Í nýjum Náttfarapistli á Hringbraut skrifar Ólafur Arnarson að höfuðandstæðingar Sjálfstæðisflokksins séu í flokknum.
Ólafur rifjar upp skrif Páls Magnússonar, fyrrverandi þingmanns flokksins og oddvita hans í Suðurkjördæmi í blaðagrein í síðustu viku. Þar skrifar Páll í lok greinarinnar:
„Að öllu samanlögðu – og hér hefur aðeins verið stiklað á stóru – virðist blasa við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi varla annað upp úr krafsinu í þessu ríkisstjórnarsamstarfi en að glata forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum.“
Í grein sinni bendir Páll einnig á að í rúmlega 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins hafi staða hans sennilega aldrei verið verri en núna og nefnir því til stuðnings afhroðið í síðustu borgarstjórnarkosningum og að í síðustu alþingiskosningum hafi fylgi flokksins verið hið næstminnsta frá stofnun, eilítið yfir því sem var nokkrum mánuðum eftir hrunið, 2009.
Ólafur segir gagnrýni Páls á forystu Sjálfstæðisflokksins miklu alvarlegra mál en gagnrýni sem kemur frá pólitískum andstæðingum. Erfitt sé að verjast slíkri gagnrýni enda reyni forystumenn flokksins það ekki. Þeir sitji hnípnir og þegi.
Auk Páls nefnir Ólafur til sögunnar varaþingmanninn í kjördæmi formannsins, Arnar Þór Jónsson, sem hafi vægast sagt verið stóryrtur þegar hann tjáir sig um flokkinn og einstök málefni. „Hann hefur látið svo um mælt að haldi flokkurinn sig við að láta samþykkja í þinginu svonefnda bókun 35 á vegum ESB þá muni hann berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði lagður í rúst. Hvorki meira né minna,“ skrifar Ólafur.
Hann telur þó Arnar Þór ekki vera í neinni stöðu til að hóta slíku eða framkvæma en segir það hljóta að vera truflandi að hafa varaþingmann sem flytur mál sitt með þessum hætti. Ekki geti það hjálpað flokknum í þeim erfiðu aðstæðum sem hann sé í.
Þá nefnir Ólafur þingmennina Jón Gunnarsson og Óla Björn Kárason, tvo áberandi þingmenn flokksins sem hvorugur gegnir nú lykilstöðu innan þingflokksins og séu sagðir ætla „að gera það sem þeim sýnist“ á komandi þingvetri.
Náttfara í heild má lesa hér.