fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tvær kúvendingar og einn kollhnís

Eyjan
Fimmtudaginn 7. september 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á innan við þremur mánuðum hefur matvælaráðherra náð að kúvenda hvalveiðistefnu landsins tvisvar. Og fjármálaráðherra hefur nú einhliða sett í uppnám þverspóltískan samning sinn við höfuðborgarsveitarfélögin um mestu samgönguframkvæmdir allra tíma.

Þetta eru vísbendingar um eins konar fyrirtíðar kosningaspennu: Tvær kúvendingar og einn kollhnís.

Bakhliðin á pólitískum leikjum af þessu tagi er síðan áhugavert skoðunarefni.

Veik staða

Ákvörðun matvælaráðherra um stöðvun hvalveiða með hálfs sólarhrings fyrirvara valt alfarið á áliti fagráðs um velferð dýra, en gekk í berhögg við stjórnsýslulög. Síðari ákvörðunin var tekin án nokkurrar tilvísunar í álit fagráðsins.

Þetta bendir til að fyrri ákvörðunin hafi fyrst og fremst átt að sýna grasrót VG að einn ráðherra flokksins gæti boðið ráðherrum samstarfsflokkanna birginn.

Jafnframt er einsýnt að síðari ákvörðunin var tekin vegna þrýstings samstarfsflokkanna.

Síðari kúvendingin lýsir því veikri pólitískri stöðu.

Trompið í erminni

En ráðherrann á mögulega tromp uppi í erminni. Eftir næstu sumarvertíð getur hún skipað nefnd, sem gert yrði að skila áliti í tíma fyrir hugsanlegar vorkosningar 2025.

Á þeim grundvelli gæti ráðherra síðan tekið lögmæta ákvörðun um varanlegt hvalveiðibann þegar stundaglas stjórnarsamstarfsins er hvort eð er að tæmast.

Eftir stendur: Pólitískir leikir af þessu tagi rýra mögulega áhuga annarra flokka á samstarfi við VG alveg óháð afstöðu þeirra til hvalveiða.

Slíkur brestur á trúverðugleika getur þannig haft pólitísk áhrif í öfugu hlutfalli við vægi málsins.

Alvöruleysi

Þegar samgöngusáttmáli ríkisins og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var gerður fyrir fjórum árum mátti öllum samningsaðilum vera ljóst að óvissuþættirnir væru nokkrir.

Í fyrsta lagi gæti verðbólga haft áhrif á áætlaðan kostnað. Í öðru lagi kynni grunnur kostnaðarmatsins, sem allir samningsaðilar báru jafna ábyrgð á, að breytast í einhverjum tilvikum. Í þriðja lagi var stærsta óvissuatriðið skilið eftir, sjálfur rekstrarkostnaðurinn.

Öll þessi atriði kalla á endurskoðun. Á hinn bóginn verður ekki séð að þau séu forsendubrestur.

Óskiljanlegt er að sveitarfélögin skuli ekki hafa knúið á um viðræður við ríkissjóð um hlutdeild í rekstrarkostnaði því að einsýnt var í upphafi að þau ráða ekki ein við það dæmi. Þetta endurspeglar alvöruleysi í fjármálum af hálfu allra sveitarfélaganna.

Opin í báða enda

Hvað merkir yfirlýsing fjármálaráðherra?

Felur hún í sér riftun? Vill ríkið breyta grundvelli samkomulagsins? Vill það lengja framkvæmdatímann? Eða er fjármálaráðherra að tala um sams konar endurskoðun og borgarstjóri?

Þetta veit enginn. Þá liggur ekki heldur fyrir hvort samstaða er milli stjórnarflokkanna hvernig túlka á yfirlýsinguna.

Það lýsir pólitískum veikleika að láta svör við þessum spurningum hanga í lausu lofti.

Hitt er greinilegt að fjármálaráðherra vill að afstaða hans sé opin í báða enda.

Ástæðan

Ætlun hans virðist vera sú að ná tveimur ósamrýmanlegum markmiðum:

Annars vegar að slæva gagnrýni Miðflokksins og íhaldssamari armsins í eigin flokki á borgarlínuna, sem er innan við helmingur af umfangi sáttmálans, með því að láta í veðri vaka að hann sé úr sögunni.

Á hinn bóginn vill hann ógjarnan láta um flokk sinn spyrjast að hann standi ekki við gerða samninga.

Svo má ekki gleyma að samkvæmt samgöngusáttmálanum á ríkisstjórnin eftir að koma fram með tillögu um sérstaka gjaldheimtu til að standa undir stórum hluta framkvæmdakostnaðarins.

Vera má að stjórnarflokkarnir treysti sér illa í það fyrir kosningar. Þeir lögðu alltént ekki í það fyrir síðustu kosningar.

Rýrir áreiðanleikaímyndina

Trúlega er yfirlýsingin líka hugsuð sem pólitísk leikflétta til þess gerð að skjóta niðurstöðu af endurskoðun samgöngusáttmálans og nýjum sérstökum umferðargjöldum vegna hans yfir á næstu ríkisstjórn.

Sá sem leikur tveimur skjöldum í kosningum á jafnan í vök að verjast í rökræðum. Leikbragðið gæti því haft þveröfug áhrif: Styrkt viðnám Miðflokksins og dýpkað ágreininginn í flokki ráðherra.

Óvissa um það hvort staðið verður við gerða samninga rýrir líka þá áreiðanleikaímynd, sem flokkur fjármálaráðherra hefur lengi haft umfram marga aðra.

Það getur síðan, eins og í tilviki VG og matvælaráðherra, þrengt samstarfsmöguleikana.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?