Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi fyrr í kvöld. Hún hóf mál sitt m.a. á því að segja að gangur efnahagslífsins væri á réttri leið með lækkandi verðbólgu og að það markmið lægi að baki aðgerðum ríkisstjórnarinnar, meðal annars með aðhaldi í ríkisrekstri, að verðbólgu yrði náð enn frekar niður til að tryggja sem best lífskjör hér á landi.
Meðal aðgerða sem Katrín boðaði í stefnuræðunni var að greiða eins og hægt er fyrir kjarasamningum.
Katrín minntist einnig á að unnið væri að aðgerðaáætlun til að draga úr fátækt. Hún sagði að í skýrslu sem unnin hefði verið að beiðni Alþingis hafi komið fram að dregið hafi úr fátækt á Íslandi undanfarna tvo áratugi og staðan í þeim málum hér á landi væri með því besta sem þekkist. Meðaltöl leysi þó ekki neyð þeirra sem ennþá eiga vart til hnífs og skeiðar þegar líður á mánuðinn. Fátækt væri enn til staðar. Öorkulífeyrisþegar séu meðal þeirra sem glími við hvað mesta fátækt og unnið sé að endurbótum á almannatryggingakerfinu sem verði innleiddar í áföngum á næstu árum. Þegar þær breytingar verði að fullu innleiddar verði það eitt stærsta skref sem stigið hefur verið til að draga úr fátækt á Íslandi.
Katrín kynnti einnig meðal annars áætlanir í loftslagsmálum, að framlög til háskóla verða aukin og fór yfir aðgerðir í heilbrigðismálum. Hún boðaði tillögur um eflingu íslenskrar tungu sem væri ekki bara dýrmæt fyrir íslensku þjóðina heldur heiminn allan. Katrín sagði bakslag hafa orðið í umræðu um réttindi hinsegin fólks hér á landi. Hún boðaði stofnun Mannréttindastofnunar og sagði það forsendu þess að unnt yrði að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem væri orðið löngu tímabært.
Að lokum sagði forsætisráðherra að það væri alltaf krefjandi viðfangsefni að vera í ríkisstjórn ekki síst óvenjulegri ríkisstjórn eins og þeirri sem nú sæti. Katrín hvatti til aukinnar þverpólitískrar samvinnu um leið og borin væri virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum. Hún sagði Ísland vera á réttri leið og að tryggja þyrfti að efnahagsbatinn sem framundan væri skilaði sér inn á hvert heimili í íslensku samfélagi.
Fyrst til andsvara af hálfu stjórnarandstöðunnar var Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar. Hún sagði meðal annars að orka ríkisstjórnarinnar færi mikið í að rífast innbyrðis og reyna að láta stjórnmálin snúast um eitthvað allt annað en það sem raunverulega brennur á fólkinu í landinu. Samfylkingin vildi mæta til leiks með raunsæjar lausnir sem endurspegluðu þau skref sem meirihluti þjóðarinnar vildi að yrðu tekin í grundvallarmálaflokkum.
Kristrún sagði að þess vegna hefði Samfylkingin ákveðið að forgangsraða þágu efnahags, velferðar og öryggis. Í lok mánaðarins muni flokkurinn kynna verklýsingu fyrir nýja ríkisstjórn sem muni meðal annars felast í fimm þjóðarmarkmiðum í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Hún sagði það eina sem ríkisstjórnin virtist vera algjörlega sammála um innbyrðis væri að halda áfram að reka skaðlega efnahags- og velferðarstefnu, sem grafi undan stöðugleika og bíti í skottið á sér. Úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í baráttu við verðbólgu væri algjört.
Samfylkingin væri stjórnmálaflokkur sem hafi mikinn metnað fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. En sá metnaður megi aldrei verða til þess að flokkurinn missi tengsl við veruleika og þarfir fólksins í landinu eins og þörfina fyrir stöðugleika, festu og öryggi.
Næst tók til máls Inga Sæland formaður Flokks fólksins. Henni virtist nokkuð niðri fyrir og sagði ótrúlegt að forsætisráðherra vogaði sér að segja að fátækt á Íslandi væri að minnka þegar hún væri þvert á móti að aukast. Vísaði Inga þar meðal annars í nýútkomna ársskýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem fram kemur að umsóknum um neyðaraðstoð hér á landi hafi fjölgað.
Hún sagði að ríkisstjórn Katrínar væri „ríkisstjórn auðvaldsins“ og blind á báðum augum. Inga sagðist halda að hún væri sjónlausi þingmaðurinn en þess ber að minnast að Inga er lögblind.
Hún sagði fátækt fólk á Íslandi bíða eftir réttlæti og að hún væri ekki að biðja um völd heldur þau sem færu með völdin að standa við stóru orðin. Á Alþingi gerðist lítið þegar kæmi að því að bæta stöðu fátæks fólks og það væri skylda allra sem á þingi sem sætu að sjá til þess að allir borgarar landsins gætu notið sín í samfélaginu. Hún lauk ræðu sinni á þessum orðum:
„Kæra þjóð, ég vildi óska að ég væri einráð í dag. Þá væru hlutirnir betri svo mikið er víst.“