fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Skessa, skyggna og gildi menntunar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 22. janúar 2023 16:00

Mitterrand Frakklandsforseti og Kohl Þýskalandskanslari við minningarathöfn í Verdun árið 1984.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Tvö einkennileg fréttamál hafa verið óvenjumikið rædd nú í ársbyrjun, annað tengist tröllskessugervi á þrettándagleði, hitt skyggnum í kennslustundum. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að gera þessi mál enn að umtalsefni en umræðan um þau er sama marki brennd og svo margt í þjóðfélagsumræðu samtímans: hún ristir ekki djúpt. Fáir velta fyrir sér málum í stærra samhengi en skessu- og skyggnumálin eiga það sammerkt að þau henta vel til upphrópana og sleggjudóma sem er hvort tveggja meðal helstu einkenna þeirrar umræðu sem birtist á samfélagsmiðlum, miðlum sem geta aldrei orðið vettvangur eiginlegrar rökræðu.

Þessi pistill fjallar samt hvorki um skessur né skyggnur en þar sem menntakerfið hefur borið á góma í umræðum síðustu vikna er fróðlegt að líta til viðtals sem birtist í fyrradag á þýska miðlinum Welt við Frakkann Sylvain Fort, sérfræðing í málefnum Þýskalands og fyrrverandi ráðgjafa Emmanuels Macron Frakklandsforseta. Fort er hámenntaður í þýskum fræðum, það sem kallað er Germanist, og hefur meðal annars fengist við að þýða Schiller yfir á frönsku. Í viðtalinu ræðir hann hvernig böndin milli Frakklands og Þýskalands hafi raknað sem geti til lengri tíma litið haft alvarlegar afleiðingar fyrir samstöðu Evrópu — nú þegar séu jafnvel teikn á lofti um öfugþróun í þeim efnum. Hér sé breytingum á frönsku skólakerfi um að kenna en einnig beri núverandi og fyrrverandi kanslarar Þýskalands mikla ábyrgð.

Útvötnun menntunar?

Hvað skólana áhrærir þá læri æ færri Frakkar þýsku og þar hafi um allnokkra hríð sú stefna ráðið för að draga stórlega úr kennslu í erlendum málum, jafnt nýmálum sem klassískum, vegna þess sem Fort nefnir „Angst vor Elitenbildung“ eða ótta við eitthvað sem myndi útleggjast sem „yfirstéttarmenntun“. Félagsgreinar hafi leyst latínu, grísku og þýsku af hólmi. Nemendur fari þar með á mis við þann aga og þá rökhugsun sem því fylgir óhjákvæmilega að leggja fyrir sig málfræði áðurnefndra tungumála. Fort gengur svo langt að segja að með þessu hafi verið gengið milli bols og höfuðs á úrvalshópum nemenda í húmanískum greinum. Stærðfræðin sé næsta skotmark þessarar hugmyndafræði; hið djúpa vitsmunalega eigi ekki upp á pallborðið. Hreinar hlutlægar forsendur — líkt og liggi til grundvallar í málfræði og stærðfræði — falli síður í kramið í okkar samtíma; allt sé orðið afstætt. Hægt og bítandi hverfi af yfirborðinu hin gamalgróna braut afburðarnámsmannna.

Hvað þýskuna áhrærir hafi stöðum þýskukennara í Frakklandi verið fækkað stórlega á sínum tíma og miklu færri læri þýsku nú en fyrr. Fort segir þýskukennslu beinlínis hafa verið upprætta í frönskum skólum af áðurnefndum hugmyndafræðilegum ástæðum. Nú sé svo komið að Þjóðverjar og Frakkar þekki ekki lengur hvorir aðra („wir uns nicht mehr kennen“). Þýsk menning sé orðin Frökkum framandi, til að mynda sé ekki lengur að finna eina einustu bókabúð í París sem eingöngu selji þýskar bækur. Unga fólkið í Frakklandi sé löngu hætt að sækja tungumálanámskeið í Þýskalandi og eignist ekki þýska pennavini.

Þá sé líka svo komið að náin, persónuleg kynni milli áhrifafólks í löndunum tveimur heyri til undantekninga. Fyrir nokkrum áratugum hafi verið áberandi margir „Übersetzer zwischen den Kulturen“, þ.e. menntamenn sem báru menningaráhrif milli landanna. Slíkir menn séu orðnir sjaldséðir. Fort segir kunna boðbera þýskrar menningar í Frakklandi nálega alla komna á níræðis- og tíræðisaldur. Það sýni vel hversu hratt sé hægt að afmá djúp menningartengsl milli landa. Erfið samskipti stjórnvalda ríkjanna undanfarin misseri eru að mati Forts afleiðing þess hvernig menningarböndin hafi vísvitandi verið rofin. Hvort sem litið sé til stjórnmála, viðskiptalífs, vísinda og menntunar — alls staðar skorti lykilfólk sem ræktað hafi tengsl við Þýskaland.

Blaðamaður Welt benti líka á þá staðreynd í spurningu til Fort að andúð á þýskri menningu hafi lengi verið rík meðal fransks öfgafólks til vinstri jafnt sem hægri og því hafi fjölgað mjög á franska þinginu. Fort segir öfgafólkið skilja sem er að hin nánu tengsl Frakklands og Þýskalands séu hryggjarstykkið í Evrópusamvinnunni og þegar hann nefnir öfgafólk gildi einu hvort í hlut eigi Marine Le Pen eða Jean-Luc Mélanchon. Trosni böndin milli ríkjanna fari Evrópusamstarfið á endanum veg allrar veraldar.

Vatn á myllu andstæðinga Evrópusamvinnunnar

Evrópusamvinnan er grundvölluð á þeim traustu böndum sem bundin voru milli Frakklands og Sambandslýðveldisins þýska á eftirstríðsárunum; þarna liggur ekki einasta grunnurinn að velsæld og velmegun undanfarna sjö áratugi heldur líka því langa friðarskeiði sem við höfum lifað. Þetta skildu fremstu leiðtogar ríkjanna á síðari helmingi tuttugustu aldar vel og milli þeirra urðu náin persónuleg kynni, hvort sem um var að ræða Charles de Gaulle og Kondrad Adenauer eða François  Mitterand og Helmut Kohl. Fort segir engin slík tengsl til staðar nú.

Hann líkir sambandi ríkjanna við hjónaband, þar skiptist eðlilega á skin og skúrir, en samband þurfi að rækta og það verði að grundvallast á djúpum tengslum á sem flestum sviðum. Að mati Forts gerði Macron sitt til að treysta samskiptin en Angela Merkel hafi ekki tekið á móti útréttri hönd hans. Enn verr gangi að efla tengsl milli Macrons og Olafs Scholz kanslara. Í vikunni sem leið urðu enn betur greinileg en fyrr öndverð sjónarmið stjórnvalda í París annars vegar og Berlín hins vegar til hernaðaraðstoðar við Úkraínumenn. Hið sérstaka samband milli ríkjanna sem byggðist á djúpum menningartengslum á grundvelli þekkingar áhrifafólks á tungumálum hvors annars virðist vera á hverfanda hveli.

Íslenskir tungumálagarpar

Um páskana í hitteðfyrra vorum við félagarnir samferða svissneskum öldungi í kláfnum upp í Gemmipass Bergstation sem er í Wallis-kantónu (fr. Valais). Gamli maðurinn gerðist skrafhreyfinn þegar hann uppgötvaði að við vorum frá Íslandi. Hann hafði um skamma hríð á áttunda áratugnum átt íslenska kærustu og kynnst ýmsum löndum hennar. Allt var þetta fólk námsmenn erlendis en sá gamli sagði það hafa átt það sameiginlegt að vera mikið málafólk og síðan hefði hann haft þá hugmynd að Íslendingar væru alveg sérstakir tungumálagarpar.

Það kann að vera eitthvað til í þessu. Fram um 1970 voru danska, enska, latína, þýska og franska allt skyldugreinar til stúdentsprófs hér á landi. Skilningur á hinum Norðurlandamálunum var líka mun almennari en nú er orðinn. Í bók sinni Stjörnur og stórveldi lýsir Jón Viðar Jónsson því að á fyrstu árum Þjóðleikhússins hafi kunnir danskir og norskir leikarar reglulega stigið á svið og leikið á móti íslenskum leikurum — en mælt á sinni þjóðtungu án teljandi vandkvæða fyrir íslenska leikara eða áhorfendur. Í öðru stórmerkilegu sagnfræðiriti sem út kom fyrir rúmu ári, Fulltrúa þess besta í bandarískri menningu, segir Haukur Ingvarsson meðal annars frá útlánum Bókasafns Ísafjarðar á fjórða áratugnum, þann tíma er Guðmundur G. Hagalín var bókavörður þar vestra. Þá lásu Ísfirðingar jöfnum höndum rit á íslensku og hinum norðurlandamálunum. Seinna var skandinavískum bókmenntum ýtt til hliðar (jafnvel fyrir einstrengingsleg þjóðernisviðhorf) og loks farið með skræðurnar niður í geymslu.

Þessi tvö litlu dæmi veita innsýn í heim þar sem íslenskan er að nokkru marki hluti stærra málsvæðis — með öllum þeim ávinningi sem því fylgir sem er sérlega mikilvægur jafnfámennu þjóðfélagi og afskekktu sem býr við tungu sem enginn annar skilur (ef Færeyingar eru undanskildir). Við blasir að málakunnáttu hefur hnignað og rétt að taka enskuna þar til hliðar enda er hún hvort eð er alltumlykjandi.

Ummæli Sylvain Fort sem ég vísaði til hér að ofan eru sannarlega áleitin. Tungumálanám krefst aga og rökhugsunar sem er einhver besti undirbúningur undir háskólanám sem um getur. Að sama skapi má velta því upp hvaða afleiðingar hnignandi málakunnátta mun hafa til lengri tíma á samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir. Sé það virkilega svo að grundvöllur samstöðu stórvelda Evrópuríkja sé í hættu vegna skilningsleysis milli áhrifafólks getur sambærilegur vandi orðið enn alvarlegri fyrir örríki á einu fámennasta málsvæði álfunnar. Viðfangsefnin í menningar- og menntaefnum þjóðarinnar eru nefnilega miklu stærri en svo að þau verði smættuð í eina skyggnu eða eina skessu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland