Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, er hneyksluð yfir áherslum meirihluta borgarstjórnar en í dag hófst fyrsti fundur eftir langt sumarfrí borgarfulltrúa. Fyrsta mál sem sett var á dagskrá var umræða um ferð borgarráðs til Bandaríkjanna en borgirnar Seattle og Portland voru heimsóttar dagana 20 – 24. ágúst síðastliðinn.
Hildur kallar ferðina „hópeflisferð“ í gagnrýninni færslu á Facebook-síðu sinni og fullyrðir að ólíklegt sé að borgarbúa bíði í ofvæni eftir tíðindum úr reisunni. „Miklu frekar bíður fólk þess að heyra hvernig við hyggjumst útvega börnum þeirra leikskólapláss, hvernig við ætlum að leysa samgönguvandann, tryggja öflugri sorphirðu, aukið framboð húsnæðis og ábyrgari meðför skattfjár, svo eitthvað sé nefnt,“ skrifar Hildur.
Bendir hún á að fundartími borgarstjórnar sé takmarður og fjölmörg brýn mál þurfi að ræða. Þau komist mögulega ekki á dagskrá út af tíma sem fór í að ræða „ræða montferð meirihlutans,“ eins og Hildur orðar það.
„Tíðindi og lærdóm úr ferðinni hefði vel mátt draga saman í einföldum tölvupósti öðrum til upplýsinga. Hvílíkt snertingarleysi við líf venjulegs fólks í Reykjavík,“ skrifar Hildur.
Dagur B. Eggertsson var fyrstur á mælendaskrá vegna málsins. Hann sagði það vissulega óvenjulegt að ferð sem þessi væri rædd á vettvangi borgarstjórnar en að tilgangurinn væri sá að fólk fengi innsýn í það af hverju borgarfulltrúar væru yfir höfuð að fara í slíkar heimsóknir. Fór Dagur svo yfir heimsóknina og tilurð hennar í löngu máli og síðan borgarfulltrúar hver af öðrum allt þar til Hildur steig í pontu og kom áðurnefndri gagnrýni á framfæri.
Alls fór um ein klukkustund og fimmtán mínútur af fundartímanum í umræður um ferðina sem nokkrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru í. Þar á meðal var Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sem skrifaði grein í Morgunblaðið um upplifun sína af fentanýlfaraldrinum sem herjar á Portland sem og fleiri borgir Bandaríkjanna.
Sjá einnig: Borgarfulltrúi lýsir heimsókn í borg uppvakninga
Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu, furðaði sig líka á málinu og birti mynd af borgarfulltrúunum þar sem sjá má Einar Þorsteinnsson, verðandi borgarstjóra, taka „sjálfu“ í hjólaferð með hópnum.
„Fyrirhyggjuleysið algert, en ferðin snýst um að baða sig í eigin frægðarljóma á kostnað borgarbúa. Það geta þó vesalings borgarfulltrúarnir ekki í Reykjavík, svo það eru skipulagðar slíkar lystireisur til útlanda. Á kostnað útsvarsgreiðenda,“ skrifar Andrés.