Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir það ósk sjávarútvegsins að búa við stöðugan gjaldmiðil. Hún segir það ekki rétt að öll stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hér á landi séu komin út úr krónunni. Vissulega geri þau upp reikninga sína í erlendri mynt en engu að síður falli allt að helmingi kostnaðar til í íslenskri krónu.
Heiðrún Lind er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Mér þætti gaman að vita nákvæmlega hvað átt er við með því að segja íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vera komin út úr krónunni,“ segir Heiðrún Lind. „Að mörgu leyti gera hins stærri sjávarútvegsfyrirtæki upp í erlendri mynt.“
Hún segir ágætt að ræða þessi mál. „Sjávarútvegur er ekki kominn út úr íslensku krónunni. Það væri áhættutaka, ef þú ert með tekjur í erlendri mynt, að fjármagna sig í íslenskri krónu. Ég held að allir markaðsaðilar væru á þeirri skoðun að einstaklega óskynsamlegt væri fyrir sjávarútveg að gera það,“ segir Heiðrún Lind.
„Ég myndi áætla að um helmingur kostnaðar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sé í íslenskum krónum. Það er fiskvinnslan, laun í fiskvinnslunni, olía og veiðarfæri; allt er þetta í hinu íslenska hagkerfi og íslenskum krónum. Sjávarútvegurinn er þannig ekkert ónæmur fyrir íslenskri krónu og búinn að stimpla sig út þó að umræðan sé stundum þannig.“
Hún segir sjávarútveginn sannarlega finna fyrir íslensku krónunni og rifjar upp að árin 2016 og 2017, þegar krónan var mjög sterk, hafi það komið mjög við sjávarútveginn, sem geti að mjög litlu leyti brugðist við slíku þar sem hann sé hér á landi. „Hér er kjarnastarfsemin og hér verður hún – hér er auðlindin þannig að við verðum með starfsemina hér. Þetta er ekki eins og hugbúnaðarfyrirtæki sem getur fært sig á milli landa vegna þess að krónan tekur þeim breytingum að það er óheppilegt fyrir reksturinn,“ segir Heiðrún Lind.
„Krafa sjávarútvegsins, eða ósk sjávarútvegs, er ekki önnur en sú að hafa stöðugan gjaldmiðil.“
Hún segir hreyfingar á krónunni vera mannanna verk. „Við erum góð í að veiða fisk og látum öðrum eftir að meta kosti og galla við annan gjaldmiðil.“