Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs Sveitarfélaga, telur ekki einsýnt að mikill raunvaxtamunur sé á milli Íslands og annarra ríkja sem nota stærri og stöðugri mynt með lægra vaxtastigi en íslenska krónan. Óttar er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Það getur alveg verið að krónan valdi því að það sé hærri vaxtakostnaður að staðaldri í íslensku sveitarfélögunum heldur en í löndunum í kring. Það er þá bara þannig. Ég sé enga leið fram hjá því meðan við erum með krónuna, ekki öðru vísi en að taka bara gjaldeyrisáhættuna og þá þurfa menn bara að þola sveiflurnar þegar þær eru ömurlegar,“ segir Óttar.
Hann segir þá sem hafa verið með löng erlend lán, þó að þeir hafi tekið þau fyrir hrun, vera komna í plús í vaxtamuninum, hann hafi skilað sér að lokum þrátt fyrir allar sveiflurnar. „Það er náttúrlega af því að verðbólgan er þrálátari hérna. Þú þarft að þola að krónan falli um svona 30-50 prósent.
Óttar segir að þótt stofnanir lifi slíkar sveiflur af peningalega sé óvíst að fólkið sem starfar í áhættustýringunni haldi vinnunni i svona rússíbanareið. „Verðlaunin fyrir það að spara eitthvað smotterí að staðaldri eru miklu minni en tjónið þegar bakslagið kemur.“