Sveitarstjórar og bæjarstjórar hafa löngum verið með tekjuhæstu launþegum á Íslandi. Lengi vel var borgarstjórinn í Reykjavík í sérflokki en á seinni árum hafa bæjarstjórar minni sveitarfélaga margir hverjir brunað fram úr borgarstjóra.
Eyjan kannaði laun þriggja bæjarstjóra í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar sem létu af störfum eftir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra og bar saman við laun Dags B. Eggertssonar á síðasta ári. Laun borgarstjóra námu 2,46 milljónum á mánuði.
Í Kópavogi hvarf Ármann Kr. Ólafsson úr embætti eftir margra ára starf á síðasta ári. Samkvæmt skattskránni voru mánaðartekjur hans árið 2022 2,5 milljónir á mánuði. Íbúar í Kópavogi voru 38.998 þann 1. janúar 2022 og því var kostnaður hvers íbúa bæjarins vegna launa og launatengdra gjalda bæjarstjórans 79 krónur á hverjum mánuði og fjögurra manna fjölskylda ver 3.800 krónum á ári í laun bæjarstjórans.
Í Mosfellsbæ lét Haraldur Sverrisson af störfum eftir kosningarnar, en mánaðarlaun hans voru 2,3 milljónir á síðasta ári. Íbúar bæjarins voru 13.024 1. janúar 2022 og því nam kostnaður hvers bæjarbúa vegna launa og launatengdra gjalda bæjarstjórans 207 krónum á mánuði og kostnaður fjögurra manna fjölskyldu vegna launa hans er tæpar 10 þúsund krónur á ári.
Ókrýndur launakóngur bæjarstjóranna fyrrverandi er Gunnar Einarsson, sem lét af störfum sem bæjarstjóri Garðabæjar eftir langt og farsælt starf á síðasta ári. Mánaðarlaun hans í fyrra námu röskum 3,8 milljónum á mánuði. Íbúar Garðabæjar voru 18.445 þann 1. janúar 2022 og því nam kostnaður hvers bæjarbúa við laun og launatengd gjöld bæjarstjórans 255 krónum á mánuði á síðasta ári, að því gefnu að öll launin hafi komið frá sveitarfélaginu. Kostnaður fjögurra manna fjölskyldu í Garðabæ vegna launa Gunnars nam því ríflega 12 þúsund krónum í fyrra.
Vert er að hafa í huga að allir létu þessir bæjarstjórar af störfum í fyrra og því kunna að vera inni í þessu tölum laun frá öðrum aðilum en sveitarfélögunum, en gera verður ráð fyrir því að njóti biðlauna í 6-12 mánuði. Engu að síður blasir við að nýir bæjarstjórar tóku við eftir kosningar og voru því einnig á bæjarstjóralaunum síðari hluta síðasta árs.
Sem fyrr segir voru laun Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, 2,46 milljónir á mánuði í fyrra. Íbúafjöldi Reykjavíkur þann 1. janúar 2022 var 135.688 og því nam kostnaður við laun og launatengd gjöld borgarstjóra 22 krónum á hvern borgarbúa í fyrra. Fjögurra manna fjölskylda í borginni þurfti því að punga út rúmum þúsundkalli í laun fyrir borgarstjóra á síðasta ári.