Náttfari á Hringbraut telur hættu á að Vinstri græn geti fallið út af þingi í næstu kosningum, núverandi varaformaður muni ekki geta rifið flokkinn upp eins og Katrín Jakobsdóttir gerði er hún tók við af trausti rúnum Steingrími J. Sigfússyni í aðdraganda kosninganna 2013. Þá telur hann ekki útilokað að Kristrún Frostadóttir muni nýta væntanlegan kosningasigur til að mynda tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum fremur en að mynda miðjustjórn með Viðreisn og Framsóknarflokknum.
Það er Ólafur Arnarson sem bregður sér í ham Náttfara nú sem oftar. Hann segir ólíku saman að jafna nú og þegar VG horfði fram á hrun eftir setu í óvinsælli vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2013. Þá hafi Steingrímur J. Sigfússon vikið úr formannsstóli og hleypt að ungum varaformanni flokksins, Katrínu Jakobsdóttur, sem lítið hafði borið á sem menntamálaráðherra. Flokkurinn hafi þá rétt úr kútnum og haldið sér inni á þingi.
Ólafur segir varaformann VG, Guðmund Inga Guðbrandsson, ekki munu draga fylgi að flokknum neitt í líkingu við það sem Katrín gerði fyrir áratug. Þar sem VG séu komin niður í 5,7 prósent í könnunum sé hætta á að flokkurinn hreinlega þurrkist út sem þingflokkur.
Á sama tíma fer Samfylkingin með himinskautum og er komin yfir 30 prósent í skoðanakönnunum á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn virðist við það að detta undir 20 prósentin.
„Haldist þessi mikla fylgisaukning Samfylkingarinnar fram yfir næstu kosningar, hvort sem þær verða árið 2025 eða fyrr, verður stóra spurningin hvort formaður flokksins freistar þess að mynda miðjustjórn með Viðreisn og Framsóknarflokknum – eða öðrum – eða snýr sér að því að bjóða Sjálfstæðisflokknum til samstarfs. Margir óttast að það gæti orðið raunin. Þá yrðu öll stóru orðin lögð til hliðar og hugsað fyrst og fremst um völdin og flokkshagsmuni. Það yrðu talin svik af hendi Samfylkingarinnar miðað við allt sem sagt hefur verið.“
Ólafur segir Sjálfstæðisflokkinn löngu hættan að láta hugsjónir og grundvallarstefnu trufla sig. Enginn minnist þess að hann hafi boðað fyrir kosningarnar 2017 að hann ætlaði að leiða formann Vinstri grænna til öndvegis í ríkisstjórn og gera Katrínu Jakobsdóttur að forsætisráðherra vinstri stjórnar. Það hafi Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar gert og rétt formanni sósíalista forsætisráðherratign í fyrsta skipti í Íslandssögunni.
„Flokkinn munar þá varla um að styðja formann jafnaðarmanna til öndvegis í ríkisstjórn enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins eina hugsjón: Völd fyrir sig í þágu bakhjarla sinna,“ skrifar Ólafur.
Náttfara í heild má lesa hér.