fyrirmyndar en Svarthöfði sér ekki betur en að margir þeirra séu einungis í lauslegu jarðsambandi og sumir reyndar algerlega sambandslausir.

Afrakstur fundaherferðar Samfylkingarinnar er nú tekinn að birtast lýðum. Í vikunni kynnti Kristrún nýjan bækling sem útlistaði ítarlega fimm þjóðarmarkmið í heilbrigðis- og öldrunarmálum sem Samfylking hyggst gera að veruleika á tveimur kjörtímabilum.

Í vikunni birtist líka skoðanakönnun sem sýnir Samfylkinguna bera höfuð og herðar yfir Sjálfstæðisflokkinn – fylgi flokks Kristrúnar er nú helmingi meira en fylgi flokks Bjarna Benediktssonar!

Svarthöfði viðurkennir þó að hann varð nokkuð hugsi þegar hann sá hver þessi þjóðarmarkmið eru og varð honum hugsað til þess að oft getur verið gott að leyfa hugmyndum að gerjast aðeins, já, melta þær almennilega, áður en þeim er skellt fram.

Allt eru þetta falleg markmið sem bera góðu hjartalagi forystu Samfylkingarinnar gott vitni:

Að fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi; þjóðarátak í umönnun eldra fólks; öruggt aðgengi um land allt; meiri tíma með sjúklingum; og ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild.

Svarthöfði er satt að segja nokkuð sannfærður um að hann hefði getið hóstað fimm svona þjóðarmarkmiðum upp úr sér algerlega án þess að fara hringinn í kringum landið til að fá hugmyndir. Samt er hann ekki sannfærður um að þessi markmið séu svarið við knýjandi spurningum sem brenna á fólki í dag og vill vart hugsa þá hugsun til enda hvernig ætti að manna það að hver íbúi þessa lands sé með sinn heimilislækni og heimilisteymi, sem hægt sé að komast að hjá, hvenær sem óskað er eftir þv,í og sem þar að auki eigi að verja meiri tíma með hverjum sjúklingi en nú er. Hvað ætli slíkt kosti?

Önnur þjóðarmarkmið virðast Svarthöfða vera óskýr, almenn og merkingarlaus – og dýr.

Við lestur bæklingsins frá Samfylkingunni, sem er niðurstaðan af 40 fundum um allt land, rifjaðist upp fyrir Svarthöfða sagan af Adolf Björnssyni, traustum bankamanni í Útvegsbankanum og gegnheilum Krata úr Hafnarfirði, sem fenginn var til að bjóða sig fram til þings fyrir Alþýðuflokkinn í Dalasýslu í haustkosningunum 1949. Adolf rann blóðið til skyldunnar og sló til þótt ekki væri um áhlaupaverk að ræða, en í næstu kosningum á undan hafði Alþýðuflokkurinn fengið heil tvö atkvæði í kjördæminu.

Adolf nálgaðist verkefni sitt af mikilli alvöru, mætti á kosningafundi í kjördæminu og var svo forsjáll að hafa með sér aðstoðarmann sem ritaði niður það helsta sem fram kom á fundunum, sem gengu mikið út á að frambjóðendur hlustuðu á óskir og kvartanir kjósenda  um eitt og annað sem betur mætti fara í kjördæminu og þingmenn gætu haft áhrif á.

Aðstoðarmaðurinn var framámaður í knattspyrnuhreyfingunni, stjórnarmaður í KSÍ, Jón Magnússon að nafni. Á fundi í Búðardal kom fram sú ábending frá einum fundarmanni að Dalirnir væru illa settir hvað það varðar að þar væri enginn flugvöllur. Adolf Björnsson greið þetta á lofti og sagði ábúðarmikill við aðstoðarmann sinn: „Skrifaðu flugvöll, Jón Magnússon!“ Adolf mun hafa landað 35 atkvæðum fyrir Alþýðuflokkinn í Dölunum í kosningunum.

Svarthöfði veltir því fyrir sér hvort stefnumörkun íslenskra jafnaðarmanna sé enn sama marki brennd og hún var þegar Jóni Magnússyni var falið að skrifa flugvöll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim