Pósturinn hefur gengið til samstarfs við póstfyrirtæki víða um heim sem vilja vinna saman að sjálfbærnimálum og setja sér sameiginleg markmið. Verkefninu stýrir International Post Corporation (IPC) og snýst það um að draga úr kolefnisspori póst- og flutningafyrirtækja og flestar aðrar hliðar sjálfbærni.
Samstarf fyrirtækjanna hófst 2009 en Ísland, Kýpur og Malta bættust í hópinn í vor og eru þátttökulöndin þá orðin 31 talsins í fimm heimsálfum.
IPC fjallaði um þátttöku Íslands á sínum miðlum og hafði eftir Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Póstsins, að aðild fyrirtækisins að verkefninu væri nauðsynlegt næsta skref í átt að sjálfbærni.
„Við viljum læra af öðrum fyrirtækjum í póstþjónustu og lítum á verkefnið sem tækifæri til að skerpa sýnina og aga okkur í upplýsingagjöf um sjálfbærni. Auk þess veitir þátttaka í verkefninu okkur aðgang að viðburðum og vinnustofum svo við getum lært hvert af öðru og unnið að stöðugum umbótum,“ segir Ásdís Káradóttir, sjálfbærnistjóri Póstsins. „Verkefnið veitir viðmið til að mæla framfarir og Pósturinn getur þá líka borið sig saman við þau póstfyrirtæki sem standa fremst á hverju sviði. Það hvetur okkur til dáða,“ bætir hún við.
Póstfyrirtæki sem taka þátt í verkefninu heita því að helminga samanlagða árlega kolefnislosun sína á tímabilinu 2019-2030. Þorri losunarinnar stafar frá byggingum (44%) og flutningum (56%). Markmiðið er að helmingurinn af samanlögðum bílaflota póstfyrirtækjanna gangi fyrir vistvænu eldsneyti, þar af gangi 25% fyrir rafmagni en 75% nýti endurnýjanlega orkugjafa.
„Við stöndum nokkuð vel að vígi hér á landi með greiðum aðgangi að heitu vatni og endurnýjanlegum orkugjöfum. Rekstur bygginga Póstsins vegur því ekki jafnþungt í losuninni og hjá flestum póstfyrirtækjum og um helmingur farartækja okkar gengur nú þegar fyrir rafmagni eða metani. Við vinnum hörðum höndum að því að minnka kolefnissporið og getum bætt okkur á fjölmargan annan máta, m.a. með skýrari stefnumótun, gagnaöflun og upplýsingagjöf,” segir hún.