fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Þorbjörg Sigríður skrifar: Vaxtahækkanir: Við erum ekki öll saman í þessu

Eyjan
Mánudaginn 4. september 2023 15:02

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú geisar verðbólga víða um heim en stóra spurningin er hvers vegna þarf margfalt hærri vexti til að kæla hana á Íslandi en annars staðar? Í dag er þetta rammíslenska vandamál stærsta lífskjaraspurning almennings. Íslenskt vaxtastig nálgast núna það rússneska. Sá samanburður er nærtækari en að bera íslenska vexti við vexti á evrusvæðinu. Getur það talist heilbrigt?

Millistéttin sem gleymdist

Nú eru stýrivextir 9,25% og tugþúsundir finna fyrir hærri afborgunum af húsnæðislánum. Enn aðrir sjá hvernig höfuðstóll húsnæðisláns hækkar þrátt fyrir að borgað sé af láninu mánaðarlega. Hvert sem komið er heyrist að fólk er með hugann við verðbólgu og heimilisbókhaldið.

Það er verkefni stjórnmálanna að rýna hvaða hlutverk krónan spilar í hinum ógnarháu vöxtum. Þegar stýrivextir fóru að hækka var rúmur fjórðungur lántakenda með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Í ár munu 4500 heimili bætast við þennan hóp og verða þá ekki lengur í skjóli fastra vaxta. Í því sambandi verður að hafa í huga að aldrei hafa fleiri keypt sér sína fyrstu íbúð en á árunum 2020 og 2021. Fyrstu kaupendur og millistéttin eiga hins vegar ekkert skjól hjá ríkisstjórn í landi þar sem meðalvextir á húsnæðislánum bankanna eru 10,88%, margfalt hærri þekkist en innan evrusvæðisins.

Vaxtahækkanir bitna harðast á ungu fólki og barnafjölskyldum. Í umræðu um vexti af lánum þarf alltaf að hafa í huga að staða fólks er hvorki jöfn hvað varðar tekjur né um það á hvaða æviskeiði það er statt. Fyrstu kaupendur finna höggin af vaxtahækkunum dynja á sér núna af fullum þunga. Það gera barnafjölskyldur líka. Þetta er millistéttin. Ríkisstjórnin hefur hins vegar aðeins viljað beita húsnæðis-, vaxta- og barnabótum til að verja þau sem lakast standa en hefur skilið aðra eftir.

Aðgerðir fyrir millistéttina

Þegar aðgerðir til að ná niður verðbólgu eru fyrst og fremst með stýrivaxtahækkunum beinast þær eðlilega mjög að húsnæðislánum. Þá verður um leið augljóst að þyngsta byrðin er lögð á millistéttina. Stjórnvöld verða að sýna forystu í ástandi sem þessu og vera skýr um stefnu og um markmið aðgerða. Það gerði Viðreisn við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023. Þá lögðum við fram tillögur um að styðja við hópa sem eru að taka á sig mikinn kostnað núna í gegnum vaxta- og húsnæðisbótakerfið sem og með greiðslum barnabóta. Við lögðum ein fram hagræðingartillögur sem beindust að því að fara betur með fjármuni í stjórnsýslunni, að ráðuneytum yrði aftur fækkað og skuldir ríkisins yrðu greiddar niður á árinu. Við lögðum til tekjuöflun fyrir ríkið með hækkun veiðigjalda og kolefnisgjalda. Allar okkar tillögur spegluðu þá hugmyndafræði að sýna ábyrgð í efnahagsmálum og trúverðugar tillögur í velferðarmálum.

Hagsmunamat og réttlæti

Auðvitað er svarið um hvers vegna vextir þurfa að vera miklu hærri á Íslandi ekki bara eitthvað eitt. Það er hins vegar staðreynd að krónan er ein minnsta sjálfstæða mynt í heimi og að hún sveiflast í samræmi við það. Val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat. Þeir flokkar sem verja óbreytt ástand þurfa að svara því hvers vegna það þykir réttlætanlegt að láta bara hluta samfélagsins taka á sig kostnaðinn af margfalt meiri vaxtahækkunum sem fylgja krónunni. Það er réttlætisspurning.

Tvær þjóðir

Stór hluti fyrirtækja starfar ekki lengur í krónuhagkerfinu heldur hefur valið að gera upp í öðrum gjaldmiðli. Það er fullkomlega skiljanlegt. Þessi fyrirtæki vilja starfa í stöðugra umhverfi og taka ekki á sig þær vaxtahækkanir sem skella núna endurtekið á restina af þjóðinni. Hluti atvinnulífsins starfar í hagstæðara lánaumhverfi en annar hluti er fastur í lánaumhverfi krónunnar.

Það var áhugavert að heyra Þór Sigfússon, stjórnarformann Sjávarklasans, segja að íslenska krónan væri ekki hamlandi fyrir samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja – enda séu öll helstu fyrirtækin komin út úr þeim gjaldmiðli. Í því felst að krónan truflar sjávarútvegsfyrirtækin ekki lengur. Til þess að tryggja samkeppnishæfni var krónan einfaldlega yfirgefin.

Stóra spurningin er þá hvers vegna öðrum fyrirtækjum og almenningi bjóðast ekki sömu tækifæri. Hvers vegna búa bændur t.d. við önnur lánskjör en fyrirtæki í sjávarútvegi? Sársaukafullar vaxtahækkanir núna bitna þess vegna líka mjög misjafnlega á fyrirtækjum. Það er á engan hátt birtingarmynd þess að samfélagið allt sé að taka á sig afleiðingar verðbólgunnar – eða að við séum öll saman í þessu.

Óbreytt staða hvað varðar krónuna þýðir að tækifærin verða ekki jöfn. Að það er ekki jafnt gefið. Umræða um húsnæðislán, verðbólgu og vexti í leikkerfi íslensku krónunnar snýst þess vegna að miklu leyti um jöfn tækifæri og um réttlæti. Og þó að vandinn verði ekki leystur í þessu óveðri sem núna geisar þá þurfa stjórnmálaflokkar líka að geta horft til framtíðar. Það er einfaldlega hluti af því að vilja bjóða næstu kynslóð betri tíð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“