Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir harðlega í nýrri færslu á Facebook-síðu sinni nýleg ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Í samtali við mbl.is sagði Bjarni að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að halda aftur af verðbólgu heldur væri það hlutverk Seðlabankans. Bjarni sagði orðið langsótt hjá Seðlabankanum að vísa ábyrgð á hárri verðbólgu á aðra en sjálfan bankann sem hafi verkfærin til að vinna bug á verðbólgunni.
Jóhann segir í færslunni að með þessum ummælum stimpli Bjarni sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál. Hann segir Bjarna grafa undan trúverðugleika hagstjórnarinnar þegar síst skyldi einmitt þegar öllu skipti að hafa hemil á verðbólguvæntingum og senda skýr skilaboð um að allir armar hagstjórnar vinni í takt:
„Fjármálaráðherra sem talar með þessum hætti, þ.e. hunsar bæði lögbundnar skyldur ríkisstjórnar samkvæmt lögum um opinber fjármál og hafnar viðteknum viðhorfum um sveiflujöfnunarhlutverk ríkisfjármála, er beinlínis hættulegur kjörum og kaupmætti fólksins í landinu.“
Jóhann gefur lítið fyrir þær hugmyndir að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá íslenski stjórnmálaflokkur sem mest sé hægt að stóla á þegar kemur að ábyrgð og vandvirkni í efnahagsmálum:
„Ekki furða að margir sem áður treystu Sjálfstæðisflokknum fyrir ábyrgri efnahagsstjórn séu farnir að horfa annað.“