Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kallar eftir því að lífeyrissjóðirnir Gildi og Birta bregðist með hraði við þeirri stöðu að báðir stjórnarformenn sjóðanna, þeir Pálmar Óli Magnússon og Björgvin Jón Bjarnason, eru meðal höfuðpauranna í samráðsmáli Eimskips og Samskipa, sem talið er að hafi valdið neytendum og fyrirtækjaeigendum verulegum búsifjum.
Eins og greint var frá í lok síðustu viku ákvað Samkeppniseftirlitið að leggja 4,2 milljarða stjórnvaldssekt á Samskip, vegna ólöglegs samráðs við Eimskip á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar. Eimskip var einnig til rannsóknar í þessu sama máli, en þeirri rannsókn lauk með sátt sumarið 2021, þar sem að fyrirtækið viðurkenndi bro tog greiddi 1,5 milljarða stjórnvaldssekt auk skuldbindingar um ákveðnar aðgerðir.
Ragnar Þór bendir á að tveir af höfuðpaurunum í broti Samskips séu þeir Pálmar Óli Magnússon og Björgvin Jón Bjarnason. Báðir störfuðu þeir sem framkvæmdastjórar tiltekinna sviða innan fyrirtækisins á árunum sem brotin áttu sér stað og Pálmar Óli var ráðinn forstjóri fyrirtækisins árið 2014.
Báðir hafa þeir látið af störfum fyrir Samskip í dag en sitja báðir í forstjórastóla ólíkra fyrirtækja. Pálmar Óli er forstjóri Daga hf. og Björgvin Jón er forstjóri Hreinsitækni ehf.
Auk þessara starfa sitja þeir báðir sem formenn í stjórnum tveggja öflugra lífeyrissjóðs. Pálmar Óli er stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs og Björgvin Jón er stjórnaformaður Gildis lífeyrissjóðs. Báðir sjóðirnir eru síðan meðal stórra eigenda á Samskipum.
Ragnar Þór segist ekki eiga von á því að Pálmar Óli og Björgvin Jón sjái að sér sjálfir og stígi til hliðar úr stjórnunum. Hann kallar því eftir aðgerðum frá sjóðunum sjálfum. „Hvernig ætla þeir að bregðast við þessum brotum?“ spyr Ragnar Þór. Hann bendir á reglur sjóðanna um hæfnismat stjórnenda og stjórnarmanna en þar segir að slíkir aðilar megi ekki hafa sýnt af sér „háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga megi í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn.“ Telur Ragnar Þór það blasa við að hvorki Pálmari Óla né Björgvini Jóni sé stætt í embætti séu þessar reglur hafðar til hliðsjónar.
„Þetta eru gríðarlega valdamiklar stöður og ég sé bara ekki hvernig í ósköpunum þeir eiga að geta setið áfram. Þetta er algjörlega galin staða og því miður svolítið lýsandi fyrir íslenskt samfélag,“ segir Ragnar Þór.
Þá setur hann einnig spurningamerki við þá ákvörðun Samtaka atvinnulífsins að tilnefna Pálmar Óla sem stjórnarformann lífeyrisjóðsins árið 2021.
„Það er alveg ljóst að Pálmar Óli hefur haft réttarstöðu sakbornings í málinu þegar hann er skipaður af Samtökum atvinnulífsins inn í stjórn Birtu. Samtökin hljóta að hafa verið mjög meðvitaðir um það,” segir Ragnar.
Hann segir að málið veki upp spurningar um hverjir séu að stjórna eftirlaunasjóðunum okkar. „Hverjir eru að fara með lífeyri landsmanna og hvað eru þeir tilbúnir að gera sjálfir til að svindla á sama fólkinu og þeir þykjast vera að verja í þeim stöðunum sem þeir eru í dag,“ segir Ragnar Þór.