fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þetta eru þeir þingmenn sem kostuðu Alþingi mest vegna ferða til útlanda

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 30. september 2023 12:30

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir helgi að á fyrri helmingi ársins, frá janúar til júní, hefðu alþingismenn eytt meiru í utanlandsferðir, vegna starfa sinna, en þeir hafa gert síðan 2008 að raunvirði.

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að endurgreiddur kostnaður alþingismanna við utanlandsferðir á fyrri hluta þessa árs nam hátt í 42 milljónum króna og jókst um 48% á föstu verðlagi samanborið við sama tímabil í fyrra og kostnaður við uppihald í slíkum ferðum jókst um 62%. Þrátt fyrir að leiðrétt sé fyrir verðlagi þurfi að leita aftur til ársins 2008 – þegar botninn hrundi úr gengi krónunnar – til að finna meiri útgjöld vegna utanlandsferða þingmanna á hálfs árs tímabili.

DV kannaði kostnað vegna ferða einstakra þingmanna og hér á eftir verður birtur listi yfir þá 10 þingmenn sem voru Alþingi dýrastir vegna utanlandsferða sem þeir fóru í vegna starfa sinna á tímabilinu janúar til og með júní á þessu ári. Samantektin byggir alfarið á tölum sem gefnar eru upp á heimasíðu Alþingis.

Þótt ráðherrar séu einnig þingmenn greiða ráðuneyti kostnað vegna ferða þeirra erlendis og þar sem upplýsingar um kostnað vegna þeirra ferða eru ekki aðgengilegar á heimasíðu Stjórnarráðsins og heldur ekki á heimasíðu Alþingis, sem heldur aðeins utan um ferðakostnað sem það greiði, er ferðakostnaður ráðherra ekki hluti af þessari samantekt.

Kostnaðarliðir vegna ferða þingmanna erlendis sem gefnir eru upp í tölum á heimasíðu Alþingis eru flugferðir utanlands, gisti- og fæðiskostnaður utan lands, dagpeningar og annar ferðakostnaður utan lands. Um þessa liði segir á heimasíðu Alþingis:

Flugferðir utan lands: Alþingi greiðir kostnað við flugferðir þingmanna á fundi erlendis og er að jafnaði gengið frá farseðlakaupum um 30 dögum fyrir fund til að tryggja hagkvæmni í innkaupum og er þá miðað við kaup á farseðlum á almennu farrými.

Gisti- og fæðiskostnaður utan lands: Fullir dagpeningar samkvæmt úrskurði ferðakostnaðarnefndar eru lagðir inn á reikning þingmanns á brottfarardegi eða næsta virkan dag á eftir. Þingmenn greiða gistikostnað af dagpeningum sem og ferðir til og frá flugvöllum heima og erlendis. Þingmönnum er heimilt að senda hótelreikninga til fjármálaskrifstofu eftir hverja utanferð til uppgjörs. Fari gistikostnaður yfir helming dagpeninga fá þeir mismuninn greiddan.

Dagpeningar: Þingmenn fá dagpeninga við upphaf ferðar en við uppgjör ferðakostnaðar fer eftir reglum nr.1/2009 og njóta þingmenn sömu kjara og ráðherrar og forseti Hæstaréttar (sbr. 9. lið reglnanna), þ.e. 2/3 dagpeninga, auk gistikostnaðar, en greiða staðgreiðslu af því sem er umfram hálfa dagpeninga.

Kostnaðarliðurinn annar ferðakostnaður utan lands er hins vegar ekki skilgreindur nánar.

Hér á eftir fer, í öfugri röð, listi yfir þá 10 þingmenn sem báru mestan kostnað, fyrir Alþingi, vegna vinnuferða til annarra landa, á fyrri helmingi þessa árs. Þeir þingmenn sem taka mikinn þátt í alþjóðastarfi eru einna fyrirferðarmestir á listanum.

10. sæti: Hanna Katrín Friðriksson (Viðreisn) – 1.243.461 krónur

Ferðakostnaður Hönnu Katrínar skiptist með eftirfarandi hætti:

Flugferðir: 627.710

Dagpeningar: 551.023

Gisti- og fæðiskostnaður: 64.728

Hanna Katrín fór í alls 6 ferðir erlendis frá janúar og fram til loka júní á þessu ári: Til Stokkhólms á janúarfundi Norðurlandaráðs, til Brussel á fund fastanefndar þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (fyrir Norðurlandaráð), til Þórshafnar og Osló í fræðsluferð atvinnuveganefndar Alþingis, til Tallinn á ráðstefnu Eystrasaltsþingsins um tengsl Austur- og Vestur-Evrópu, til Stralsund í Þýskalandi á fund fastanefndar þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (fyrir Norðurlandaráð) og loks til Þrándheims á sumarfund forsætisnefndar Norðurlandaráðs.

9. sæti: Berglind Ósk Guðmundsdóttir (Sjálfstæðisflokkurinn) – 1.405.810 krónur

Ferðakostnaður Berglindar Óskar skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 731.979

Flugferðir: 383.050

Gisti- og fæðiskostnaður: 290.781

Berglind Ósk fór í 3 ferðir á tímabilinu: Til Strassborgar á þingfund Evrópuráðsþingsins, til New York á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna en samkvæmt heimasíðu þingsins stóð sá fundur frá 10. febrúar til 5. mars en ekki kemur fram hvort Berglind Ósk var á fundinum allan þennan tíma. Loks fór Berglind Ósk í mars til Bahrain á vorþing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU).

8. sæti: Njáll Trausti Friðbertsson (Sjálfstæðisflokkurinn) – 1.533.534 krónur

Ferðakostnaður Njáls Trausta skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 848.283

Flugferðir: 624.910

Gisti- og fæðiskostnaður: 49.341

Annar ferðakostnaður utan lands: 11.000

Njáll Trausti fór í 5 ferðir erlendis á fyrstu 6 mánuðum ársins: Til Bretlands í fræðsluferð umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, til Brussel á febrúarfundi Nato-þingsins, til Osló á stjórnarnefndarfund NATO-þingsins, til Washington og New York í nefndarferð utanríkismálanefndar og loks til Lúxemborgar á vorfund Nato-þingsins.

7.sæti: Gísli Rafn Ólafsson (Píratar) – 1.623.661 krónur

Ferðakostnaður Gísla Rafns skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 631.441

Flugferðir: 579.291

Gisti- og fæðiskostnaður: 401.929

Annar ferðakostnaður utan lands: 11.000

Gísli fór í 5 ferðir til útlanda á tímabilinu: Til Brussel og Genf á fund þingmannanefndar EFTA, til Þórshafnar og Osló í fræðsluferð atvinnuveganefndar Alþingis, til Strassborgar á fund þingmannanefndar EES, til Washington og New York í nefndarferð utanríkismálanefndar Alþingis og loks til Liechtenstein á fund þingmanna og ráðherra EFTA.

6. sæti: Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (Framsóknarflokkurinn) – 1.667.381 krónur

Ferðakostnaður Lilju Rannveigar skiptist með eftirfarandi hætti:

Gisti- og fæðiskostnaður: 749.864

Flugferðir: 471.321

Dagpeningar: 446.196

Lilja Rannveig fór í 3 ferðir erlendis á fyrri helmingi ársins: Til Vínar á vetrarfund þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), til New York á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (á sama fund og Berglind Ósk) en ekki kemur fram hversu lengi hún var á fundinum sem sagður er hafa staðið í tæpar 3 vikur og loks fór Lilja Rannveig á ársfund þings ÖSE í Vancouver.

5. sæti: Diljá Mist Einarsdóttir (Sjálfstæðisflokkurinn) – 1.746.664 krónur

Ferðakostnaður Diljár Mistar skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 686.152

Flugferðir: 563.047

Gisti- og fæðiskostnaður: 486.465

Annar ferðakostnaður utan lands: 11.000

Diljá Mist fór í 6 ferðir erlendis á tímabilinu sem um ræðir: Til Brussel og Genf á fund þingmannanefndar EFTA, til Stokkhólms á þingmannaráðstefnu um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB, til Strassborgar á fund þingmannanefndar EES, til Washington og New York í nefndarferð utanríkismálanefndar Alþingis, til Brussel á ársfund Samtaka kvenleiðtoga (WPL) og loks til Liechtenstein á fund þingmanna og ráðherra EFTA.

4. sæti: Þorgerður Katrín Gunnardóttir (Viðreisn) – 1.755.545 krónur

Ferðakostnaður Þorgerðar Katrínar skiptist með eftirfarandi hætti:

Flugferðir: 808.056

Dagpeningar: 640.976

Gisti- og fæðiskostnaður: 295.013

Annar ferðakostnaður utan lands: 11.000

Þorgerður Katrín fór í 4 ferðir til útlanda á fyrstu 6 mánuðum ársins: Til Strassborgar á fund þingmannanefndar EES, til Washington og New York í nefndarferð utanríkismálanefndar Alþingis, til Nýju Delí á fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og loks til Liechtenstein á fund þingmanna og ráðherra EFTA.

3. sæti: Jóhann Friðrik Friðriksson (Framsóknarflokkurinn) – 2.148.040 krónur

Ferðakostnaður Jóhanns Friðriks skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 1.215.531

Flugferðir: 797.431

Gisti- og fæðiskostnaður: 135.078

Jóhann Friðrik fór í 6 utanlandsferðir á tímabilinu sem um ræðir: Til New York og Washington á sameiginlegan fund Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og Sameinuðu þjóðanna og norrænnan samráðs- og upplýsingafund, til Stokkhólms á þingmannaráðstefnu um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB, til Bahrain á vorþing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU), til Washington og New York í nefndarferð utanríkismálanefndar Alþingis, til Stokkhólms á COSAC – Fund Evrópunefnda þjóðþinga ESB og loks til Lúxemborgar á vorfund Nato-þingsins.

2. sæti: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (Píratar) – 2.738.419 krónur

Ferðakostnaður Þórhildar Sunnu skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 1.980.445

Flugferðir: 746.203

Gisti- og fæðiskostnaður: 771

Þórhildur Sunna fór í 5 ferðir erlendis á fyrstu 6 mánuðum ársins: Til Strassborgar í janúar á þingfund Evrópuráðsþingsins, til Parísar í mars en í þeirri ferð sat hún fundi jafnréttisnefndar, eftirlitsnefndar, og laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, til Strassborgar í apríl á þingfund Evrópuráðsþingsins, til Sviss 9-10. maí á ráðstefnu Evrópuráðsþingsins um kosningar á viðsjárverðum tímum og í kjölfarið til Tyrklands 11-15. maí vegna kosningaeftirlits Evrópuráðsþingsins, og loks til Kýpur á fund laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.

1. sæti: Bjarni Jónsson (Vinstrihreyfingin-grænt framboð) – 3.012.906 krónur

Ferðakostnaður Bjarna skiptist með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar: 1.534.466

Flugferðir: 1.093.381

Gisti- og fæðiskostnaður: 385.059

Bjarni fór í alls 7 ferðir út fyrir landsteinana á fyrstu 6 mánuðum ársins: Til Strassborgar, 23.-27. janúar, á þingfund Evrópuráðsþingsins og í kjölfarið 29.- 30. janúar til Stokkhólms á COSAC – formannafund Evrópunefnda þjóðþinga ESB, til Kænugarðs vegna heimsóknar formanna utanríkismálanefnda þjóðþinga Evrópuríkja til Úkraínu (Bjarni var formaður utanríkismálanefndar Alþingis en hefur nú látið af þeirri formennsku), til Haag á fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins, til Washington og New York í nefndarferð utanríkismálanefndar Alþingis, til London á fund formanna utanríkismálanefnda þjóðþinga nokkurra Evrópuríkja, til Strassborgar í apríl á þingfund Evrópuráðsþingsins og loks til Riga á fund framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Stjórnarskrárbrot Alþingis: Lögmaður sýnir svart á hvítu hversu miklu var breytt í frumvarpinu – „6 orð sem standa eftir“

Stjórnarskrárbrot Alþingis: Lögmaður sýnir svart á hvítu hversu miklu var breytt í frumvarpinu – „6 orð sem standa eftir“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Samfylkingin slaufaði Þórði – hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn við Jón Gunnarsson?

Orðið á götunni: Samfylkingin slaufaði Þórði – hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn við Jón Gunnarsson?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“