fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðsluátak íhaldsins

Eyjan
Laugardaginn 16. september 2023 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í tímans rás er tvennt í boði; að fylgja breytingum samfélagsins, eða forðast þær. Og þessir tveir ólíku valkostir hverfast líka um afstöðu; að þiggja fræðslu eða venjast hræðslu.

Nú stendur yfir hræðsluátak íhaldsins á Íslandi, forpokaðra afla sem geta ekki á heilum sér tekið vegna fjölbreytileika samfélagsins og sýnileika hans. Íslenska afturhaldinu finnst einfaldlega nóg komið af litskrúði lífsins og verkjar í augun undan tilbreytilegri tilverunni.

Og það beinlínis saknar einsleitninnar sem auðkenndi íslenskt samfélag lengst af síðustu öld.

Þess vegna er ráðist að minnihlutahópum með lygum og þvættingi af gamalkunnu ofstæki þeirra sem telja sig hafa valdið og vilja laga samfélagið að sinni þröngu heimsmynd. Og það er hrært í grauti upplýsinganna þar til ýlduna leggur af pottinum.

Heimtingin er að halda til baka. Aftur í afdali.

En hver er svo meiningin?

Hún er akkúrat sú að samfélagið fari í gamla felubúninginn frá því á árum áður. Hún er staðfastlega sú að almenningur snúi af villu síns vegar – og hætti að umbera margbreytileika mannflórunnar.

Og hún er krafa um að krakkar kæfi sínar tilfinningar og steypi sér í sama gamla galna mótið.

Þegar sá sem hér lemur fingrum tveim á lyklaborðið var að vaxa úr grasi norður á Akureyri upp úr miðri síðustu öld, hafði hann ekki hugmynd um að kynhneigð eða kynsegin upplifun væri af margvíslegum toga. Samfélagið birti honum bara eina mynd. Og sú mynd nægði snáðanum. Hann reyndist jú vera gagnkynhneigður pjakkur í á að giska gagnkynhneigðum heimi sem var ekkert að ögra honum eða fá hann til að efast um sinn innri mann og útlit. Hann var þeirrar gæfu aðnjótandi að passa í púslið.

Og hann hafði ekki einu sinni ímyndunarafl til að pæla nokkurn skapaðan hlut í því að aðrar manneskjur á hans reki þyrftu að efast eitthvað um þessa sjálfsögðu heimsmynd.

Og þarna erum við einmitt komin að kjarna málsins.

„Það á að snúa tímanum aftur til þeirrar einsleitni þegar ungmenni, sem voru að átta sig á því að þau féllu ekki alveg inn í gagnkynhneigða púslið, áttu engar fyrirmyndir – og engar upplýsingar …“

Ætlum við að bjóða börn og ungmenni velkomin í samfélagið á sínum forsendum, eða einhverra annarra. Eru takmörk fyrir því hvað þetta unga fólk getur verið margbreytilegt? Og eiga þessir aðrir að velja og hafna hvaða persónu það hefur að geyma?

Og þar er grimmdin komin í yfirstandandi hræðsluátaki afturhaldsaflanna á Íslandi. Það á að snúa tímanum aftur til þeirrar einsleitni þegar ungmenni, sem voru að átta sig á því að þau féllu ekki alveg inn í gagnkynhneigða púslið, áttu engar fyrirmyndir – og engar upplýsingar – sem gátu vísað þeim veginn. Svo þau féllu mörg hver út af honum.

Eins og dæmin sanna. Mörg hver hræðileg dæmin.

Og því er valið einfalt. Sagan kennir okkur það. Og það stendur á milli fræðslu og hræðslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
22.09.2024

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur