Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn og verðandi borgarstjóri, lýsir samfélagsmiðlaherferð sem sett var af stað gegn honum er hann stýrði Kastljósi. Vísaði hann þar til umdeilds viðtals sem Einar tók í Kastljósi og varðaði gagnrýni á sóttvarnir á Landspítalanum. Einar rifjaði þetta upp í Silfrinu í dag á RÚV: „Það var bara sett af stað ákveðin herferð gegn mér af því ég var gagnrýninn á ákveðnar aðgerðir,“ segir Einar en viðtalið var tekið í miðjum Covid-faraldrinum.
Einar segir að Facebook-færslu sem var skrifuð gegn honum hafi verið deilt þúsund sinnum á einni klukkustund. „Ef fólk telur hagsmunum sínum ógnað þá sækir það fram,“ sagði Einar og benti á að embættismenn og stjórnmálamenn væru stundum sett undir gífurlegan þrýsing frá hagsmunasamtökum og einstaklingum sem nýttu samfélagsmiðla til að breiða út boðskap sinn.
Einar er ekki að kvarta yfir meðferð á sér heldur benda á hvernig þrýstingur á aðila í gegnum samfélagsmiðla getur birst.
Tilefni orða Einars var umræða í þættinum um þau áform Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að skylda kjörna fulltrúa og opinbera starfsmenn til að sækja námskeið um hatursorðræðu. Hyggst forsætisráðherra leggja fram þingsályktunartillögu um þetta.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, sagði ekki vanþörf á slíkri fræðslu. Mikill rasismi væri grasserandi í samfélaginu en fæstir þyrftu að taka afleiðingum af rasískum eða fordómafullum ummælum, jafnvel ekki ráðherrar sem hefðu gerst sekir um slíkt. Jafnvel þó að kærð væru til lögreglu ummæli sem brytu gegn lögum um hatursorðræðu væri lögregla treg til að rannsaka slík mál.
Þau Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálftæðisflokksins, og Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og forseti borgarstjórnar, voru sammála um að rasismi og hatursorðræða væru vandamál í samfélaginu en voru full efasemda um að beita ætti refsilöggjöf til að takmarka málfrelsi fólks. Alexandra sagði að mikilvægt væri að fordæma hatursorðræðu í umræðu og benda á óboðlega tjáningu en nauðsynlegt væri að virða tjáningarfrelsi. Friðjón benti á að í kjölfar setningar nýrra hatursorðræðulaga í Bretlandi fyrir nokkrum árum hefði lögregla þar gengið allt of langt í að handtaka fólk fyrir tjáningu á netinu og hefði síðan tapað slíkum málum fyrir hæstarétti. „Það er hættulegt lýðræðinu ef hið opinbera fer að skilgreina hvað er rétt umræða,“ sagði Friðjón.