Greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, var birt á vef Alþingis í gær. Í tilkynningu sem birt var á vefnum segir að þar sem greinargerðin hafi nú birst opinberlega séu brostin skilyrði þess að forsætisnefnd hafi málið til frekari umfjöllunar.
Þessi tilkynning er athyglisverð í marga staði. Forsætisnefnd Alþingis hefur ítrekað samþykkt að birta greinargerð Sigurðar. Eini nefndarmaðurinn sem hefur staðið í vegi þess er Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. Hafði hann raunar sjálfur lagt til í apríl á síðasta ári að greinargerðin yrði afhent blaðamanni Viðskiptablaðsins en kúventi afstöðu sinni eftir að fjármálaráðherra og flokksformaður hans, Bjarni Benediktsson, sló á putta hans.
Eftir að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, birti greinargerðina opinberlega í byrjun júlí hafa Birgir og núverandi ríkisendurskoðandi, Guðmundur Björgvin Helgason, haft stór orð um að birtingin hafi verið ólögleg og látið að því liggja að eftirmál gætu orðið af þeim sökum.
Nú hefur Birgir Ármannsson bersýnilega gleypt stóru orðin vegna þess að varla stæði hann að því að birta á vef Alþingis skjal sem ólöglegt væri að birta og gildir þá einu hvort einhver annar hafi birt það á öðrum vettvangi. Niðurstaðan er því sú að allar mótbárur Birgis, Guðmundar Björgvins og Bjarna Benediktssonar við birtingu greinargerðarinnar hafa frá upphafi verið þvaður sem ekki byggir á lögmætum rökum.
Þetta hlýtur að kalla á sjálfstæða rannsókn á því hvort forseti Alþingis, fjármálaráðherra og ríkisendurskoðandi hafi með ólögmætum hætti haldið mikilvægum upplýsingum frá þingmönnum og almenningi um alvarleg brot af hálfu stjórnar Lindarhvols og Steinars Þórs Guðgeirssonar, sem hafði framkvæmdastjórn Lindarhvols með höndum, en ríkissaksóknari hefur falið héraðssaksóknara að rannsaka efnislega ábendingar Sigurðar Þórðarsonar um saknæmt athæfi Steinars Þórs og stjórnar Lindarhvols.
Í tilkynningunni á vef Alþingis er bent á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hafi málefni Lindarhvols enn til umfjöllunar á grundvelli skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í apríl 2020. Sú skýrsla er tilraun til hvítþvottar á starfsemi sem Sigurður Þórðarson gerir mjög alvarlegar athugasemdir við í greinargerð sinni. Nú er ljóst að nefndin má hafa greinargerðina til hliðsjónar við mat á hvítþvottarskýrslu Ríkisendurskoðunar, sem Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, skilaði til Alþingis.
Væntanlega eiga nú Sigurður Þórðarson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kall til afsökunarbeiðni af hálfu forseta Alþingis og ríkisendurskoðanda vegna aðdróttana þeirra um að þau hafi með ólöglegum hætti beitt sér fyrir birtingu greinargerðarinnar sem Alþingi hefur nú sjálft birt og staðfest að löglegt sé að birta.
Eyjan bíður niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um það hvort fjármálaneytinu hafi verið stætt á því að neita að afhenda blaðamanni greinargerð Sigurðar Þórðarsonar. Nú liggur í öllu falli fyrir að ráðuneytið hafi haft heimild til að afhenda hana þó að það hafi fullyrt annað.