fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Skammaði ráðherra fyrir að brjóta lög og hlunnfara ellilífeyrisþega

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 26. september 2023 18:00

Jóhann Páll Jóhannsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag spurði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og tryggingamálaráðherra, að því hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur teldi sig hafna yfir lög og reglur á Íslandi.

Tilefni fyrirspurnarinnar var að þrátt fyrir skýr ákvæði 62. gr. almannatryggingalaga um að elli- og örorkulífeyrir skuli fylgja launaþróun í landinu og aldrei hækka minna en verðlag hækkaði lífeyrir minna en launavísitala árin 2018, 2019 og 2020 og minna en verðlag árin 2021 og 2022.

Jóhann Páll spurði hvort það væri stefna ríkisstjórnarinnar að ellilífeyrir hækki minna en laun og jafnvel minna en verðlag. Og ef svo væri ekki hvers vegna það væri þá látið viðgangast ár eftir ár að lífeyririnn dragist aftur úr launa- og verðlagsvísitölu.

Ráðherra kom í ræðustól  og svaraði því til að í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár væri kveðið á um 4,9 prósenta hækkun á bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbóta, sem væri í samræmi við verðbólguspá ársins. Þetta væri í samræmi við það hvernig þessar hækkanir hafi verið reiknaðar á undanförnum árum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Þessu til viðbótar hefði lífeyrir hækkað bæði á þessu ári og hinu síðasta á miðju ári til að mæta þessum hópum sérstaklega vegna mikillar verðbólgu. Ráðherra hafnaði því að minna væri lagt til þessara málaflokks af fjármunum en vera ber heldur væri verið að horfa til þess að passa að þetta fylgi verðlagi.

Jóhann Páll gaf lítið fyrir svör ráðherra og sagði ekki mega byggja almannatryggingakerfið á duttlungum ráðherra hverju sinni. Það verði að byggja á félagslegum réttindum, virðingu fyrir fólki og framlagi þess til samfélagsins.

Hann sagði ráðherra víkja sér undan því að tala um þá staðreynd að „ellilífeyrir hækkaði minna en launavísitala árin 2018, 2019 og 2020 og minna en verðlag árið 2021 og 2022 þvert á ákvæði laganna. Þetta er einmitt ekki leiðrétt í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 sem hæstvirtur ráðherra minntist á.

Hæstvirtur ráðherra talaði líka um hækkun á miðju ári, en hækkunin um mitt ár í fyrra dugði ekki til að viðhalda raunvirði ellilífeyris út árið og hækkunin núna í sumar er á góðri leið með að fuðra upp á verðbólgubálinu.“

Skoraði Jóhann Páll á ráðherra að koma í ræðustól og biðja skjólstæðinga kerfisins afsökunar á því að 62. gr. almannatryggingalaganna hafi ekki verið virt. „Það er ekki nóg að fylgja bara áætluðu verðlagi, það á að fylgja launaþróun, en hvorki launaþróun né verðlagi hefur verið fylgt.“

Guðmundur Ingi kom aftur í ræðustól og viðurkenndi að það væri verkefni að horfa sérstaklega til þeirra sem minnst hafa í þessu kerfi. Ítrekaði hann að í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefðu orðið hækkanir og breytingar á ellilífeyriskerfinu, sem reyndar hefðu komið til áður en sú ríkisstjórn kom til valda. Það þýði hins vegar ekki að ekki eigi að gera betur, sérstaklega við þau semséu allra neðst í greiðslum frá ríkinu. Sagði hann standa yfir vinnu við að móta tillögur þar að lútandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á