„Útlendingar sem lögum samkvæmt hafa ekki rétt til að vera í landinu eiga rétt á félagsþjónustu sveitarfélaga í ótilgreindan tíma. Þau mega hins vegar ekki að nota útsvarspeninga í þetta verkefni,“ skrifar Þorsteinn Pálsson um pattstöðuna sem komin er upp í útlendingamálum af kögunarhóli á Eyjunni í dag.
„Þeim er því skylt að sækja tekjuskattspeninga til félagsmálaráðherra. Hann getur aftur á móti ekki borgað af því að fjármálaráðherra hefur ekki tryggt honum heimild á fjárlögum til þess.
Næsta lögfræðiálit gæti fjallað um það álitaefni hvort fjármálaráðherra sé skylt samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum að flytja í fjárlagafrumvarpi tillögu um að félagsmálaráðherra fái heimild til að greiða það sem honum ber samkvæmt túlkun lagastofnunar.
Niðurstaðan er meiri ruglingur en fyrir málamiðlun.“
Þorsteinn segir stjórnarflokkana hafa sæst á málamiðlun í útlendingamálum í vor eftir sex ára reipdrátt um málaflokkinn
Dómsmálaráðherra hafi talið sig hafa haft áfangasigur með því að afnema rétt útlendinga til félagsþjónustu þrjátíu dögum eftir að þeim hefur endanlega verið synjað um alþjóðlega vernd.
Félagsmálaráðherra líti hins vegar svo á að breytingin þrengdi ekki rétt útlendinga til lengri dvalar, heldur víkkaði hún aðeins þjónustuhlutverk sveitarfélaga á kostnað ríkissjóðs.
Málamiðlun ríkisstjórnarflokkana hafi byggst á þessum gagnstæða skilningi.
Verkefni næstu stjórnar
Þorsteinn segir þetta mál einn vitnisburð af mörgum um þá málefnalegu endastöð stjórnarsamstarfsins sem lengi hafi blasað við.
Þingmenn stjórnarflokkanna séu þó einhuga um að það þjóni hagsmunum fólksins í landinu best að þeir sitji þar tvö ár í viðbót. Óvíst sé hvort kjósendur séu sammála því hagsmunamati.
Þorsteinn sér tækifæri í stöðunni, þegar ríkisstjórn sé komin á málefnalega endastöð gefist tækifæri til að hefja umræðu um mögulegan málefnagrundvöll næstu ríkisstjórnar. Útlendingamálin séu eitt fjölmargra verkefna, sem þessi ríkisstjórn skilji eftir fyrir þá næstu.
Hann bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið ábyrgð á útlendingamálum í tíu ár. Dómsmálaráðherra hans í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi haft frumkvæði að því að ná breiðri sátt allra flokka um ný útlendingalög, sem samþykkt voru samhljóða 2016.
Þorsteinn varar við því að reynslan frá Evrópu sýni að ráðleysi í málaflokkum á borð við útlendingamál verði vatn á myllu jaðarflokka og aukin áhrif þeirra valdi síðan óstöðugleika. Í Evrópusambandinu og Schengen hafi hófsemdaröfl vinstra og hægra megin við miðju aftur á móti náð saman um ýmis atriði í tiltölulega raunsærri útlendingapólitík.
Í útlendingalögum felst að mati Þorsteins mikilvæg mannúðarstefna. Umfanginu séu hins vegar takmörk sett og því verði hún að byggja á raunsæi.
Alþjóðlegt verkefni
Þorsteinn telur að við Íslendingar ættum að geta sameinast um að taka að tiltölu við jafn mörgu fólki á flótta eins og bandalagsþjóðir okkar í Schengen og nýta okkur það regluverk til þess að ná utan um málin.
Fjölþjóðlegt samstarf á þessu sviði sé mikilvægt og í raun forsenda þess að við höfum örugg tök á mannúðarstefnunni og komum í veg fyrir að pólitísku jaðrarnir snúi henni upp í andhverfu sína.
„Málefnalegur grundvöllur næsta ríkisstjórnarsamstarfs í útlendingamálum ætti í ríkari mæli að byggja á þeim raunhæfa ramma, sem fyrir liggur í Schengen og þar með öðrum Norðurlöndum,“ skrifar Þorsteinn Pálsson.
Pistil Þorsteins, Af kögunarhóli, má lesa í heild hér.