fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Er líkt komið á með jafnöldrunum?

Svarthöfði
Þriðjudaginn 15. ágúst 2023 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki er vitað til þess að ritstjóri Morgunblaðsins og þeir Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Biden, núverandi forseti, séu málkunnugir, hvað þá meira, þótt allir séu þeir á nokkuð svipuðu reki. Ritstjórinn og Biden hófu stjórnmálaferil sinn um svipað leyti, snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Báðir stigu þeir sín fyrstu skref á stjórnmálabrautinni á sveitarstjórnarstiginu.

Biden hefur reynst langlífari stjórnmálamaður og, enn sem komið er hið minnsta, farsælli en ritstjórinn sem hrökklaðist úr forsætisráðuneytinu í kjölfar kosningaósigurs, varð að gera sér að góðu utanríkisráðuneytið sem endastöð stjórnmálaferilsins áður en hann fór í hvíldarinnlögn í Seðlabankann. Svarthöfði hyggst ekki rifja upp hér hvernig það endaði.

Ferill Bidens hefur hins vegar legið upp á við í hálfa öld og ólíkt ritstjóranum náði hann því markmiði sínu að verða þjóðhöfðingi í sínu landi. Biden hefur þó mætt mótlæti á ferli sínum og skal þar helst til nefna að honum hættir til að gera orð annarra að sínum og í lagaskóla var honum gert að endurtaka námskeið vegna helst til of frjálslegrar notkunar á texta annars. Þá var hann sakaður um að endurnýta ræðu eftir Neill Kinnock, þáverandi leiðtoga breska Verkamannaflokksins, full óbreytta er hann bauð sig fyrst fram til forseta fyrir 35 árum.

Svarthöfði trúir því trauðla að ritstjórinn telji eilítið hras um ritstuld vera Biden til hnjóðs og veit ekki betur en að traustasti og nánasti bandamaður ritstjórans til áratuga sé dæmdur ritþjófur og það fyrir ritstuld á verkum nóbelsskálds.

Svarthöfði er dyggur lesandi Morgunblaðsins og í morgun rak hann augun í aðsenda grein eftir Reyni Axelsson, stærðfræðing, í blaðinu.

Reynir skrifar að honum hafi lengi blöskrað skrif Morgunblaðsins um bandarísk stjórnmál, sér í lagi lofgjörðarpistla þess um Donald J. Trump og stöðugar árásir á Joe Biden, sem gætu eins sótt efni sitt í „lygaveitur bandarískra nýfasista“.

Hann tiltekur fréttaflutning á forsíðu blaðsins 2. ágúst sl. þegar forsíðufréttin vísar í leiðarann inni í blaðinu sem var undir yfirskriftinni „Mesta spillingarhneykslið“. Fréttin og leiðarinn fjalla um það hvernig Biden forseti hafi tekið þátt í viðskiptafundum Hunters Biden, sonar síns, bæði í eigin persónu og í gegnum síma. Þetta segir blaðið hafa komið fram í framburði Devons Archer í lokuðum þingnefndaryfirheyrslum daginn áður og vitnar í formann eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings; hefur eftir honum að þetta staðfesti að Biden hafi sagt þjóðinni ósatt um að tengjast ekki viðskiptum sonar síns á nokkurn hátt.

Svarthöfði tók eftir þessum leiðara og forsíðufrétt og furðaði sig á því að engir aðrir vestrænir fjölmiðlar tækju þessi stórtíðindi upp og flyttu af þeim fréttir. Morgunblaðið eitt hafði áttað sig á því að forseti Bandaríkjanna hefði skrökvað. Þarna virtist ritstjóri Morgunblaðsins hafa skúbbað allan heiminn með frétt sem heldur betur myndi draga dilk á eftir sér.

Ólíkt Svarthöfða ákvað Reynir Axelsson að kanna frumheimildina og náði í uppskrift yfirheyrslunnar yfir Archer á heimasíðu umræddrar eftirlitsnefndar þingsins og lét sig hafa það að lesa allar 140 blaðsíðurnar. Komst hann að því að enginn fótur er fyrir fréttaflutningi Morgunblaðsins eða leiðara um þetta mál. Þessi Archer sagði einfaldlega ekki það sem Morgunblaðið hefur eftir honum. Og fundurinn var haldinn 31. júlí en ekki 1. ágúst. Já, og þingnefndarformaðurinn, sem blaðið vitnar í, var alls ekki viðstaddur fundinn.

Svarthöfði vill engu illu trúa upp á nokkurn mann og neitar að trúa því að ritstjóri Morgunblaðsins fari vísvitandi með fleipur. Eflaust hefur ritstjórinn bara misskilið textann sem hann snaraði á íslensku. Enska getur verið snúið mál, ekki síst fyrir þá sem nota hana lítið og sjaldan. Þá er því ekki að neita að ritstjóri Morgunblaðsins er löngu kominn af léttasta skeiði. Sjálfur bendir hann í sífellu á að næstum jafnaldra hans, Biden forseta, sé farið að förlast andlega og líkamlega. Kannski er líkt á komið með þeim félögum, sem báðir hófu stjórnmálaferil sinn á hippatímabilinu, fyrir meira en hálfri öld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
22.09.2024

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur