fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Eyjan

Takmörkuð efnahagsleg þörf á vaxtahækkun, segir Ólafur Margeirsson, sem telur nýjustu hækkunina ýta undir launakröfur í komandi kjarasamningum

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 23. ágúst 2023 16:00

Ólafur Margeirsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Margeirsson, hagfræðingur, telur hættu á að Seðlabankinn hafi gengið of langt í vaxtahækkunum sínum. Betra væri fyrir bankann að beita útlánakvótum en vaxtatækinu við þær aðstæður sem uppi eru í hagkerfinu.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans hækki um 0,5 prósent og verði 9,25 prósent. Þetta er fjórtánda vaxtahækkunin í röð og hafa vextir nú hækkað úr 0,75 prósentum í 9,25 prósent frá því í maí 2021, eða meira en tólffaldast.

Yfirlýsing peningastefnunefndarinnar nú er nokkru mildari en síðast þegar skýrt kom fram að vextir yrðu að líkindum hækkaðir áfram. Ummæli seðlabankastjóra á kynningarfundinum í morgun og í samtölum við fjölmiðla gefa hins vegar til kynna að vaxtahækkunarferli bankans kunni að verða framhaldið.

Eyjan leitaði álits Ólafs Margeirssonar, hagfræðings, á þessari vaxtahækkun og vaxtahækkunarferli Seðlabankans

Ólafur segir hækkunina í grunninn vera í samræmi við væntingar, gefið hversu harður tónninn var frá bankanum í maí. Auðvelt sé að bera rök fyrir þörfinni á vaxtahækkun í ljósi lágs atvinnuleysis og víðfeðmrar verðbólgu. „En efnahagslega þörfin á hækkun er líklega takmörkuð, sérstaklega því þessi hækkun byrjar ekki að hafa áhrif fyrr en eftir ár eða meira. Vöxtur einkaneyslu er nú þegar minni en Seðlabankinn bjóst við og hið sama má segja um magn fjárfestingar. Samdráttur íbúðafjárfestingar er sérstaklega mikill. Vaxtahækkanir síðustu missera eru því að bíta nú þegar,“ segir Ólafur.

Hann segist meta það svo að peningastefnunefnd telji hækkunina nauðsynlega til að viðhalda trúverðugleika Seðlabankans, í ljósi fyrri væntingastjórnunar. Efnahagslega þörfin sé líklega takmörkuð, auk þess sem vaxtahækkunin geti líka ýtt undir meiri óstöðugleika á vinnumarkaði, alls óvíst sé að verkalýðshreyfingin bregðist öðruvísi við en að hækka launakröfur enn frekar. „Að hafa stjórn á stígandi vinnumarkaðsskerjum er jú hlutverk allra viðkomandi aðila en ekki bara sumra. Ríkisstjórnin mætti hafa það í huga líka.“

Aðspurður um hvort Seðlabankinn sé með þessari vaxtahækkun kominn í sjálfskapaðan vítahring segir Ólafur:

„Ég myndi ekki kalla þetta sjálfskaparvíti. Bankinn verður að ná sínu verðbólgumarkmiði og svo lengi sem hann býr ekki til fjármálalegan óstöðugleika – og að viðhalda fjármálalegum stöðugleika er hans annað hlutverk – þá eru aðgerðir hans í samræmi við hans markmið.“ Ólafur bendir á að það sé ekki markmið Seðlabankans að viðhalda atvinnustigi eða hagvexti. Þurfi Seðlabankinn að keyra eftirspurn í hagkerfinu niður (búa til kreppu) til að ná sínu markmiði um lága verðbólgu muni hann gera það því það sé í samræmi við hans markmið. „Þetta gildir líka þegar framboðshliðin í hagkerfinu er ekki að stækka nóg, t.d. vegna þess að ríkisstjórnin gerir lítið til þess að auka framboð af íbúðum á einn eða annan hátt,“ segir Ólafur.

„Og ég er ekki að segja að þetta sé skynsamlegt. Ég er að segja að þetta sé í samræmi við vilja bankans til að ná þeim markmiðum sem honum er sett að ná,“ bætir Ólafur við.

En hvað finnst Ólafi um þessar vaxtahækkanir yfirleitt? Er þetta ekki allt of skart og hratt, miðað við að það tekur 12-18 mánuði fyrir áhrif vaxtahækkana að koma fram? Er ekki óhætt að segja að ef seðlabankar hækka stöðugt vexti þar til áhrifin eru komin fram þá séu þeir búnir að yfirkeyra vaxtahækkanir því aðhaldsáhrifin halda áfram að koma fram í 12-18 mánuði?

Hann samsinnir þessu. „Rétt, það er mikil töf á milli þess sem er gert og áhrifanna af því sem er gert. Í kerfisfræði (system dynamics) er þetta eitt af því sem beinlínis veldur því að kerfið er óstöðugt og sveiflast milli tveggja öfga á að því er virðist ófyrirsjáanlegan hátt. Betra væri að nota útlánakvóta vilji bankinn draga úr útlánaþenslu. Sérstaklega því slíkir kvótar virka hraðar, þ.e. töfin er styttri, en vaxtabreytingar.“

Viðbrögð verkalýðsforystunnar benda til þess að þessi síðasta vaxtahækkun muni síður en svo stuðla að hófsömum launakröfum í komandi kjarasamningum, rétt eins og Ólafur Margeirsson benti á.

Ljóst er að húsnæðiskaupendur verða illa fyrir barðinu á vaxtahækkunum Seðlabankans og hefur greiðslubyrði húsnæðislána í mörgum tilfellum meira en tvöfaldast. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagðist í morgun ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af þessu vegna þess að ýmis úrræði væru hjá lánveitendum til að koma til móts við lántaka með breyttum skilmálum sem lækka greiðslubyrði.

Hér er Ásgeir að vísa til þess að lántakendur geti sem hægast lækkað greiðslubyrði sína með því að skuldbreyta lánum sínum úr óverðtryggðum í verðtryggð. Sá böggull fylgir því skammrifi að eftir því sem stærri hluti útlána er verðtryggður því máttlausara verður vaxtavopn Seðlabankans og því má segja að hörð vaxtahækkunarstefna bankans hafi þau áhrif helst til lengri tíma litið að slá vopnin úr höndum hans sjálfs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“