Í nýjasta Dagfarapistli sínum á Hringbraut skrifar Ólafur Arnarson að Bjarni Benediktsson reyni nú á lævíslegan hátt að koma sökinni á því að nú stefnir í að samgönguverkefnin á höfuðborgarsvæðinu, sem kennd eru við Samgöngusáttmálann stefna í að kosta 300 milljarða en ekki 160 milljarða eins og lagt var upp með, á meirihlutann í borginni og sérstaklega Dag B. Eggertsson borgarstjóra.
Ólafur bendir Bjarna á að líta sér nær; ábyrgðin á fyrirhugaðri yfirkeyrslu liggi hjá Sigurðu Inga Jóhannssyni, sem situr ásamt Bjarna við ríkisstjórnarborðið. Hann vitnar í Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri byggðar sem upplýsti í fjölmiðlum að þessar áætluðu fjárhæðir hafi orðið til á vegum Sigurðar Inga ári áður en Betri byggð var stofnuð. Davíð er fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og, að sögn Ólafs, smurður inn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins.
Þá sé góður sjálfstæðismaður, Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra flokksins og þingmaður til fjölda ára, formaður stjórnar Betri byggðar.
Ólafur bendir á að fulltrúar allra sveitarfélaga sem komu að stofnun Betri byggðar, nema Reykjavíkur, séu sjálfstæðismenn.
Hluti áætlaðrar kostnaðarhækkunar við Samgöngusáttmálann stafar af mikilli verðbólgu sem geisað hefur hér á landi en Ólafur telur einsýnt að draga verði úr umfangi sáttmálans í bili, fresta framkvæmdum, þótt mikilvægt sé að þær komist á koppinn, enda séu þessi verkefni þörf og óhjákvæmileg til að takast á við sívaxandi umferð á höfuðborgarsvæðinu öllu, ekki bara Reykjavík heldur öllu svæðinu. Nú búa þar 250 þúsund manns og hefur íbúum fjölgað um meira en 20 prósent á örfáum áru, nokkuð sem hljóti að hafa og hafi áhrif á umferðarþungann á svæðinu.
Ólafur telur örvæntingu sjálfstæðismanna vegna áratuga áhrifaleysis við stjórn Reykjavíkurborgar mögulega ráða því að sjálfstæðismenn reyni með ómerkilegum hætti að klína öllum vandanum vegna þessara vaxtaverkja á meirihlutann í borginni. Ekki sjái fyrir endann á eyðimerkurgöngu flokksins í borginni – kjósendur virðist engan áhuga hafa á að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til forystu í borgarmálunum.
Þá bendir hann á ´mikið bruðl hjá ríkinu, sem fjármálaráðherra ber óneitanlega beina ábyrgð á. Verið sé að byggja fimm hæða kontór fyrir Alþingi og flytja utanríkisráðuneytið og hið óþarfa ráðuneyti í dýrasta skrifstofuhúsnæði landsins, auk þess sem búið sé að verja 500 milljónum í að grafa stóra holu fyrir glerhýsi við gamla stjórnarráðið. Nýrrar ríkisstjórnar bíði að fylla þá holu og tyrfa yfir.
Dagfara í heild má lesa hér.