Tveir íslenskir vinnustaðir Kolibri og Smitten eru á lista Great Place to Work yfir Bestu Vinnustaði í Evrópu.
GPTW er alþjóðleg stofnun um vinnustaðamenningu.
Könnun GPTW sem ber heitið „Trust Index“™ var lögð fyrir um 2,6 milljón starfsmenn í Evrópu, hjá 3,350 fyrirtækjum í 44 löndum. Til að hljóta viðurkenninguna Bestu vinnustaðir í Evrópu þurfa fyrirtæki að hljóta háa einkunn starfsmanna sinna samanborið við fyrirtæki af sömu stærðargráðu. Einungis 150 fyrirtæki af þessum 3.350 hljóta viðurkenninguna „Bestu vinnustaðir í Evrópu“.
„Að hljóta viðurkenningu frá alþjóðlegri stofnun líkt og Great Place to Work hvetur okkur til að halda áfram að vera við sjálf og þróa kúltúrinn okkar áfram. Að vera á lista yfir bestu vinnustaði í Evrópu fyllir okkur sömuleiðis stolti og þakklæti. Við höfum í langan tíma sett fólkið okkar í fyrsta sæti og lagt mikið í vinnustaðamenninguna. Fyrirtækið okkar er ekkert án fólksins sem þar starfar og hver einasta manneskja hefur lagt sitt að mörkum,“ segir Anna Signý Guðbjörnsdóttir framkvæmdarstjóri hönnunar- og hugbúnaðarfyrirtækisins Kolbri.
Davíð Örn Símonarson, forstjóri og stofnandi Smitten, segir það mikinn heiður að vera valinn einn besti vinnustaður Evrópu með fyrirtæki sem er ekki orðið þriggja ára gamalt. „Við leggjum gríðarlega mikinn metnað í réttu ráðningarnar, vinnumenninguna og vinnuaðstöðuna sjálfa, enda fáum við fjölda umsókna í hverri viku frá hæfu fólki sem vill vinna með okkur. Það eru mörg frábær fyrirtæki með góða vinnumenningu Íslandi sem vel eiga heima á þessum lista, en að sama skapi erum við stolt og þakklát fyrir að vera valin einn besti vinnustaður Evrópu. Það er auðvitað enn þá ótrúlegra, þegar maður setur það í samhengi; að það eru rúm 20 milljón fyrirtæki í Evrópu og Ísland á tvo flotta fulltrúa á listanum,“ segir Davíð enn fremur.
Gögnin úr könnun GPTW sýna að með því að skapa vinnustaðamenningu byggða á trausti, þá er starfsfólk ánægðara og skilvirkara, líklegra til að tjá sig, vinna af meiri eldmóð, taka færri veikindadaga og er einbeittara í vinnunni. Einnig skapast meiri samvinna milli starfsfólks og hugsun verður frjórri. Og síðast en ekki síst stolt af því að vinna hjá viðkomandi fyrirtæki.