Laun margra forstjóra hafa sveiflast talsvert milli ára og greinilegt er að áhrif kaupréttarsamninga á tekjur forstjóra fyrirtækja í íslensku Kauphöllinni eru mikil.
Eyjan skoðaði tekjur forstjóra skráðra fyrirtækja í Nasdaq-Ísland kauphöllinni. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, var tekjuhæsti forstjórinn árið 2021 með yfir 41 milljón í launatekjur á mánuði. Á síðasta ári drógust laun hans saman um ríflega 80 prósent og mánaðartekjur hans í fyrra voru 8,1 milljón.
Hástökkvarinn í Kauphöllinni í fyrra var Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem á síðasta ári tók við starfi forstjóra SKEL fjárfestingafélags. Mánaðartekjur hans hækkuðu um nærri 400 prósent milli ára og mánaðarlaunin í fyrra voru 20,5 milljónir. Áður gegndi Ásgeir Helgi starfi aðstoðarbankastjóra Arion banka og gera má ráð fyrir að stór hluti tekna hans á síðasta ári tengist uppgjöri kaupréttarsamninga.
Að sama skapi má draga þá ályktun að himinháar tekjur Árna Odds Þórðarsonar á árinu 2021 tengist nýtingu kaupréttar.
Aðrir forstjórar sem lækkuðu verulega í launum á síðasta ári eru Margrét B. Tryggvadóttir, forstjóri Nova, sem lækkar milli ára úr 9,3 milljónum á mánuði í 3,8 milljónir, eða um 59 prósent, og Finnur Oddsson, forstjóri haga, sem lækkar úr sjö milljónum í 5,3 milljónir á mánuði, eða um 24 prósent.
Þá lækkuðu laun Birnu Einarsdóttur, fyrrverandi forstjóra Íslandsbanka, úr 4,2 milljónum í 3,5 milljónir, eða um 17 prósent, en Birna lét af starfi bankastjóra nú í sumar vegna brota bankans við útboð á hlutum í bankanum á síðasta ári og var leyst út með árslaunum.
Ásta S. Fjeldsteð, sem var ráðin forstjóri Festi í ágúst á síðasta ári lækkaði úr 4,4, milljónum á mánuði í 3,8 milljónir, eða um 13 prósent. Skýringin á þeirri lækkun kann að liggja í því að hún fór í barneignarleyfi síðasta haust.
Aðrir forstjórar sem lækkuðu í launum voru Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem lækkaði úr 5,3 milljónum í 4,8 milljónir, eða um tæp níu prósent, Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, sem lækkaði úr 4,6 milljónum í 4,2 milljónir, eða um tæp 10 prósent, og Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, sem lækkaði úr tæpum 4,2 milljónum í fjórar milljónir, eða um fjögur prósent.
Hinir voru þó fleiri sem hækkuðu í launum og sumir fengu mikla hækkun.
Sem fyrr segir var hástökkvari Kauphallarinnar í launahækkun Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL, sem hækkaði úr 4,2 milljónum í 20,5 milljónir, eða um 384 prósent. Aðrir sem fengu myndarlega launahækkun á síðasta ári voru Orri Hauksson, forstjóri Símans, sem hækkaði úr 5,4 milljónum í 7,6 milljónir, eða um 41 prósent, Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, sem hækkaði úr 3,5 milljónum í 4,7 milljónir, eða um 36 prósent og Benedikt Gíslason, forstjóri Arion banka, sem hækkaði úr 4,5 milljónum í 5,5 milljónir, eða um 22 prósent. Ætla má að tekjuhækkun Orra Haukssonar sé árangurstengd, en á síðasta ári lauk Síminn sölunni á Mílu, sem skilaði hluthöfum fyrirtækisins miklum ávinningi. Salan á Mílu var valin viðskipti ársins af dómnefnd Markaðarins á Fréttablaðinu á síðasta ári.
Launahækkanir annarra forstjóra í Kauphöllinni voru á bilinu 3-14 prósent og algeng mánaðarlaun um eða yfir fjórar milljónir.