fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hví hafa þau yfirgefið þá?

Eyjan
Fimmtudaginn 17. ágúst 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Matteusarguðspjalli segir að frelsarinn hafi kallað á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“

Í Morgunblaðinu fyrir réttri viku skrifar Guðni Ágústsson fyrrum landbúnaðarráðherra og eldheitasti  boðandi sveitanna á þessari öld:

„Hví hafa þeir flokkar yfirgefið bændur, sem alltaf stóðu að landbúnaði og sveitunum?“

Frá frelsurum til Pílatusar

Talsmenn bænda hafa lengi boðað að flokkarnir þrír, sem mynda núverandi ríkisstjórn, séu hinir einu sönnu pólitísku frelsarar. Boðskapur annarra komi frá hinu illa.

Við lestur Morgunblaðsgreinarinnar fæ ég hins vegar sterkt á tilfinninguna að þau umskipti hafi orðið að hjartalagi flokkanna þriggja verði nú helst jafnað við hjartalag Pílatusar.

Hungurleikarnir

Tilefni greinar Guðna Ágústssonar er önnur Morgunblaðsgrein eftir Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands undir fyrirsögninni: Hungurleikarnir.

Þar vísar framkvæmdastjórinn til skáldaðrar samfélagsmyndar rithöfundarins Suzanne Collins þar sem „yfirvöld hafa miðstýrt allri framleiðslu.“

Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna sér hliðstæðu í þessu skáldverki við afleiðingar landbúnaðarstefnu stjórnarflokkanna þriggja.

Orðrétt segir framkvæmdastjórinn: „Mjólkurframleiðendum og öðrum bændum fer stöðugt fækkandi og atvinnugreinin stendur frammi fyrir blýhúðuðum starfsskilyrðum beint frá Evrópu og auknum álögum, sem samþykktar voru á nýliðnu þingi, í ofanálag.“

Engar ýkjur

Hungurleikar blýhúðaðra starfsskilyrða beint frá Evrópu með alíslensku aukaálagi eru veruleikalýsing. Þeir eru sem sagt ekki skáldskapur um hugsanleg áhrif þess að stjórnarandstöðuflokkar eins og Viðreisn og Samfylking fengju völd.

Landbúnaðurinn er í blindgötu. Greinarhöfundar eru ekki að ýkja þann vanda. Allir stjórnmálaflokkar þurfa að taka hann alvarlega.

Ekki kæmi á óvart að leiðtogar stjórnarflokkanna svöruðu þessum dómum innanbúðarfólks með því að ítreka að stöðugleiki kyrrstöðunnar sé betri en hugsanlegar breytingar. Þau rök dugðu til að bæla niður uppreisn fyrrum dómsmálaráðherra, sem staðhæfði fyrr í sumar að stjórnarsamstarfið gengi ekki málefnalega upp.

Pólitískt flaut

Í Hungurleikum lýsir framkvæmdastjóri Bændasamtakanna nýju landbúnaðar- og matvælastefnu ríkisstjórnarflokkanna svo: „En á meðan aðgerðaáætlun liggur ekki fyrir er hætta á að markmiðin verði skammlíf og falli í bunka innantómra orða á blaði.“

Þetta er kjarni málsins: Í landbúnaðarstefnunni og matvælastefnunni má finna margar ágætar setningar þegar þær standa einar og sér. En þær stefna hver í sína áttina.

Fylgjendur frjálsra alþjóðlegra viðskipta geta fundið setningar sem þeim líkar. En það gera líka þeir sem trúa á einangrun og meiri viðskiptahöft.

Þegar öllu er hrært saman er niðurstaðan: Pólitískt flaut. Eða eins og þokulúður skips í hafvillu.

Næst hjarta þjóðarinnar

Þó að landbúnaðurinn ráði ekki lengur úrslitum í búskap þjóðarinnar stendur hann sennilega nær hjarta hennar en aðrar atvinnugreinar.

Hvað er þá til ráða?

Við erum þar stödd að allir stjórnmálaflokkar þurfa að svara pólitískum spurningum um landbúnaðinn.

Pólitískar spurningar

Hver er hugmyndafræðilegur grundvöllur landbúnaðarstefnunnar? Að hve miklu leyti er óhjákvæmilegt að hún rími við hugmyndafræði annarra atvinnugreina?

Ef stöðva á áframhaldandi fækkun bænda, er þá unnt að auka framleiðni með öðru en að stækka markaðssvæðið? Er í raunveruleikanum hægt að styrkja rekstrarforsendur og auka umsvif með meiri einangrun og höftum?

Hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar í ríkissjóði? Hvernig á að afla þeirra? Hverjir eiga að njóta þeirra? Hver er forgangsröðunin?

Það á ekkert skylt við pólitík að lofa öllum öllu. Pólitík snýst um að svara erfiðum spurningum.

Góður eða vondur ráðherra?

Guðni Ágústsson var landbúnaðarráðherra í næstum áratug í byrjun þessarar aldar. Á þeim tíma fækkaði bændum að tiltölu jafn mikið og finnskum bændum fyrsta áratug þeirra í Evrópusambandinu.

Hvort er þetta til marks um að hann hafi verið góður eða vondur landbúnaðarráðherra?

Fækkunin er fyrst og fremst vísbending um aukna framleiðni. Mitt mat er að Guðni Ágústsson geti að því leyti verið stoltur af samanburðinum við landbúnaðarkommissar Evrópusambandsins.

Það segir þó ekki alla söguna. Bændum heldur áfram að fækka með auknum hraða í samræmi við ríkjandi stefnu. Það dugar bara ekki til. Þess vegna er kominn tími á nýja raunsæja pólitík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður