fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Meint ógnarstjórn Söru Lindar hjá Ríkiskaupum sögð lama starfsemina – þekkingu kastað út – nær allir sérfræðingar horfnir á þremur árum

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. september 2023 16:00

Sara Lind Guðbergsdóttir, settur forstjóri Ríkiskaupa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og Mannlíf greindi frá í síðustu viku var fjórum reynslumiklum starfsmönnum Ríkiskaupa sagt upp störfum föstudaginn 8. september síðastliðinn. Einn starfsmaðurinn var með yfir 20 ára reynslu og langreynslumesti sérfræðingur Ríkiskaupa í opinberum innkaupum.

Gríðarleg starfsmannavelta hefur verið hjá Ríkiskaupum undanfarin þrjú ár. Sumarið 2020 var Björgvin Víkingsson ráðinn forstjóri Ríkiskaupa. Björgvin er með meistaragráðu í aðfangakeðjustjórnun frá ETH háskólanum í Zürich og B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka reynslu af innkaupum og vörustjórnun hjá alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Maersk, Aasted Aps, DT Group og Marel hf. Enn fremur hefur Björgvin kennt vörustjórnun og stefnumarkandi innkaup við Háskólann í Reykjavík.

Um áramótin 2020-21 var Sara Lind Guðbergsdóttir, sem lengst af hefur sérhæft sig í vinnumarkaðs- og mannauðsmálum í fjármálaráðuneytinu, færð úr starfi úr ráðuneytinu til Ríkiskaupa í tímabundna stöðu aðstoðarmanns Björgvins, sem þrátt fyrir miklar reynslu af aðfangakeðjum var ókunnugur opinberri stjórnsýslu.

Um vorið 2021 voru ráðnir inn þrír nýir sviðsstjórar hjá Ríkiskaupum. Það kom starfsmönnum stofnunarinnar á óvart að um svipað leyti var tilkynnt um fjórða sviðsstjórann yfir sviði sem ekki hafði verið auglýst eftir sviðsstjóra fyrir. Um nýtt svið var að ræða, svið stjórnunar og umbóta. Þessi fjórði sviðsstjóri, sem ráðinn var án auglýsingar, var Sara Lind Guðbergsdóttir. Jafnframt var tilkynnt um að hún væri orðinn staðgengill forstjóra.

Um þetta leyti byrjar mikil starfsmannavelta. Hjá Ríkiskaupum starfa að jafnaði 23-25 manns en frá því að Sara Lind Guðbergsdóttir kom inn í stofnunina hafa 19 manns hætt störfum. Eyjan hefur heimildir fyrir því að þar af hafi sjö manns, að meðtöldum þeim sem sagt var upp störfum 8. september síðastliðinn, beinlínis verið reknir. Talið er, en hefur ekki fengist staðfest, að tveir til viðbótar hafi verið reknir. Margt af þessu fólki er meðal reynslumestu starfsmanna stofnunarinnar.

Núverandi og fyrrverandi starfsmenn sem Eyjan hefur rætt við tala um ógnarstjórn innan stofnunarinnar sem hafi lamandi áhrif á getu starfsmanna til að sinna verkum sínum. Fólk skjálfi beinlínis á beinunum því að enginn viti hver verði tekinn fyrir næst. Það eitt sé víst að ein hververði tekinn fyrir og hans bíði ekkert gott.

Nú eru einungis sex starfsmenn eftir innan stofnunarinnar með lengri starfsaldur en Sara Lind. Þar af eru þrír með nokkuð langan starfsaldur en þrír sem voru ráðnir inn 2019-20. Viðmælendur Eyjunnar fullyrða að búið sé að kasta dýrmætri þekkingu og reynslu út úr Ríkiskaupum.

Fram hefur komið af hálfu Söru Lindar að rekstrarlegar ástæður séu að baki uppsögnunum 8. september síðastliðinn. Framkvæmdaráð stofnunarinnar hafi einfaldlega farið yfir hæfni starfsmanna og ákvarðanir um uppsagnir hafi verið byggðar á mati ráðsins. Samkvæmt heimildum Eyjunnar samanstendur framkvæmdaráð af forstjóra og millistjórnendum Ríkiskaupa. Nú er hins vegar einungis einn millistjórnandi eftir í skipuriti stofnunarinnar og því eru aðeins tveir í framkvæmdaráði, Sara Lind og Stefán Þór Helgason, sviðsstjóri nýsköpunar- og viðskiptaþróunar, maður sem Sara Lind réð í starfið.

Samkvæmt heimildum Eyjunnar hefur Sara Lind sjálf tekið til sín öll völd þegar kemur að rekstri og opinberum innkaupum á vegum Ríkiskaupa. Að sögn núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem rætt hafa við Eyjuna gegn því að nöfn þeirra verði ekki birt má meðal annars sjá afleiðingar þess í því að eftir að Ríkiskaup skiluðu hagnaði í áratugi af sjálfsaflafé sé reksturinn nú kominn í mínus þrátt fyrir að stofnunin sé komin á opinber fjárlög. Starfsmannamál eru sem fyrr segir í molum, starfsmannavelta upp á heila stofnun á þremur árum segi allt sem segja þarf um ástandið innan dyra.

Tímabundin setning Söru Lindar Guðbergsdóttur í embætti forstjóra Ríkiskaupa átti að renna út í lok ágúst en hefur verið framlengd til áramóta vegna þess að einhverra hluta vegna hefur fjármálaráðuneytinu ekki tekist að auglýsa eftir nýjum forstjóra þrátt fyrir að Björgvin Víkingsson hafi látið af störfum fyrir nær hálfu ári.

Starfsfólk Ríkiskaupa óttast að þessi töf sé með ráðum gerð og að fjármálaráðherra hyggist að lokum skipa Söru Lind í stöðuna og þá með vísun til þess að hún hafi meiru reynslu en aðrir umsækjendur vegna þess að hún hafi verið starfandi forstjóri stofnunarinnar meirihluta þessa árs.

Vísa starfsmenn gjarnan í mikil og góð tengsl Söru Lindar við Sjálfstæðisflokkinn og helstu forystu hans og benda á að hún sé eiginkona Stefáns Einars Stefánssonar, hlaðvarpsstjórnanda hjá Morgunblaðinu og mbl.is og kampavínsinnflytjanda, sem sé innvígður og innmúraður sjálfstæðismaður og oft nefndur til sögunnar þegar skrímsladeild flokksins ber á góma.

Eins og fram kom í umfjöllun Hringbrautar um þetta mál í vor óttast margir „að vildarvinir og fjölskyldumeðlimir fjármálaráðherra geti nýtt sér það að faglega veikur forstjóri, sem að auki sé bæði handgenginn Bjarna og eigi frama sinn undir honum, sé yfir Ríkiskaupum. Einn viðmælandi Hringbrautar segir Lindarhvolsklúður Bjarna eiga að vera hér víti til varnaðar.“

Einhverjir bandamenn Bjarna inna Sjálfstæðisflokksins lýstu þeirri skoðun við Hringbraut í vor að þeir hefðu ekki trú á því að Bjarni muni ganga svo langt að skipa Söru Lind forstjóra Ríkiskaupa í ljósi þess að hana skorti áþreifanlega menntun og reynslu á þessu sviði. Í dag sé ekki lengur nægjanlegt að vera með lögfræðimenntun til að setjast í feit embætti í stjórnkerfinu. Einn orðaði það svo að Bjarni og flokkurinn væru búnir með sín níu líf þegar kemur að spillingu og klúðri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”